Þessi nýi Nissan Primera hefur þegar verið kynntur í Japan en kemur á markað hérlendis á næsta ári.
Þessi nýi Nissan Primera hefur þegar verið kynntur í Japan en kemur á markað hérlendis á næsta ári.
RENAULT hefur gengið allt í haginn eftir að samruni varð milli fyrirtækisins og Nissan. Tekjurnar hafa farið langt fram úr áætlunum, vöruþróunin er hraðari en ráðgert var og hlutabréf í fyrirtækinu hafa tvöfaldast í verði á einu ári.

RENAULT hefur gengið allt í haginn eftir að samruni varð milli fyrirtækisins og Nissan. Tekjurnar hafa farið langt fram úr áætlunum, vöruþróunin er hraðari en ráðgert var og hlutabréf í fyrirtækinu hafa tvöfaldast í verði á einu ári. Það þótti koma berlega í ljós á bílasýningunni í Genf að mikill uppgangur er einnig hjá Nissan. Þar var sýndur X-Trail jeppinn, nýr Z-sportbíll og einn athyglisverðasti hugmyndabíll sýningarinnar, Chappo. Þar fyrir utan er von á splunkunýrri Primera með haustinu. Renault ætlar að styrkja Nissan á fleiri vegu því nú er rætt um að fyrirtækin sameinist um öll innkaup. Nýtt fyrirtæki, Renault Nissan Purchasing á að sjá um þriðjung allra innkaupa verksmiðjanna beggja og innan fáeinna ára á hlutfallið að vera komið upp í 70%. Með slíkum magninnkaupum er þess vænst að innkaupsverð lækki um a.m.k. 1%, sem er hátt hlutfall miðað við veltu fyrirtækjanna, og með þessu sparast allt að 1,7 milljarðarbandaríkjadala eða um 144 milljarðaríslenskra króna á árunum á þriggja ára tímabili.

Yfir 50% framleiðslu Renault og Nissan á sama grunni

Yfirstjórn Renault-Nissan samstarfsins hefur ákveðið að hefja gerð undirvagns, sem verður samnýttur í framleiðslu nýrra bifreiða frá bæði Renault og Nissan. Gert er ráð fyrir að aukið samstarf í framleiðslu, stjórnun og markaðssetningu fyrirtækjanna tveggja muni skila sér í gífurlegri hagræðingu á næstu árum.

Nýi undirvagninn verður fyrir stóra millistærðarbíla fyrirtækjanna og mun bætast við hliðstæða gerð undirvagna fyrir millistærðarbíla, sem hafinn var undirbúningur að þegar á árinu 1999. Undirvagnarnir verða komnir í meira en helming heildarframleiðslu Renault og Nissan ekki seinna en á árinu 2003.

Jafnframt vinnur Renault-Nissan að sameiginlegri vélaframleiðslu. Gangi áætlanir eftir mun heildarframleiðsla beggja fyrirtækja styðjast við 10 mismunandi gerðir undirvagna og 8 mismunandi vélaflokka, þegar á árinu 2010. Að sögn talsmanna Renault-Nissan samstarfsins er frumforsenda þessa sú, að fella má auðveldlega grunnhönnun allra samnýttra bifreiðarhluta að hverri bifreiðartegund eða -undirtegund fyrir sig. Samnýtingarstefnan muni því ekki koma niður á þróun, hönnun eða framleiðslu hvors fyrirtækis, enda sé markmiðið ekki að steypa bifreiðar frá Renault og Nissan í sama mót.

Úr tapi í hagnað

Samstarf Renault og Nissan hófst fyrir réttum tveimur árum, eða í mars 1999, með kaupum Renault á tæpum 37% hlut í hinum þá nær gjaldþrota japanska framleiðanda fyrir um 5,4 milljarði bandaríkjadala. Samkvæmt ársreikningum Renault samsteypunnar hefur þessi fjárfesting skilað sér í betri afkomu samsteypunnar þegar á árinu 2000, sem var rekin með 69 milljón evra tapi á árinu 1999 en um 1.080 milljón evra hagnaði ári síðar, sem er mun betri afkoma en á árinu 1998. Slök afkoma Renault á árinu 1999 var rakin til gífurlegra fjárfestinga á því ári, en auk hlutarins í Nissan keypti samsteypan um 70% í suður-kóreska bílaframleiðandanum Samsung Motors og um 20% í vörubílaframleiðslu Volvo AB.