Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Jóhannesi Karli Sveinssyni hrl., fyrir hönd Leiguflugs Ísleifs Ottesen ehf.

Í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um flugslysið hörmulega í Skerjafirði hinn 7. ágúst 2000 hafa málefni Leiguflugs Ísleifs Ottesen (L.Í.O. ehf.) verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hafa þar fallið þung orð. Til þessa hafa forsvarsmenn félagsins kosið að tjá sig ekki um málið á opinberum vettvangi. Mjög veigamiklar ástæður eru fyrir því, einkum þær að enn stendur yfir opinber lögreglurannsókn vegna flugslyssins og tillitssemi við aðstandendur flugmannsins.

Félagið L.Í.O. ehf. var stofnað árið 1991 og flugrekstrarleyfi fékk félagið árið eftir. Félagið er nú eitt af örfáum flugfélögum í innanlandsflugi á Íslandi. Hjá félaginu starfa sjö manns og helstu verkefni félagsins eru almennt leiguflug fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, þ.m.t. útsýnisflug með erlenda ferðamenn. Auk þess gerði félagið, eftir útboð, samninga við opinbera aðila um áætlunarflug á Gjögur, áætlunarflug milli Ísafjarðar og Bíldudals, svo og sjúkraflutninga fyrir heilbrigðisráðuneytið.

- - -

Auðvitað ná orð ekki að lýsa því áfalli sem flugslysið varð eigendum og öllum starfsmönnum L.Í.O. Það áfall er þó hjóm eitt í samanburði við þann harm sem kveðinn var að aðstandendum þeirra sem slösuðust og létu lífið í flugslysinu og vegna afleiðinga þess. Yfirlýsingu þessa má alls ekki skoða sem neins konar áfellisdóm um þá baráttu sem aðstandendur hafa háð fyrir því að hið sanna komi í ljós um orsakir flugslyssins í Skerjafirði.

Opinber umræða um flugöryggismál í kjölfar slyssins er eðlileg og sjálfsögð í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa. Kveinkar umbjóðandi minn sér ekki undan henni. Hins vegar er umræðan nú farin að snúast um að benda á blóraböggul eða sökudólg og refsa honum snarlega á einhvern máta þrátt fyrir að lögreglurannsókn standi enn yfir.

Af þessu tilefni er nauðsynlegt að skýra atburði síðustu daga frá sjónarhóli L.Í.O. ehf.

Bréf samgönguráðuneytisins til Flugmálastjórnar 24. mars 2001

Með bréfi samgönguráðuneytisins til Flugmálastjórnar frá 24. þ.m. má segja að tónninn hafi verið gefinn fyrir atburðarás vikunnar. Þar sagði m.a. að ráðuneytið teldi ljóst að, ,,...ákvæði reglugerðar um flutningaflug ... hafi ítrekað verið brotin".

Jafnframt sagðist ráðuneytið draga þá ályktun af skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa að, ,,...á flugrekstri Leiguflugs Ísleifs Ottesen hf. varðandi rekstur TF-GTI hafi verið verulegir ágallar og augljós ógn við öryggi flugfarþega á Íslandi". Í framhaldinu gerði Flugmálastjórn úttekt á rekstri L.Í.O. ehf. og skilaði skýrslu til samgönguráðuneytis.

Bréfi þessu var dreift til fjölmiðla áður en það barst til vitundar Ísleifs Ottesen. Skýrir það væntanlega hvers vegna honum var óhægt um vik að tjá sig um efni þess þegar fréttamenn leituðu eftir því.

Umsögn Flugmálastjórnar til samgönguráðherra 29. mars 2001

Í svari Flugmálastjórnar til ráðuneytis síns koma fram nokkur atriði sem fjallað hefur verið um í tengslum við framhald málsins. Í því bréfi er m.a. afar ónákvæmt orðalag, sem gefið hefur tilefni til ályktana - nú síðast í leiðara Morgunblaðsins í dag - um að ófært sé annað en segja upp samningum ríkisins við félagið og svipta það leyfum.

,,alvarleg[ ] vanræksla á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri"

Í þessum orðum umsagnarinnar felst þungur dómur og má skilja af samhenginu þannig, að flugfélagið hafi almennt hagað sínum öryggismálum þannig að stórhætta stafaði af. Þannig skildi a.m.k. undirritaður þessi orð þegar bréfið var fyrst lesið. En hvaða ,,alvarlegu vanrækslu" skyldi hér vera átt við? Í því sambandi er rétt að birta alla þá málsgrein sem tilvitnuð orð eru tekin úr:

"Allt frá því slysið varð, hefur legið fyrir að ekki var af hálfu flugrekandans nægjanlega framfylgt gildandi starfsreglum sem ætlað var að tryggja farsælar lyktir sérhvers flugs hlutaðeigandi loftfars. Til dæmis voru leiðarflugsáætlanir [leturbr. JKS] ekki gerðar. Í þessu felst alvarleg vanræksla á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri."

Það er ekki að sjá annað en að skortur á að gera leiðarflugsáætlun sé meginástæða hins þunga vanræksludóms. Orðalag bréfsins má skilja sem svo að það hafi verið regla hjá flugmönnum L.Í.O. ehf. að gera ekki slíkar áætlanir. Þetta er hins vegar ekki réttur skilningur. Flugmenn L.Í.O. ehf. hafa fylgt þeim ákvæðum reglugerðar um flutningaflug að halda leiðarflugsáætlanir, bæði fyrir og eftir slysið. Það hefur Flugmálastjórn ekki dregið í efa.

Það er hins vegar rétt að í ferðinni örlagaríku hefur ekki komið fram að flugmaðurinn hafi gert skriflega leiðarflugsáætlun og skilið eftir á brottfararflugvelli. Áður en áfellisdómur er kveðinn upp um þetta einstaka tilvik verður að hafa eftirfarandi í huga:

- Um var að ræða 14-16 mín. flugleið sem flugmaðurinn hafði flogið margsinnis sama daginn.

-Flugmaðurinn gerði munnlega leiðarflugsáætlun áður en lagt var af stað í ferðina, eftir því sem fram kemur í útskrift af samskiptum hans við flugturn: ,,Já það er Vestmannaeyjar Reykjavík, þrjátíu mínútur, flugþol tveir og hálfur. Muhameð plús fimm." Með þessu tilkynnir flugmaðurinn flugleiðina, áætlaðan flugtíma, flugþol og farþegafjölda. Þar með eru upplýst þau atriði sem koma eiga fram í leiðarflugsáætlun.

Það ætti að vera öllum ljóst skv. framansögðu að hin alvarlega vanræksla, að mati Flugmálastjórnar, er lýsing á afmörkuðu atviki við óvenjulegar aðstæður. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að það sem málið snýst um er að strangasta formi er ekki fylgt, en efniskröfur eru uppfylltar. Hvernig þær aðstæður geta orðið að alvarlegri vanrækslu á faglegum grundvallarþætti í flugrekstri er gjörsamlega hulin ráðgáta þeim sem til þekkja.

Við það ástand sem var á flugvellinum í Vestmannaeyjum hinn örlagaríka dag skal stórlega dregið í efa að nokkur flugrekandi hafi staðið formlega að gerð allra leiðarflugsáætlana. Ef samræmis væri gætt ætti því að taka á málum allra flugrekenda sem þar komu að málum með sama hætti.

Uppsögn samninga ríkisins við L.Í.O.

Í samningum L.Í.O ehf. um sjúkraflutninga og áætlunarflug er kveðið á um að segja megi þeim upp fyrirvaralaust (rifta) ef eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi: a) hljóti flugrekandi dóm vegna vanrækslu í flugrekstri b) hafi flugrekandi með sannanlegum hætti gerst sekur um alvarlega siðferðilega eða faglega misbresti í flugrekstri.

Samgönguráðherra óskaði, eins og áður segir, eftir umsögn Flugmálastjórnar um það hvort uppsagnarheimild gæti verið fyrir hendi á þessum grunni. Niðurstaða Flugmálastjórnar er sú að svo væri ekki og heldur ekki forsendur til sviptingar flugrekstrarleyfis á grundvelli flugöryggissjónarmiða.

Mál flugrekstrarstjóra L.Í.O. ehf.

Flugmálastjórn tók það upp að eigin frumkvæði að vekja athygli ráðuneytisins á því að fram hefðu komið ávirðingar um brot flugrekstrarstjóra félagsins sem flugmanns. Í niðurlagi bréfs Flugmálastjórnar er svo vikið að því að ávirðingarnar séu svo alvarlegar að til hæfisbrests hans sem flugrekstrarstjóra kunni að koma.

Staðreynd þess máls er sú að fréttir birtust af frásögnum ungmenna, sem voru farþegar með vél frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum til Selfoss, um að of margir hefðu farið með vélinni. Því máli vísaði Flugmálastjórn til lögreglunnar í Reykjavík. Flugrekstrarstjórinn hefur neitað því að nokkuð í þá veru hafi átt sér stað sem á hann hefur verið borið.

Í framhaldi af því síðastgreinda vakti Flugmálastjórn athygli ráðuneytisins á því að meðan á flugrekstrarstjóranum hvíldi grunur gæti verið rökstudd ástæða til að vantreysta honum. Af þessu var sú ályktun dregin að heimilt gæti verið að svipta flugfélagið svokölluðu flugrekandaskírteini og þar með væri hægt að útiloka það frá flugrekstri.

Þessi röksemdafærsla er afar sérstök og í það minnsta hæpin á meðan ekkert liggur fyrir um sannleiksgildi ávirðinganna eða niðurstöðu lögreglurannsóknar. Þessi nýi angi málsins er nú til frekari meðferðar hjá Flugmálastjórn og lögreglu.

Skýrsla rannsóknar- nefndar flugslysa

Hér verður ekki fjallað um efnistök og niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa sem er kveikjan að bréfi samgönguráðuneytisins sem áður er minnst á. Það verður að undirstrika að samkvæmt lögum um rannsókn flugslysa er tilgangur þeirra rannsókna ,,ekki að skipta sök og/eða ábyrgð". Á forsíðu skýrslunnar um flugslysið í Skerjafirði er tekið fram að henni skuli ekki beitt sem sönnunargagni í opinberum málum.

Meðan á ritun skýrslunnar stóð voru forsvarsmönnum L.Í.O. send drög til yfirferðar og athugasemda. Áttu sér þá stað samskipti á milli nefndarinnar og félagsins sem rétt þykir að upplýsa um:

- Af hálfu L.Í.O. voru gerðar athugasemdir við hæfi þriggja nefndarmanna sem félagið benti á að tengdust samkeppnisaðilum í flugrekstri. Þau tengsl gætu haft áhrif á hlutlægni þeirra og traust á nefndinni.

- Forsvarsmenn L.Í.O. ehf. gerðu í tvígang umtalsverðar athugasemdir við drög skýrslunnar. Að sumu leyti var tekið tillit til þeirra athugasemda en að öðru leyti alls ekki. Sérstaklega er hér bent á að í niðurstöðum skýrslunnar, þar sem greindir eru líklegir orsakaþættir slyssins, er einungis eitt atriði sem snýr að flugrekandanum, þ.e. að eldsneytis- og olíuskrá hafi ekki verið haldin samkvæmt reglum frá því að flugvélin var tekin í notkun. Þessu mótmælti flugrekandinn ítrekað og lagði fram gögn máli sínu til stuðnings. Jafnframt benti hann á að ekki væru til þær reglur sem kveða ættu á um þetta atriði. Þess er í engu getið í lokagerð skýrslunnar og er það út af fyrir sig alvarlegur hlutur.

Forsvarsmenn félagsins telja að endanlegri gerð skýrslunnar sé að ýmsu leyti ábótavant; hún hafi að geyma missagnir og jafnvel getsakir. Bíða frekari athugasemdir betri tíma en í því sambandi má minna á að gerð skýrslunnar tók u.þ.b. sjö mánuði en í dag eru liðnir sjö dagar frá því að hún var kynnt.

- - -

Eins og áður greinir stendur enn yfir lögreglurannsókn á slysinu sem miðar að því að upplýsa frekar en orðið er um það hvar ábyrgðin liggur. Jafnframt er ljóst að leitað er leiða til þess að svipta L.Í.O. ehf. flugrekstrarleyfi eða tilverugrundvelli sínum með því að rifta gerðum samningum.

Á meðan þessi orrahríð stendur yfir krefst hún óskiptra krafta forsvarsmanna þessa litla flugfélags. Þeir vonast til að fjölmiðlar og almenningur sýni því skilning að samhliða þeirri baráttu er þeim ekki auðvelt að taka þátt í opinberri umræðu um málið, en allt hefur sinn tíma.

Margir hafa skaðast í þessu máli. Einnig er ljóst að verulegur þrýstingur hefur skapast á stjórnvöld og flugmálayfirvöld að taka til hendinni með einhverjum hætti. Þrátt fyrir það er ekki ástæða til að hverfa frá þeim grundvallarreglum að mönnum verði ekki refsað eða mannorð þeirra rúið trausti nema fyrir liggi óyggjandi réttlæting þess.

Reykjavík, 31. mars 2001.

Virðingarfyllst,

f.h. L.Í.O. ehf.

Jóhannes Karl Sveinsson hrl.