Spurning: Hvað er iðraólgubólga? Hvernig lýsir hún sér, af hverju stafar hún og er hægt að lækna hana? Svar: Þessi sjúkdómur var áður nefndur ristilerting eða þarmaerting en nú er farið að kalla hann iðraólgu (IBS eða irritable bowel syndrome).

Spurning: Hvað er iðraólgubólga? Hvernig lýsir hún sér, af hverju stafar hún og er hægt að lækna hana?

Svar: Þessi sjúkdómur var áður nefndur ristilerting eða þarmaerting en nú er farið að kalla hann iðraólgu (IBS eða irritable bowel syndrome). Iðraólga er talin vera algengasti sjúkdómur í meltingarfærum og hrjáir 15-20% fullorðinna einstaklinga. Flestir sjúklinganna eru á aldrinum 20-50 ára og eru konur í meirihluta.

Iðraólga er truflun á starfsemi þarmanna sem getur leitt til ýmiss konar sjúkdómseinkenna og óþæginda. Algengustu óþægindin eru verkir, uppþemba, vindgangur og breytingar á hægðum (ýmist harðar eða linar hægðir). Í þessum sjúkdómi er einungis um starfslega truflun að ræða en engar vefjabreytingar finnast og þetta ástand er hvorki talið auka hættu á sárum, blæðingum, krabbameini né öðrum vefrænum sjúkdómum í meltingarfærum.

Lítið er vitað um orsakir sjúkdómsins en talið er að þarmar og ristill séu óeðlilega viðkvæm fyrir þáttum sem örva starfsemi meltingarfæranna eins og mat og lofti í meltingarfærunum, vissum lyfjum og vissum fæðutegundum. Konur hafa oft mest óþægindi nálægt því sem þær hafa blæðingar og þess vegna er talið að hormón hafi áhrif á sjúkdóminn. Margir taka eftir því að matur og streita auka óþægindin. Óþægindi eru oft mikil stuttu eftir máltíðir og vegna þess að ósjálfráða taugakerfið stjórnar að hluta til hreyfingum meltingarfæranna getur streita haft veruleg áhrif á alla starfsemi maga, þarma og ristils. Algengt er að óþægindin lagist við að hafa hægðir.

Ef blæðingar frá meltingarfærum, sótthiti, þyngdartap og langvarandi verkir koma fyrir eru það ekki einkenni iðraólgu og verður þá að finna aðrar skýringar. Meðferðin felst í breyttu mataræði og stundum lyfjum í einhvern tíma. Algengar fæðuvenjur sem geta gert ástandið verra eru orkuríkar máltíðir, fita, súkkulaði, mjólkurafurðir, áfengi í miklu magni og kaffi.

Oft er til bóta að borða lítið í einu, borða trefjaríkan mat og almennt að borða holla og fjölbreytta fæðu. Að minnka streituna í lífi sínu getur verið erfitt og margir þurfa til þess utanaðkomandi aðstoð. Stundum þarf að grípa til lyfja og kemur stundum til greina að gefa hægðalyf í stuttan tíma, lyf sem minnka spennu í þörmunum, mild róandi lyf eða þunglyndislyf.

Meira um svita

Nýlega var svarað spurningu um óeðlilega mikla svitamyndun og mundi spyrjandi óljóst eftir umfjöllun um þetta vandamál í Morgunblaðinu þar sem sagt var að taka einhverra tveggja efna gæti hugsanlega hjálpað. Þessi umfjöllun hefur nú fundist og var það frásögn tveggja systra sem löguðust smám saman af nætursvita við að taka kalk og D-vítamín. Ekki veit ég hvort þetta hjálpar öðrum en hér er um að ræða einfalt og ódýrt ráð sem vel má reyna. Við neyslukannanir hér á landi hefur komið í ljós að margir fá of lítið af D-vítamíni og kalk er nauðsynlegt steinefni, sérstaklega fyrir konur. D-vítamín er einfalt að fá í lýsi og kalktöflur fást í matvörubúðum og lyfjabúðum.