BJÖRGUNARSVEITIN á Höfn í Hornafirði var kalluð til aðstoðar níu manns á tveim jeppum á Vatnajökli á þriðjudagskvöld. Þar voru á ferð þrír Íslendingar með sex þýska ferðamenn á vegum ferðaskrifstofunnar Katla Travel.

BJÖRGUNARSVEITIN á Höfn í Hornafirði var kalluð til aðstoðar níu manns á tveim jeppum á Vatnajökli á þriðjudagskvöld. Þar voru á ferð þrír Íslendingar með sex þýska ferðamenn á vegum ferðaskrifstofunnar Katla Travel.

Ferðalangarnir hringdu í lögregluna á Höfn um klukkan 17 á þriðjudag þegar jepparnir voru orðnir eldsneytislitlir, en þá voru þeir staddir nokkra km ofan við þjónustumiðstöðina Jöklasel, við rætur Skálafellsjökuls í austanverðum Vatnajökli. Lögreglan gerði björgunarsveitinni viðvart, sem brást við með því að koma til þeirra eldsneyti og ryðja leiðina frá Jöklaseli niður á þjóðveg, 16 km kafla, með jarðýtu. Veður var gott á þessum slóðum að sögn björgunarmanna en kafdjúpur snjór hafði tafið för fólksins meir en búist var við með þeim afleiðingum að mjög gekk á eldsneytisbirgðirnar. Fólkið komst síðan í Freysnes um klukkan 4 aðfaranótt miðvikudags og gisti þar.

Hættu við för vegna stormviðvörunar

Ferð fólksins hófst í Reykjavík á föstudag og var ferðinni heitið til Egilsstaða með viðkomu á nokkrum stöðum á hálendinu. Fólkið var á leið inn að Snæfelli frá Grímsvötnum þegar stormviðvörun var gefin út á þriðjudag og hætti það þá við för sína í Snæfell og ákvað að halda suður eftir jökli að Jöklaseli. "Við áttum að vera stödd í Snæfelli þegar stormurinn kæmi en vildum ekki hætta á að verða veðurteppt þar og ákváðum því að snúa við út af slæmri spá og þungu færi. Við töldum víst að við myndum lenda í skárra færi þegar sunnar drægi en sú varð ekki reyndin," sagði Hlynur Lárusson bifreiðastjóri. Að sögn hans var enginn í hættu og ennfremur stöðvuðust jepparnir aldrei, hvorki vegna veðurs, færis né eldsneytisleysis, en ljóst var að vegna þungs færis myndi eldsneytið ekki duga alla leið og því var þörf á aðstoð.