Lykill að skuggalegu lífi Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson Gyrðir Elíasson: SVEFNHJÓLIÐ. Mál og menning 1990.

Lykill að skuggalegu lífi Bókmenntir Jóhann Hjálmarsson Gyrðir Elíasson: SVEFNHJÓLIÐ. Mál og menning 1990. Með Svefnhjólinu heldur Gyrðir Elíasson áfram að rækta sinn eigin stíl og frásagnarhátt sem við þekkjum úr skáldsögu hans Gangandi íkorna (1987) og smásagnasafninu Bréfbátarigningunni (1988). Það er visst samhengi milli þessara verka, ekki síst hvað varðar hin óljósu mörk milli draums og veruleika sem tíðum ráða ferðinni hjá Gyrði.

Umhverfislýsingar Gyrðis eru oft mjög nákvæmar og sama er að segja um lýsingar á því sem í huganum býr. Skilin þarna á milli eru ekki höfuðatriði, skipta í raun litlu máli.

Í Svefnhjólinu til dæmis er oft á huldu hvort atburðir eiga sér stað í heimi lifenda eða dauðra. Sonurinn í sögunni sem ritar bréf til föður síns og skrifar undir þinn afturgengni sonur" er vissulega framliðinn, að minnsta kosti á köflum. Það er ósköp lítið um venjulegar persónur í sögunni, flestar eru þær þjóðsagna- eða draugakyns. Nærvera skrímsla og móra ágerist í sagnaheimi Gyrðis.

Við óhugnaðinn hefur bæst glettni, kankvísar myndir og athugasemdir sem laða fram bros. Kynlífslýsingar (að vísu einhæfar) eru líka meðal nýjunga.

Þessi íslenski Ódysseifur (hann les mikið Hómer) fæst við að skrifa eins og höfundurinn sjálfur og helstu viðkomustaðir hans eru kunnuglegir: þorp, kauptún, borg. Kannski má segja að sagan sé einskonar stefnumót við uppruna og yrkisefni og þá sjálfsævisöguleg eins og ekki er óalgengt hjá fleiri höfundum. En að því marki er ekki valin bein leið heldur þræddar slóðir sem liggja utan alfaravegar. Það gerir söguna forvitnilega og að sama skapi flókna á köflum. Sé unnt að tala um tilgang höfundar er hann í ætt við þá dul sem einkennir söguna.

Í upphafi Svefnhjólsins hittum við fyrir sögumann sem með lyklinum frá pabba gamla" opnar dyr sumarhúss í ónefndu þorpi. Þangað er hann kominn til að skrifa þvíað hann er með ritvél með sér og er fljótlega sokkinn í lestur Ódysseifskviðu. Í sumarhúsinu liggur drungi í loftinu og svefnherbergið fyllir eins konar vitund um skuggalegt líf. Andblæ sögunnar greinir lesandinn fljótt:

Sjórinn murrar og malar neðan hússins, og meðan ég svipti hlerum frá gluggum utanfrá finnst mér einsog langt úti á gráum fletinum séu tvö augu að glápa á mig. Þetta er heldur ónotaleg hugmynd, en svo yppti ég bara öxlum og hugsa sem svo að það sé þá bara selur, einn þessara gömlu egypta sem eru að þvælast hér norður í höfum."

Draumur og veruleiki renna fljótlega saman í eitt í Svefnhjól inu. Mynd þorpsins er að vísu raunsæisleg, en galdraheimar" sækja á og freista. Engu að síður er Gyrðir trúr þeirri aðferð sinni að búa lesandann smám saman undir furður.

Í lok fyrsta hluta Svefnhjólsins sofnar sögumaður í baði eins og honum er tamt. Þegar hann vaknar er hann ekki staddur í sumarhúsinu í þorpinu heldur í öðru húsi í kauptúni þar sem hann ólst upp. Annar hluti endar svo á að sögumaður sofnar vært í baði og í þriðja og síðasta hluta vaknar hann í borg í ókunnu húsi. Verið getur að einhverjum þyki þessar baðferð ir óþarfar í sögunni, en þær tengja hlutana saman.

Hugarflug sögumanns, hinar dularfullu og litríku myndir frá annarlegum heimi geta ef til vill þreytt suma lesendur, að minnstakosti þá sem vilja hafa sem flest í skorðum vanans. Þess vegna er nær útilokað að njóta Svefnhjólsins gefi lesandinn sig ekki sögunni á vald. Stíllinn getur verið heillandi þegar best tekst. Áberandi eru aukin tök höfundar á máli og að hann hefur yndi af sjaldgæfum orðum.

Mér virðist Gyrðir Elíasson nálgast ævintýrið í Svefnhjólinu. Hann segir frá einkennilegum húsum með skrýtnum búnaði, undarlegu fólki, ekki síst dularfullum börnum, kenjóttum dýrum og fuglum. Honum er í mun að laða fram andblæ, stemmningar sem sífellt birta andstæður draums og vöku, en eru þó oft jarðbundnar.

Hlutveruleikanum miðlar Gyrðir með smámunasemi sem þó er ekki utan marka sögunnar. Sögumaður er með Kolibri ritvél, mótorhjólið hans er Suzuki TS 400, ryksugan er Nílfiskur, sá sem vitnar um að hafa séð Loch-Ness skrímslið í bók sem sögumaður hnuplaði á bæjar safninu er Land-Rover eigandi, kona nokkur á dimmgræna Lödu, yfirsmiðurinn kemur til vinnu á Farmall-Cub, olíulitirnir eru frá Winsor og Newton, kaffiduftið kemur úr bláum Maxwell house dalli. Svona mætti lengi halda áfram.

Í síðustu köflunum þar sem m.a. er lýst ferð með duggu þar sem kuflklædd vera er við stjórnvöl minnir á aldalokamystík í anda málarans Arnolds Böcklins. Ekki er ljóst hvort söguhetjan er á leið heim eða stödd um borð í ferju dauðans. ?msar hefðbundnar tilvísanir í sögur og sagnir skjóta upp kolli. Bréfið til föðurins sem skrifað er um borð í duggunni er eins konar upprifjun og niðurstaða sögunnar, ferðar sem var farin eða var ekki farin nema í draumi.

Þessi kafli sem er hinn 29. er afburðavel skrifaður. Enn sem fyrr er það þorpið sem er fyrir stafni, gamla steinbryggjan, nautgripir sem fara á dansleik, sækýr með þangi vafin horn og hreindýr með sykurhnúðuð horn sem hlusta á kvöldin eftir munnhörpuspili frá bátum.

Allt er þetta af toga ævintýra og jafnvel eftirfarandi hugleiðingum dauðann. Enn er skrifað í káetu kuflverunnar:

Loðfrakki lagður yfir stólbak, marr í rá og reiða yfir mér, tröll í kufli ræður för, hvergi syngur spör, en pabbi pabbi ég bjargaði mús við brunahana og kannski þarf ég ekki að vera svona smeykur við að deyja þessvegna, nema kettir séu einráðir hinumegin, hinumegin segi ég, ég veit ekki mitt rjúkandi ráð lengur, hvorumegin ég er, sennilega báðumegin, en stundum finnst mér ég vera að hníga í ómegin -"

Svefnhjólið er í senn opin og lokuð saga, vefst ekki að marki fyrir þeim sem hafa gaman af skringilegum og óvissum ferðalögum og leikgleði, en er tormeltari þeim sem vilja ráða öll tákn. Skáldsagan er óður til svefnsins og draumanna og dauðans, en sá síðastnefndi felur alltaf í sér líf.

Að lokum hvatning tekin beint upp úr kirkjugarðsfrásögn í Svefn hjólinu með ofurlitlum tilbrigðum:

Við, hinir dauðu, rísum upp!

Gyrðir Elíasson