Sólveig Pétursdóttir
Sólveig Pétursdóttir
Eðlilegt er að mati Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra að líta til löggjafar á hinum Norðurlöndunum í tengslum við hugsanlegar breytingar á íslenskum lögum í því skyni að stemma stigu við vændi í landinu. Þrennt þykir sérstaklega koma til greina, þ.

Eðlilegt er að mati Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra að líta til löggjafar á hinum Norðurlöndunum í tengslum við hugsanlegar breytingar á íslenskum lögum í því skyni að stemma stigu við vændi í landinu. Þrennt þykir sérstaklega koma til greina, þ.e. niðurfelling refsingar við því að stunda vændi sér til framfærslu, hækkun kynferðislegs lögaldurs úr 14 ára aldri og afdráttarlaust bann við kaupum á vændi af 14 til 18 ára ungmennum.

Þegar Sólveig var spurð að því hvort skýrsla Rannsóknar & greiningar um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess hefði komið henni á óvart svaraði hún því til að sér hefði í sjálfu sér ekki komið á óvart að vændi væri stundað á Íslandi enda væri engin ástæða til að ætla að Íslendingar skæru sig frá öðrum þjóðum að þessu leyti. "Mér kom heldur ekki á óvart sú dökka mynd sem dregin er upp af vændi á Íslandi í skýrslunni, þetta er ekki fallegur heimur sem þarna er lýst, en ég hef verið formaður barnaverndarnefndar í Reykjavík og séð ýmislegt sem þrífst undir yfirborðinu á okkar samfélagi. En það er þó ýmislegt sem vekur sérstaka athygli mína, t.d. ungur aldur og hve áberandi tengsl svokallaðs neyðarvændis ungmenna eru við misnotkun fíkniefna; m.a. er bent á í skýrslunni að ein af aðferðum milligönguaðilanna eða vændissalanna sé að fara í meðferð gagngert til að komast í kynni við ungar stúlkur sem eru í meðferð vegna vímuefnaneyslu."

Þverfaglegt mat

Hvað framhaldið varðaði minnti Sólveig á að ákveðið hefði verið að koma á fót nefnd til að gera tillögur um viðbrögð við niðurstöðum skýrslnanna tveggja um lagalegt og félagslegt umhverfi vændis á Íslandi. Nú hefði verið ákveðið að Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari myndi leiða starf nefndarinnar. Prófessor Þórólfur Þórlindsson, formaður Áfengis- og vímuvarnarráðs, hefði fallist á að taka sæti í nefndinni, Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn hefði verið tilnefndur af lögreglunni í Reykjavík, Sigurður Guðmundsson landlæknir af heilbrigðisráðherra, Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar af samgönguráðherra, Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnastofu af félagsmálaráðherra og Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri af Reykjavíkurborg.

Sólveig tók fram að nefndinni yrði falið að meta vandann frá þverfaglegum sjónarhóli. "Meðal annars verði farið yfir gildandi refsilög sem varða vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíkra mála, þ.m.t. hjálparúrræði við þolendur og hvort unnt sé að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði. Einnig verði kannað hvort ástæða sé til að setja reglur um rekstur og starfsemi nektardansstaða til þess að sporna við vændi. Að öðru leyti hafa verkefni nefndarinnar ekki verið takmörkuð," sagði hún og tók fram að eitt af því sem blasti við væri að skoða hvernig best væri að koma upp ráðgjöf og félagslegri aðstoð fyrir þá einstaklinga sem stunda vændi. "Í skýrslunni um félagslegt umhverfi vændis kemur fram að ekki sé til nein sérsniðin þjónusta fyrir einstaklinga í vændi á Íslandi. Slík þjónusta er til í nágrannalöndunum, bæði ráðgjöf, s.s. opnar símalínur, og félagsleg aðstoð. Nefndin verður að fjalla um hvernig megi auka aðstoð og stuðning við þá sem leiðast út í vændi og efla sérþekkingu á viðfangsefninu í félags- og heilbrigðiskerfinu, og hjá lögreglu. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa samráð og samstarf við aðila utan stjórnkerfisins, eins og Rauða krossinn, Kvennaathvarfið, Stígamót og fleiri aðila sem fást við ráðgjöf og aðstoð við einstaklinga."

Hugað að lagarammanum

Um lagaumhverfið tók Sólveig fram að mismunur á lagaramma á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum væri til þess fallinn að vekja upp spurningar um þörf á lagabreytingu hér á landi. Hún nefndi fyrst ákvæði íslenskra hegningarlaga um að refsivert væri að hafa framfærslu af vændi. "Í öðrum ríkjum Norðurlandanna hafa verið numin úr gildi ákvæði sem lögðu refsingu við því að veita vændisþjónustu. Slíkt ákvæði er enn að finna í íslenskum lögum þótt það sé aðeins bundið við þá sem hafa viðurværi sitt af vændi. Breytingarnar voru studdar þeim rökum að vændi væri fyrst og fremst félagslegt vandamál, sem bregðast ætti við með félagslegum úrræðum en ekki því að refsa þeim ógæfusömu einstaklingum sem leiðast út á þessa braut.

Skýrsla um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess sýnir napran veruleika þeirra sem stunda vændi. Vændið tengist iðulega fíkniefnanotkun, einstaklingarnir eiga oft að baki sögu um misnotkun eða bágar heimilisaðstæður, og vændið sjálft skilur eftir djúp sár. Ýmislegt sem kemur fram í skýrslunni bendir jafnframt til þess að gildandi löggjöf vinni gegn því að þessir einstaklingar leiti sér aðstoðar vegna vanda síns, jafnvel í heilbrigðiskerfinu. Sú spurning hlýtur því eðlilega að vakna hvort ekki sé rétt að færa íslenska löggjöf til samræmis við Norðurlöndin að þessu leyti."

Sólveig minnti á að á Íslandi miðaðist svokallaður kynferðislegur lögaldur við 14 ár sem þýddi að refsivert væri að hafa kynmök við einstakling yngri en 14 ára. "Þetta viðmið er hærra annars staðar á Norðurlöndum og tel ég að mikilvæg rök hnigi að því að hækka þetta aldursviðmið hér á landi. Hækkun kynferðislegs lögaldurs myndi því stuðla að ríkari vernd fyrir þennan aldurshóp gegn eldri einstaklingum sem hyggjast notfæra sér þroskaleysi hans í kynferðislegum tilgangi," sagði hún og tók að lokum fram að í öðrum ríkjum Norðurlandanna væri að finna sérstök ákvæði sem legðu refsingu við kaupum á vændisþjónustu barna og ungmenna. "Engin ákvæði í íslenskum lögum gera hins vegar afdráttarlaust refsivert að kaupa vændisþjónustu af börnum eldri en 14 ára. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að lögð sé refsing við slíku þegar börn eiga í hlut og ég tel að skýrslan um félagslegt umhverfi vændis bendi til þess að þörf sé á lagabreytingum í þá veru. Slík breyting fæli í sér að refsivert yrði að kaupa vændisþjónustu af einstaklingi yngri en 18 ára."

"Sænska leiðin" umdeild

Sólveig var innt álits á frumvarpi þriggja þingmanna Vinstri grænna til breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. "Þau leggja til að farin verði svokölluð "sænsk leið", þar sem kaup á vændisþjónustu hafa nýlega verið gerð refsiverð í öllum tilvikum. Ég er ekki reiðubúin að styðja slíkar breytingar að svo stöddu. Lítil reynsla er komin á þessar breytingar og hafa þær verið afar umdeildar þar í landi. Meðal annars hefur verið bent á að slíkar breytingar geti haft þveröfug áhrif við það sem til er ætlast; gert vændið enn duldara og vændiskonurnar enn háðari milliliðum sem ráðskast með líf þeirra," sagði Sólveig og tók fram að sjónarmiðið um að færa refsiábyrgð yfir á kaupendur vændisþjónustu væri að vissu leyti skiljanlegt. "En menn verða að skoða málið heildstætt og meta allar afleiðingar slíkrar löggjafar fyrir þjóðfélagið."

Alþjóðasamþykktir ekki brotnar

Spurt var hvort Íslendingar væru að brjóta alþjóðasamþykktir eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með því að hafa ekki sérstakt ákvæði í hegningarlögum um að bannað væri að kaupa vændi af börnum undir 18 ára aldri. Sólveig sagði óhætt að fullyrða að enginn sáttmáli væri brotinn. "Það er ljóst að íslensk lög tryggja að meginstefnu ríka vernd fyrir börn og ungmenni og barnaverndarstarf hér á landi er skilvirkt og gott. Einnig eru mörg ákvæði sem vernda börn gegn kynferðislegri misnotkun í almennum hegningarlögum og sérstök ákvæði í barnaverndarlögum.

Hins vegar er ljóst að breyting í þessa veru væri í anda Barnasáttmálans, þar sem kveðið er á um að aðildarríkin skuldbindi sig til að vernda börn gegn hvers kyns kynferðislegri notkun eða misnotkun í kynferðislegum tilgangi og er vændi sérstaklega tilgreint í því samhengi. Barnasáttmálinn áskilur hins vegar ekki lagasetningu af þessum toga."

Lagabreyting auðveldaði leið að þriðja aðila

Sólveig var spurð hvernig stæði á því að rannsóknir á brotum á lögum um vændi leiddu jafn sjaldan og raun bæri vitni til málshöfðunar og hvað væri hægt að gera til að bæta úr því. "Árið 1999 gerði dómsmálaráðuneytið könnun á fjölda kæra á fimm ára tímabili, 1994-1999, að beiðni þingsins. Lögreglustjórum utan Reykjavíkur höfðu engar kærur borist á þessu tímabili en 17 til lögreglunnar í Reykjavík en ekkert af málunum leiddi til ákæru," sagði Sólveig og bætti við að augljós ástæða væri sönnunarskortur. "Það liggur í hlutarins eðli að afar erfitt er að fá einstaklinga til þess að bera vitni um málsatvik í slíkum málum, hvort sem um er að ræða kaupanda eða seljanda vændisþjónustu. Það sem kemur auðvitað einnig í veg fyrir að þeir sem stunda vændi upplýsi lögreglu um mál er sú staðreynd að vændi til framfærslu er refsivert samkvæmt núgildandi lögum. Ég vil hins vegar láta skoða þessi mál hvað lögregluna varðar nánar og verður það gert í tengslum við starf nefndarinnar."

Sólveig tók í beinu framhaldi fram að lög sem fælu í sér þá breytingu að þeim sem neyddust til þess að stunda vændi yrði ekki refsað gætu aukið líkur á því að fleiri mál upplýstust, þ.e.a.s. að hægt væri að ná til fleiri milligönguaðila - þeirra sem skipulegðu og högnuðust á vændi án þess að stunda það sjálfir.

Sólveig var að lokum spurð hvort búast mætti við að gripið yrði til sérstakra ráðstafana vegna skipulegs ólöglegs vændis á nektardansstöðum. Hún byrjaði á því að taka fram að þegar hefði verið gripið til aðgerða, m.a. með breytingum á lögum um atvinnuleyfi og reglum um flokkun skemmtistaða. Með tilkomu þeirra reglna mætti ætla að eftirlit hefði aukist og réttarstaða dansara skánað. "En eitt af því sem nefndinni er falið að fjalla um er hvort ástæða sé til þess að setja frekari reglur um starfsemi nektardansstaða til þess að sporna við vændi. Ég hef ekki lagt til að þessir staðir væru bannaðir, en mjög algengt er í nágrannalöndum okkar að þeim séu settar skorður af einhverju tagi, annaðhvort af ríkisvaldinu eða sveitarfélaginu sem starfsemin fer fram í."