ÉG ÆTLA að byrja á því að óska andstæðingum Reykjavíkurflugvallar innilega til hamingju með þennan stórkostlega bindandi kosningasigur sem þeir unnu á dögunum.

ÉG ÆTLA að byrja á því að óska andstæðingum Reykjavíkurflugvallar innilega til hamingju með þennan stórkostlega bindandi kosningasigur sem þeir unnu á dögunum. Þessi stórkostlegi sigur vannst örugglega vegna málefnalegs rökstuðnings hlutaðeigandi og geislandi framgöngu og hafði auðvitað ekkert að gera með hvernig kjörstaðir voru staðsettir, hve margir sátu heima eða neitt annað. Það er alveg ljóst.

Nú þurfum við hin sem sagt að fara að huga að annarri lausn. Sextán eru ekki langur tími og því þarf að bregðast við nú þegar. Sturla Böðvarsson hefur sagt að ef flugvöllurinn verði ekki í Reykjavík verði hann í Keflavík. Eftir þetta afhroð í kosningum er ég alveg orðin sammála Sturlu, auðvitað flytjum við flugvöllinn til Keflavíkur. Að vísu fékk ég reyndar ekki að tjá mig um völlinn þar sem ég er landsbyggðarlýður, sennilega með heilmikla minnimáttarkennd, eftir kenningum borgarstjóra Reykjavíkur.

En það þarf að flytja fleira, við þurfum að byggja nýtt hátæknisjúkrahús sem þjónar landsbyggðinni, auðvitað þarf svo að flytja alla stjórnsýsluna suðureftir, bæði alþingi og aðstöðu alla í kring um það og stjórnarráðið ítem allar aðrar opinberar stofnanir. Svo þarf fleiri gistimöguleika og vert væri að efla list og menningu þarna og ekki sakaði ein kringla eða svo og síðan kæmi hitt svona af sjálfu sér. Þá er stutt í Bláa lónið og Keflavík er mjög snyrtilegur bær og svo er skemmtileg byggð í kring, Sandgerði, Njarðvíkur og Vogar, þetta heitir víst Reykjanesbær í dag. Þegar flugvöllurinn væri kominn þarna suðureftir myndi allt þetta aukast og stækka og þá munu byggjast upp veitingastaðir og skemmtanabransi allskonar. Maður þyrfti þá ekkert að sækja til Reykjavíkur. Mér leiðist borgin hvort sem er og myndi ekki eiga neina leið þangað nema til að heimsækja vini og vandamenn, en þeim heimsóknum myndi sennilega fækka, því ekki nenni ég að þvælast alla leið frá Keflavík til Reykjavíkur bara til að skreppa í heimsóknir. Sérstaklega þegar maður finnur andann í Reykvíkingum í dag. Landsbyggðarlýðurinn er bara til óþurftar. Maður fer hvort sem er mest suður til að fara utan og þá þarf ekki lengur að koma sér langa leið út á Keflavíkurvöll. Þá er allt á sama stað. Ég á líka þó nokkuð marga erlenda vini sem gjarnan koma í heimsókn, það yrði miklu auðveldara fyrir þá að koma beint til Ísafjarðar frá Keflavík, enda finnst þeim flestum lítið til Reykjavíkur koma, hún er alltof stór til að vera spennandi fyrir fólk sem kemur frá útlandinu og alltof lítil til að vera neitt sérstök. Þarna væri líka hægt að spara breikkun Reykjanesbrautar.

Ég legg svo til að Keflavík verði lýst höfuðborg landsins, þar sem breytt fyrirkomulag krefst þess að öll opinber stjórnsýsla verði staðsett þar. Þetta myndi líka leysa vandamál og misskilning útlendra gesta sem koma í heimsókn því þeir lesa á skiltum flugvalla heimsins orðið "Keflavík".

Kæru Reykvíkingar, ég vona svo að þið njótið háhýsanna sem rísa munu í Vatnsmýrinni og njótið hvors annars. Óska ykkur reyndar alls hins besta og mikið held ég að þið getið andað léttar að losna við áganginn af þessum hokurkörlum og -kerlingum sem endilega vilja hanga þarna úti í eyðimörkinni, Guð má vita hvers vegna, þegar það getur flutt í alsæluna fyrir sunnan.

Og svo eitt að lokum; af hverju að bíða með að flytja völlinn þangað til 2016 og eyða fleiri peningum í flugvöll sem á að fara hvort eð er? Af hverju ekki að byrja strax á að byggja upp þjónustuna suðurfrá og vera með allt á hreinu það herrans ár 2016.

ÁSTHILDUR CESIL

ÞÓRÐARDÓTTIR,

Seljalandsvegi 100, Ísafirði.

Frá Ásthildi Cesil Þórðardóttur: