"ÞETTA er harmleikur, mikill harmleikur," segir eldri maður, sem staðið hefur alla nóttina fyrir utan heimili Slobodans Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, í Belgrad.

"ÞETTA er harmleikur, mikill harmleikur," segir eldri maður, sem staðið hefur alla nóttina fyrir utan heimili Slobodans Milosevic, fyrrverandi forseta Júgóslavíu, í Belgrad. Hann er ekki einn á ferð, að minnsta kosti 200 manns og fjölmennt lögreglulið berja sér til hita og ylja sér við elda í fínasta hverfi borgarinnar, Dodinje. Það er farið að birta af degi og enn er umsátursástand við húsið, sem sérsveitir lögreglu reyndu að ráðast til inngöngu í um tvöleytið um nóttina.

Innandyra situr forsetinn fyrrverandi, eiginkona hans Mira og dóttir, auk hóps lífvarða. Fyrir utan standa stuðningsmenn hans, fólk sem vill sýna honum stuðning á örlagastundu.

Þegar blaðamann Morgunblaðsins ber að síðla nætur er allt með kyrrum kjörum. Stuðningsmennirnir eru sumir hverjir ágengir og lítt hrifnir af útlendingum á sveimi, vilja að minnsta kosti vita hvaðan þeir eru; enginn vafi leikur á því að Bretar og Bandaríkjamenn eru ekki velkomnir, þar sem þeir beri höfuðábyrgð á falli Milosevic.

Ung kona vindur sér að okkur og vill vita hver við erum. Henni er heitt í hamsi, hún er drukkin og lítið hrifin af enskum hreim á rússneskunni sem blaðamenn reyna að tala. Hún er trúfastur stuðningsmaður Milosevic, segist komin eins og aðrir til að gæta hans.

Annars eru flestir karlmenn, sumir vafalaust lögreglumenn í borgaralegum klæðum. Dragomir Matic segist hins vegar kominn til að sýna forsetanum fyrrverandi hollustu. "Þetta er mikill harmleikur," segir Matic, sem er varaformaður Sósíalistaflokks Milosevic í gamla hluta Belgrad og fyrrverandi útvarpsmaður. Þrátt fyrir að hann sé hjartveikur, hefur hann staðið fyrir utan heimili Milosevic sl. 45 daga, til að sýna stuðning sinn. "Milosevic er hetja og föðurlandsvinur, hann er maðurinn sem stóð gegn NATO."

"Fyrir okkur er hann dauður"

Lögreglan hefur lítið hafst að, heldur staðið og spjallað við þá sem bíða. Þegar fer að birta af degi byrjar hún hins vegar að stugga við stuðningsmönnum og blaðamönnum. Ýtir hópnum hægt og rólega frá húsinu við Usjiska stræti 11-15. Engin hróp heyrast, engum er hrint eða ógnað. Eldri kona hellir sér yfir lögreglumenn, sakar þá um föðurlandssvik og að vera undirlægjur Bandaríkjanna.

Ung kona, Vesna Nestoric, kveðst hins vegar ekki hafa áhuga á málinu. "Fyrir okkur er hann dauður, hann skiptir ekki máli lengur. Mér finnst þetta vera uppákoma sem var sett á svið til að fólk hefði eitthvað til að tala um."

Belgrad. Morgunblaðið.