Christian Vuurst tenór- og sópransaxófóna, Jacob Karlzon píanó, Morten Ramsbøl bassa og Morten Lund trommur. Fimmtudagskvöldið 29. mars 2001.

NORRÆN djasshljómsveit hefur ekki leikið í Reykjavík síðan á djasshátíðinni í september. Norræni kvartettinn, sem nefnir sig uppá ensku The Nordic Quartet, var á tónleikaför um Norður-Atlantshafið með viðkomu í Færeyjum og á Íslandi og hér hljóðrituðu þeir félagar geisladisk auk þess að halda tónleika. Á diskinum verður íslenskur andblær því þar má finna verk eftir Sigurð Flosason auk þess sem Hilmar Jensson og Óskar Guðjónsson leika í tveimur ópusanna.

Þeir félagar koma frá Danmörku, utan píanistinn Jacob Karlzon sem er sænskur og hefur m.a. leikið með Tolvan-stórsveitinni og kvartetti Fredriks Lundin og Peters Danemo. Svíar hafa ungað út djasspíanistum einsog Danir bassaleikurum. Allir djassunnendur þekkja Bengt Hallberg og Bobo Stenson og flestir Lars Janson og Esbjörn Svensson. Margir muna eftir Claes Crona sem kom á djasshátíð með Putte Wickman og Daniel Karlsson sem hér lék með Fredrik Norén og nú bætist Jacob Karlzon í safnið. Hann óf voldugan hljómavef í ópus Sigurðar, Gengið á lagið, og greinilegt að hann er af skóla McCoys Tyners frekar en Bills Evans. Flutningur þessa ópus var í stjörnumerki Coltranekvartettsins fræga, en strax í næsta verki, sem var eftir Carlzon, ríkti hin norræna djassheiðríkja með örlítilli klassískri slikju. Christian Vuurst er pottþéttur saxófónleikari þótt hann búi ekki yfir töfrum Karlzons og hann blés fallega ballöður Sigurðar: Vatn undir brúna og Liðin tíð, en Karlzon lék langan og ljóðrænan inngang að þeirri síðarnefndu. Verst að hann drukknaði að mestu í skvaldrinu frá neðri hæðinni í Húsi Málarans og er ekki vansalaust í hvílíkum ólestri hljóðmál Múlans eru.

Nokkur þekkt djasslög voru á efnisskránni inná milli frumsamdra laga þeirra félaga og verka Sigurðar. Best þótti mér tríóhljómsetning Karlzons á All blues úr Kind of Blue-svítu Miles Davis, þarsem Morten Lund sló kraftmikinn trommusóló, en Monkdúó þeirra Karlzons og Vuurst, Pannonica, var heldur daufur. Bassaleikarinn trausti, Morten Ramsbøl, kom til Íslands fyrir nokkrum árum og heillaðist svo af Gullfossi að hann samdi lag undir fosshrifunum. Að sjálfsögðu nefnist það Gullfoss og ríkti fossniðurinn í rýþmanum. Aukalagið var blús með frjálsu sniði og ekki er annað hægt að segja en að þessi heimsókn frænda okkar hafi frískað íslenskt djasslíf og gaman verður að heyra disk þeirra. Ég man ekki til þess að verk eftir íslenskan djassleikara hafi fyrr verið á diskum erlendra.

Vernharður Linnet