MICHAEL Meacher umhverfisráðherra Breta hefur í huga að láta gera enn eina úttekt á Mox-verksmiðjunni í Sellafield.

MICHAEL Meacher umhverfisráðherra Breta hefur í huga að láta gera enn eina úttekt á Mox-verksmiðjunni í Sellafield. Verksmiðjan, sem kostaði 460 milljónir punda og var fullgerð 1996, hefur enn ekki fengið starfsleyfi, þrátt fyrir að Stephen Byers iðnaðarráðherra leggi eindregið áherslu á að svo verði. Mox er kjarnorkueldsneyti, framleitt úr endurunnu og nýju úraníum. Framleiðsla þess er ákaft gagnrýnd af umhverfissinnum.

Þó þrjú ár séu liðin síðan lagt var til í úttekt á vegum stjórnarinnar að verinu yrði veitt starfsleyfi hefur það ekki fengist. Samkvæmt fréttum Financial Times mun væntanleg úttekt taka að minnsta kosti þrjá mánuði og ná jafnt til viðskipta-, heilbrigðis- og umhverfisþátta. Meacher er tortrygginn á viðskiptaáætlanir verksmiðjunnar og telur að eftirspurn sé tæplega nógu mikil til að hægt sé að hefja framleiðslu með arðbærum hætti. BNFL, sem rekur verið í Sellafield bendir hins vegar á að meðan verksmiðjan hafi ekki starfsleyfi sé erfitt að sinna markaðssetningu.

Þar sem iðnaðarráðherra Bretlands styður verið og þar verða um 1800 störf er mikill þrýstingur á Meacher að leggja blessun sína yfir það. Á hinn bóginn hafa umhverfisverndarsinnar vakandi gagnrýnisauga á verinu, svo búast má við mótmælum verði starfsleyfið veitt.

London. Morgunblaðið.