Ársæll Sveinsson, til vinstri, og Vignir Garðarsson.
Ársæll Sveinsson, til vinstri, og Vignir Garðarsson.
FRAMKVÆMDIR við nýtt íþróttahús í Vestmannaeyjum ganga samkvæmt áætlun en nýi salurinn, sem verður um 2.700 fermetrar, mun tengjast núverandi íþróttasal og sundlaug, með um 300 fermetra tengibyggingu.

FRAMKVÆMDIR við nýtt íþróttahús í Vestmannaeyjum ganga samkvæmt áætlun en nýi salurinn, sem verður um 2.700 fermetrar, mun tengjast núverandi íþróttasal og sundlaug, með um 300 fermetra tengibyggingu. Heildarflatarmál íþróttamiðstöðvarinnar í Eyjum verður því um 6.300 fermetrar á einni hæð. Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun 1. desember en áætlaður framkvæmdakostnaður er um 300 milljónir króna.

Vignir Guðnason, forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar, sagði að mikil þörf hefði verið á nýjum íþróttasal í bænum vegna mikillar eftirspurnar eftir æfingaplássi.

Hann sagði að með tilkomu nýja salarins væru Eyjamenn komnir með eina glæsilegustu íþróttaaðstöðu á landinu, þ.e. íþróttasali, sundlaug og líkamræktaraðstöðu allt undir einu þaki. Hann sagðist ekki vera í vafa um að aðstaðan myndi nýtast vel og benti á að um 240 þúsund manns hefðu komið í íþróttamiðstöðina á síðasta ári.

Hægt verður að skipta nýja húsinu annaðhvort upp í tvo sali af sömu stærð og gamli salurinn er eða fjóra minni sali.

30 manns vinna við bygginguna í vor og fram á haust

Ársæll Sveinsson, einn af eigendum Steina og Olla, verktakanna sem sjá um verkið, sagði að framkvæmdir við grunninn hefðu hafist í byrjun júlí og lokið um miðjan ágúst. Hann sagði að framkvæmdir hefðu síðan hafist aftur af fullum krafti í október og vegna góðs tíðarfars í vetur hefðu þær gengið mjög vel. Um 15 til 20 manns hafa unnið við bygginguna í vetur en búast má við að um 30 manns verði við vinnu á staðnum í vor og fram á haust.

Auk þess að byggja nýtt íþróttahús og tengibyggingu hefur verið unnið að því að klæða alla íþróttamiðstöðina að utan.