ÞJÓÐERNISLEG samsetning Lýðveldisins Makedóníu er flókin. Makedónar eru fjölmennasti hópurinn (tveir þriðju íbúa landsins) og komnir af slavneskum ættflokkum sem fluttust á svæðið á tímabilinu frá 6. til 8. aldar e.Kr.

ÞJÓÐERNISLEG samsetning Lýðveldisins Makedóníu er flókin. Makedónar eru fjölmennasti hópurinn (tveir þriðju íbúa landsins) og komnir af slavneskum ættflokkum sem fluttust á svæðið á tímabilinu frá 6. til 8. aldar e.Kr. Tungumál þeirra, makedónska, er náskylt búlgörsku og ritað með kyrillísku letri. Makedónska er opinbert mál landsins.

Albanar eru fjölmennasti minnihlutahópurinn, 22,9% íbúanna. Flestir þeirra búa í norðvesturhluta landsins, meðfram landamærunum að Albaníu og Kosovo í Serbíu. Albanar eru í meirihluta í að minnsta kosti þremur af 32 sveitarfélögum Makedóníu, þeirra á meðal Tetovo og Gostivar, og mjög stór minnihlutahópur í sjö öðrum.

Tyrkir eru 4% íbúanna og dreifðir um mið- og vesturhluta landsins.

Sígaunar eru um 2,3% íbúanna og Serbar 2%.

Flestir slavnesku íbúanna eru í rétttrúnaðarkirkjunni (66,6%), en Tyrkir og mikill meirihluti Albana og sígauna eru múslímar (30%).

Landbúnaður er enn mikilvægasti atvinnuvegur Makedóníu, einkum tóbaks-, hrísgrjóna-, ávaxta-, grænmetis- og vínframleiðsla. Á meðal annarra helstu atvinnuvega landsins eru vefnaðar-, stál-, véla- og efnaiðnaður og leirmunagerð. Ferðaþjónusta varð mikilvægur þáttur í atvinnulífinu á níunda áratug síðustu aldar þegar Makedónía var sambandsríki í Júgóslavíu.

Lýðveldið Makedónía varð sjálfstætt ríki 1991. Landið er 25.713 ferkm að flatarmáli og íbúarnir eru um 2,06 milljónir. Höfuðborgin, Skopje, er stærsta borg landsins með 444.300 íbúa (1994).

Byggt á Britannica og Fischer-heimsalmanakinu 2001.