½ Leikstjórn Jean Pierre Marios. Handrit Jean Pierre Marios, Ira Israel. Aðalhlutverk Bob Hoskins, Mena Suvari. (89 mín.) Bandaríkin 2000. Háskólabíó. Bönnuð innan 12 ára.

Í AFMEYJUN í beinni er gert miskunnarlaust og farsakennt grín af þeirri öfgafullu hnýsni sem hefur rutt sér til rúms á Netinu og er þá oftast ekki framsett á kynferðislegum nótum.

Myndin snýst um klámiðnaðarmógúlana Ronny (Robert Loggia) og Joey (Hoskins) sem lengi hafa eldað saman grátt silfur. Ronny er íhaldssamur og hefur haldið sig við gerð blárra mynda en Joey hefur fært sér tækifæri Netsins algjörlega í nyt og bryddar í sífellu upp á nýrri og öfgafyllri "þjónustu". Nýjasta trompið sem hann hefur upp í erminni er að bjóða öfuguggum um heim allan að upplifa afmeyjun ungrar stúlku af eigin raun. Ung stúlka hefur boðist til að láta afmeyja sig í beinni útsendingu og Ronny selur í gríð og erg í sjónvarpskringlu nýja uppfinningu sem hann heldur fram að geri mönnum kleift að upplifa afmeyjunina og allar þær nautnir sem henni fylgja. Hængurinn er bara sá að jómfrúin sem boðið hefur fram krafta sinna er dóttir erkifjandans Joey...

Vissulega nettúrkynjaður söguþráður en svo sem ekkert út í hróa ef tekið er mið af öllu ruglinu sem fyrirfinnst í netheimum. Hefði því átt að geta orðið prýðis satíra en er því miður sjóðandi vitlaus farsi án nokkurs inntaks eða innihalds.

Skarphéðinn Guðmundsson