31. mars 2001 | Menningarblað/Lesbók | 4256 orð | 7 myndir

ATHVARF Á LEIÐ YFIR HELLISHEIÐI Í RÚM 90 ÁR - FYRRI HLUTI

KOLVIÐARHÓLL

Séð upp í Hellisskarð frá Kolviðarhóli. Vatn stendur í götunni þar sem hún liggur í gegnum túngarðinn, en vatnsskortur var til vandræða á fyrstu árum veitingareksturs á Hólnum. Þar er ekkert rennandi vatn í nálægð.
Séð upp í Hellisskarð frá Kolviðarhóli. Vatn stendur í götunni þar sem hún liggur í gegnum túngarðinn, en vatnsskortur var til vandræða á fyrstu árum veitingareksturs á Hólnum. Þar er ekkert rennandi vatn í nálægð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsvörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestaferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.
Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konungs VIII í Íslandsför hans 1907. Segja má að húsin "á Hólnum" hafi verið lífsnauðsynleg björgunar- og aðhlynningarstöð fyrir menn og hesta. Eftir hrakninga í ófærð og illviðrum á Hellisheiði og í Svínahrauni var ómetanlegt að komast í húsaskjól, geta þurrkað föt sín, fengið matarbita, svo og heytuggu handa hestum.

Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, unz hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattann stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina. Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymslu og dá.

Sá skortur á menningarlegum metnaði, eða barbarismi, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og verður vikið að því í síðari hluta greinarinnar. En um leið og búið er að afmá öll ummerki um þennan fyrrum fræga gististað eru þeir einnig ómaklega gleymdir sem byggðu upp Kolviðarhól og sinntu hjálparstarfi jafnframt því að sjá gestum fyrir veitingum og húsaskjóli, framan af við óbjörguleg skilyrði. Þar ber hæst hlut þrennra hjóna: Jóns Jónssonar og Kristínar Daníelsdóttur á frumstigi þessarar þjónustu, síðan Guðna Þorbergssonar og Margrétar Jónsdóttur fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins, Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu þá deili á.

Umhverfi og alfaraleiðir

Þjóðleiðin forna úr Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás, en þaðan í sjónhendingu í Hellisskarð ofan við Kolviðarhól. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst og segir þar að vestari partur Hellisheiðar sé "víða með sléttum hellum og hraungrjóti, án gatna sem (sem) hestanna járn gafa gjört, og auðsjáanlegt er..."

Þessar hestagötur sem markast hafa í hraunhelluna af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á hestagötuna í hrauninu í lýsingu sinni frá 1703 og finnst gatan með ólíkindum regluleg og bein. Tilgáta hans, að öll Hellisheiði hafi gosið í einu er þó fjarri lagi; það vita menn nú. Eins er Sveinn á villigötum þegar hann segir þetta fyrst hafa gerst árið 1000 "og síðan margsinnis". Kristnitökuhraunið frá árinu 1000 rann úr Eldborg, en var reyndar síðasta hraunið sem runnið hefur á þessum slóðum. Öll önnur hraun eru eldri.

Svínahraun hafði runnið úr Leitinni, eldstöð skammt frá hinni, fyrir um 4800 árum; fyrst í norður í áttina að Kolviðarhóli, en síðan eftir mjóum farvegi í vestur, allar götur niður í Elliðaárvog. Þetta hraun náði ekki alveg norður að fjöllunum. Milli þeirra og hraunsins urðu með tímanum til grösugir vellir sem vel sjást frá Kolviðarhóli. Enda þótt þeir kunni að virðast búsældarlegir lagði enginn í að nema þar land.

Við Bolaöldu, vestan hraunsins, eru sýslumörk; Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Norðvestur frá Kolviðarhóli rís Húsmúlinn, Skarðsmýrarfjall er í norðaustur, en Reykjafell þegar litið er til suðurs. Útsýnið af hólnum þar sem gistihúsið stóð er opið vestur yfir Svínahraun og yfir Miðdalsheiði. Þegar frá eru skildar grasflatir, fyrrum tún á Kolviðarhóli, er útsýnið mestan part yfir hraun og fjöll, en grýtt brekkan í Hellisskarði að baki.

Viðureign Kolviðs og Búa

Enda þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga hermir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi á Eyrum (Eyrarbakka).

Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir við þann stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Bolasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hann baki að steininum svo ekki varð komizt aftan að honum. Skiptust þeir Búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; "skal þá vel við því taka," sagði Búi.

Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig unz ekki varð undan vikizt. Hjó hann þá "hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju". Búi var "ákaflega vígmóður og nokkuð sár", en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir hinum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.

Kofi við Draugatjörn

Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiði án þess að nokkur von væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elzta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo:

"Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímum til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli."

Sveinn Pálsson náttúrufræðingur minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.

Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.

Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsdrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sezt að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum endan kofans og sagði bara sísona: "Kveikið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn." Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi.

Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð og einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búizt þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað gaflhlaðið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.

Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði boli sér yfir hann en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.

Sæluhús byggt á Kolviðarhóli

Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð. Séra Páll Matthíasson í Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þar sem viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, líklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. Hurðir var jafnt hægt að opna utan- og innanfrá; nú voru menn minnugir atviksins við kofann fyrrum. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri, tjörubikað, og þar gátu gist í einu 24 menn á loftinu og komið inn 16 hestum niðri. Í Reykjavíkurpóstinum frá þessum tíma má sjá að þetta hefur þótt merk framkvæmd.

Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun. Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: "Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar." Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.

Áratugi áður, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Hríðargusur áttu þá greiða leið inn um glufur og gættir. Hér var það sem oftar, að Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu. Hreyfði hann því á fundi í Kveldfélaginu 1871 að reist yrði veitingahús á Kolviðarhóli sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna. Í fundargerðinni er rissmynd eftir Sigurð af fyrirhuguðu húsi. Þar er gert ráð fyrir turni með gluggum og átti þar að loga ljós. Þetta þóttu hinir mestu loftkastalar og ekki lifði Sigurður málari það að sjá breytingu á Kolviðarhóli.

Þrír heiðursmenn höfðu forustu fyrir endurbótum á Kolviðarhóli þjóðhátíðarárið 1874: Guðmundur Thorgrímsson kaupmaður á Eyrarbakka og annálaður menningarmaður, séra Jens Pálsson prestur í Arnarbæli og Randrup lyfsali og konsúll í Reykjavík, vinsæll maður og góðgjarn. Hann vildi hvers manns vandræði leysa og stóð hús hans jafnan opið öllum nauðleitarmönnum.

Hugmynd þeirra þremenninga var sú, að á Kolviðarhóli yrði reist svo veglegt hús, að þar gæti búið gestgjafi sem hlúð gæti að ferðamönnum og "léti þeim í té, ef með þyrfti, rúm, mat og kaffi, svo og hús og hey handa hestum þeirra". Hér er ekki minnst á brennivín, en síðar kom upp sú krafa að menn ættu að geta fengið í staupinu. Höfðu gestgjafar af því nokkrar tekjur, en jafnframt ómæld vandræði.

"Helstirðir við Hellisskarð"

Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til "drengilegra samskota" í minningu 1000 ára afmælis ættjarðarinnar. Var ekki laust við ávítunartón í brýningu þjóðskáldsins: "...eða hvað munduð þér segja, góðir menn, ef þér horfðuð í augu allra þeirra, sem legið hafa helstirðir við Hellisskarð fyrir hegningarvert hirðuleysi héraðsins."

Hægt gekk að afla fjár með samskotum, þó gáfu flestir bændur austanfjalls eina krónu og einstaka stórbændur gáfu 10 krónur. Þegar leið á árið 1876 skrifa forustumennirnir þrír landshöfðingja bréf og sækja um 1.500 króna styrk úr landsjóði svo hefja megi framkvæmdir. Ekki fékkst þó nema þúsundkall frá honum, en með samskotafénu var orðinn til sjóður sem nam 2.600 krónum. Björn steinsmiður Guðmundsson í Reykjavík taldi þó að enn vantaði 1.000 krónur og treysti sér ekki til að byrja.

Það var svo loks vorið 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæzlu, en öllum opið.

Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsvörðinn, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram, að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður. Ebeneser er "veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki". Með þetta leyfi í höndum gat Ebeneser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið vandlega og halda því þriflegu og hafa ljós uppi á loftinu. Hinsvegar var ekki með einu orði minnst á hvernig ætti að standa að veitingum og þrifnaði á stað þar sem engin vatnsuppspretta var nærri.

Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir það fékk hann smáþóknun hjá Suðuramtinu "með eftirtölum og ónotum". Til hvers fjárans þurfti maðurinn að grafa brunn? Sesselja kona Ebenesers sagði síðar, að á Kolviðarhóli hefði hún upplifað bæði hungur og kulda. Ebeneser var vandaður maður, listræn og leitandi sál, fjölfróður og víðlesinn þrátt fyrir fátæktina. Hann lék á langspil sem hann hafði sjálfur smíðað og skrifaði með fagurri rithönd, enda lærður gull- og silfursmiður og talinn "dverghagur". Ebeneser gafst upp á Kolviðarhóli eftir tvö erfið ár og húsið var án umsjónarmanns til vors 1880. Af því varð miður góð reynsla; svo til strax voru framin spellvirki, rúður brotnar og jafnvel hurðir. Þá skrifaði ferðamaður svofellda lýsingu í Ísafold: "Regn og snjór eiga þar betra hæli en ferðamenn."

Gestgjafi án matbjargar

Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu þrjú árin. Í manntalinu 1880, því fyrsta sem tekið er á Kolviðarhóli, er Ólafur kallaður bókbindari. Með honum er þá "bústýra hans", Málfríður Jónsdóttir. Í hönd fóru þá mestu harðindaár 19. aldarinnar og jafnframt einhver þau verstu í Íslandssögunni, þar sem hámarki var náð 1881-82.

Ólafur var bláfátækur og sama átti við um flesta þá sem viðkomu höfðu á Hólnum. Af þeim var engar tekjur að hafa. Hinn 16. febrúar skrifar ferðamaður grein í Þjóðólf og lýsir neyðarástandi á Kolviðarhóli. Gestgjafinn hafi litla matbjörg, ekkert hey handa hestum ferðamanna og segja megi að þar ríki allsleysi.

Samskot fóru fram í Reykjavík og fyrir það fé sem aflaðist var keyptur ofn í húsið, kol til eldsneytis og steinolía til ljósa. Í apríl 1881 fæddist þeim Ólafi og Málfríði sonur sem skírður var Búi Kolviður eftir köppunum tveimur úr Kjalnesingasögu. En þetta fyrsta barn sem fæddist á Hólnum dó aðeins 5 vikna. Vorið 1883 gáfust þau Ólafur og Málfríður upp og fluttu litlu síðar til Ameríku. Þar búnaðist þeim vel; eignuðust 10 börn og komu aldrei aftur til Íslands.

Jón og Kristín gera garðinn frægan

Vorið 1883, þegar Ólafur og Málfríður gáfust upp, fluttu að Kolviðarhóli hjónin Jón Jónsson og Kristín Daníelsdóttir ásamt tveimur yngstu dætrum sínum, Margréti, 17 ára, og Jarðþrúði Rósu, 16 ára. Þau voru úr Grímsnesinu; Jón fæddur á Minna-Mosfelli og Kristín á Hæðarenda. Þau höfðu búið á Neðra-Apavatni og fleiri jörðum (langafi og langamma greinarhöfundar). Með komu þeirra á Kolviðarhól verða í rauninni í fyrsta sinn þau umskipti, að hægt sé að tala um gestgjafa. Í sögu Kolviðarhóls segir Skúli Helgason fræðimaður frá Svínavatni, að með Jóni sé kominn á staðinn sá maður sem fyrst kveður verulega að. Gestgjafahlutverkinu sinntu þau hjón í 12 ár og þóttu bæði dugleg og útsjónarsöm.

Jón á Kolviðarhóli þótti hjálpsamur, alúðlegur og ræðinn, en drukknum ferðamönnum með ofstopa og frekju sýndi hann hver væri húsráðandi á Hólnum. Vegna staðfestu sinnar og stjórnsemi varð Jón ómaklega fyrir barðinu á rógi. Var því logið upp að hann seldi ferðamönnum lítið annað en brennivín og væri oft drukkinn sjálfur. Hvorttveggja var fjarri sanni.

Þessar gróusögur heyrðu sveitarstjórnarmenn í Ölfusi og án þess að málið væri kannað, eða reynt að komast að hinu sanna, var Jóni og Kristínu gert að víkja úr húsinu og trésmiður af Snæfellsnesi, Sigurbjörn Guðleifsson, sem þá bjó á Lækjarbotnum, var ráðinn sem gestgjafi. Jón fór hinsvegar ekki langt, heldur byggði hann baðstofu framan í bæjarhólnum með leyfi Ölfushrepps. Þar hélt hann áfram að taka á móti gestum og hýsa þá. Vegna þess urðu ýfingar með Jóni og Sigurbirni, en ferðamenn þekktu Jón að góðu einu og varð lítið um greiðasölu hjá Sigurbirni. Fór svo að hann gafst upp eftir 13 mánuði og dvöl hans á Kolviðarhóli markaði engin spor. Hann barðist þar við fátækt og húskulda og hvarf þaðan jafn slyppur og hann kom.

Jóni var að nýju falið hlutverk staðarhaldara og gestgjafa. Þau hjón fluttu aftur í húsið á Hólnum, en hýstu áfram ferðamenn í baðstofunni. Á þessum tímum lestaferðanna var mikilvægt að menn gætu fengið heytuggu í klárana í næturstað. Þar var vissulega úr vöndu að ráða því ekkert tún var á Kolviðarhóli, engar engjar og naumast neinar útslægjur. Jón tók á þessu vandamáli, hóf hleðslu á túngarði og lagði drög að túni þar sem sæmilega grasgefið valllendi var fyrir. Heyja aflaði Jón austur í Ölfusi, en það var handleggur að reiða heyið vestur yfir Hellisheiði.

Annað og ekki minna vandamál gestgjafans var það, að flestir ferðamenn voru auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Næturgisting kostaði þá 25-50 aura, kaffibolli 10 aura og 25 með brauði. Hey var dýrast, enda erfitt að afla þess.

Í árslok 1890, eftir nærri 7 ára veru á Kolviðarhóli, skrifar Jón hreppsnefndinni í Ölfusi og fer fram á að reglur verði settar um vínveitingar. Jón rekur ýmis vandræði sem orðið hafa af drykkjuskap og segir svo í bréfinu:

"...næstliðinn vetur voru 3 menn sóttir niður í Svínahraun á hestum, af sér komnir og meira og minna drukknir. Ég óska þar sem hreppsnefndinni er falið á hendur umsjá á Hólnum að hún áminni ferðamenn að haga sér svo að engin ástæða sé fyrir sæluhúsvörðinn að kvarta undan framferði þeirra, svo sem að brúka ekki óþrifnað, skemma ekki hluti, heimta ekki það sem þeir geta ekki borgað, falsi ekki út undir sínu eða annarra nafni, brúki ekki ósæmileg orð, steli ekki, gjöri ekki þarfir sínar innanhúss eins og átt hefur sér stað."

Ef þetta var það sem gestgjafinn þurfti að glíma við í starfi sínu má ímynda sér að í hinu íslenzka bændaþjóðfélagi á 19. öld hafi verið talsvert af ótrúlegum rumpulýð.

Jón á Kolviðarhóli var meira en meðalmaður á hæð og þrekvaxinn. Hann var hinn gervilegasti maður í sjón, segir Skúli Helgason, "svipmikill og karlmannlegur, jarpur á hár og skegg, með bartaskegg að hætti sinnar tíðar. Hann var þrekmaður, góður smiður, en í framkomu var hann jafnan stilltur og prúður; snerist þó hart til varnar væri illa að honum farið, greindur vel og orðheppinn og gerði sér ekki mannamun. Þess má geta, að knattspyrnukappinn Helgi Kolviðsson er 5. liður frá Jóni.

Hestvagnaöldin - tímabil Guðna og Margrétar

Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna Margréti og í manntalinu 1890 eru 5 taldir til heimilis á Kolviðarhóli: Gestgjafahjónin Jón og Kristín, ungu hjónin Guðni og Margrét, svo og ung telpa, Ingibjörg Jónsdóttir, kölluð sveitarómagi. Um tveggja ára skeið bjuggu Guðni og Margrét á Lækjarbotnum, en fluttust aftur á Hólinn þar sem Guðni varð önnur hönd tengdaföður síns. En við búsforráðum og gestgjafastarfi tóku þau Guðni og Margrét 1895.

Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið: Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð. Ekki varð þá lengur komizt upp úr Hellisskarði; fyrir hestvagna var þar alltof bratt og stígurinn þar að auki mjór. Nýr vagnvegur var þá lagður suður með Reykjafelli eins og áður var sagt. Umferð á þessum síðasta áratugi aldarinnar óx til muna og kom í ljós að Guðni var réttur maður á réttum stað og sama mátti segja um Margréti konu hans. Þau þóttu bæði fyrirhyggjusöm og stjórnsöm og höfðu jafnan til reiðu það sem ferðamenn vanhagaði um.

Guðni jók við túnið og sléttaði það og girti; sumpart með grjótgarði sem enn stendur. Gamla húsið á Hólnum frá 1877 varð nú alltof lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík og sýnir þetta að Guðni var vel vakandi fyrir nýjungum. Hinsvegar var líklega farið yfir lækinn eftir vatni þegar steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið austur á hestvögnum.

Nýja húsið var um 50 fermetrar að flatarmáli, eldhús í kjallara, en baðstofa fyrir heimilisfólk uppi á loftinu. Þetta hús stóð til 1925 þegar Sigurður Daníelsson byggði sitt glæsilega gistihús. Á ljósmynd frá 1907 má sjá stórt ferðamannahesthús sem Guðni hafði byggt, hlaðið úr tilhöggnu móbergi.

Þegar Guðni var kominn með laglegt bú á Kolviðarhóli og hafði hlotið styrki til að stækka gripahús fyrir hesta og geldneyti, leitaði hann eftir því við ráðamenn í Ölfusi, að staðurinn fengi útmælt land. Guðni vildi líta á Kolviðarhólinn sem bújörð. Um þá beiðni varð talsvert þóf og þótti sumum Ölfusbændum hálf súrt að klipið yrði stykki innan úr afrétti þeirra. En Guðni sótti málið fast og úr varð að nýbýli var stofnað og landamerki ákveðin eftir að tilkvaddir "áreiðarmenn úr Ölfusi" höfðu mætt á staðinn og verið látnir sverja þess eið að fara að lögum í einu og öllu. Þarmeð var Kolviðarhóll orðin bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.

Eitt var það sem ekki breyttist á hestvagnaöldinni: Menn komu úr kaupstað að Kolviðarhóli meira og minna ölvaðir; keyptu sér gistingu og mat og áttu svo ekki grænan eyri til að borga fyrir sig. Guðni tók á því með meiri þolinmæði en hægt var að ætlast til og ekki urðu allar nætur svefnsamar á Hólnum þegar menn komu þangað illa til reika í myrkri og ófærð. Eftirfarandi saga sýnir vel nærgætni Guðna:

Eitt sinn bar við um vetur í harðindum og ófærð að bóndi einn úr uppsveitum Árnessýslu kom ríðandi úr Reykjavík með tvo baggahesta. Þetta var vel látinn myndarbóndi, en drakk ótæpilega á ferðalögum. Hann hafði týnt höfuðfati sínu og komizt við illan leik upp að Kolviðarhóli þar sem hann gisti.

Um morguninn sagði hann Guðna að hann ætti enga peninga til að greiða fyrir gistinguna, en hinsvegar vanhagaði sig ákaflega um brennivín. Falaði hann flösku af Guðna og vildi jafnvel leysa upp bagga sína og borga fyrir flöskuna með bankabyggi, grjónum og öðru sem hann hafði keypt til heimilisins. Guðni þvertók fyrir slík viðskipti, en féllst á að lána honum flösku með því skilyrði að tveir áreiðanlegir menn, sem ætluðu að verða bónda samferða austur yfir Hellisheiði, tækju að sér að sjá til þess að flaskan yrði ekki opnuð fyrr en á Kambabrún. Bóndinn gekk að því og fékk enga brennivínsvökvun fyrr en sýnt var að hann kæmist leiðar sinnar til byggða.

Árið 1905 urðu kaflaskipti á Kolviðarhóli þegar Guðni og Margrét fluttu þaðan. Mikið mæddi á húsmóðurinni þegar húsfyllir var af næturgestum og Margrét var farin að gefa sig. Henni er svo lýst segir Skúli Helgason, "að hún hafi verið með fremstu konum sinnar tíðar". Þau Guðni og Margrét fluttu þá vestur að Leirá í Leirársveit og birtist eftirfarandi frétt í Þjóðólfi 3. nóvember 1905:

"Kaupandi Leirár er Guðni Þorbergsson sæluhúsvörður á Kolviðarhóli og flytur hann þangað næsta vor. Hefur hann selt Kolviðarhól og hús þau sem hann á á jörðinni Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum fyrir 7.500 krónur og fær hann að líkindum til afnota hús landsjóðs þar og leyfi til að halda þar uppi greiðasölu. En margir munu sakna Guðna af Hólnum, því hann hefur staðið mæta vel í stöðu sinni, þrátt fyrir marga erfiðleika. Hefur hann notið almenningshylli fyrir lipurð og nærgætni við ferðamenn, svo skarð hans verður að því leyti vandfyllt."

Á Leirá gerðust þau Guðni og Margrét fósturforeldrar Sigurðar föður míns, síðar bónda í Úthlíð. Þau fluttu í skamman tíma til Reykjavíkur en bjuggu síðast á Akranesi þar sem Guðni lézt 1920 en Margrét 1931.

EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Höfundur er blaðamaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.