Claude Debussy
Claude Debussy
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á TÍBRÁR-tónleikum í Salnum annað kvöld kl. 20 verða haldnir píanótónleikar, en þar leikur Jónas Ingimundarson verk eftir Beethoven, Debussy og Liszt. "Þetta eru miklir uppáhaldskarlar hjá mér.

Á TÍBRÁR-tónleikum í Salnum annað kvöld kl. 20 verða haldnir píanótónleikar, en þar leikur Jónas Ingimundarson verk eftir Beethoven, Debussy og Liszt.

"Þetta eru miklir uppáhaldskarlar hjá mér. Það má nú eiginlega segja að það séu verkefnin sem velja mig, en ekki öfugt. Maður æfir eitt og annað, og staldrar við ákveðin verk sem verða smátt og smátt að tónleikadagskrá. Mér finnst mjög mikilvægt að gefa öðrum hlutdeild í því sem mér þykir vænt um og það er hvatinn að tónleikunum," segir Jónas Ingimundarson um efnisval tónleikanna.

"Fyrst á efnisskránni er Andante favori í F-dúr og Sónata í C-dúr ópus 53. Beethoven samdi Andanteið upphaflega sem hæga þáttinn í þessari sónötu, en hætti síðan við það. Mér þótti vel við hæfi að hafa það sem eins konar inngang að sónötunni. Sjálf sónatan skipar sérstakan sess í sónötusafni Beethovens og er "klassískt" verk. Þar haldast ytri búnaður og innihald fullkomlega í hendur, glæsilega og innilega í senn. "Sónatan var samin á árunum 1803-5, sem var mikið blómaskeið í sköpunarverki Beethovens, og þar með tónlistarsögunni allri. Beethoven-sónöturnar eru náttúrulega eilífðarviðfangsefni, en það líður varla sá dagur að ég sé ekki eitthvað að fást við þær," segir Jónas.

"Eftir hlé leik ég fjórar litríkar og fallegar prelúdíur eftir Claude Debussy, úr síðara heftinu, frá árunum 1911-13. Debussy er mikill meistari franskrar tónlistar. Með hans verkum kemur til sérstakur hjóðheimur, með nýjum litum og blæbrigðum."

Jónas lýkur tónleikunum á tveimur verkum eftir Franz Liszt, "þennan makalausa meistara slaghörpunnar", eins og Jónas kemst að orði. Fyrra verkið nefnist Gosbrunnarnir við Estehöll en það samdi Liszt árið 1877. Þar endurspeglast sú dýrð sem fyrir augu fólks bar í hinum fræga Tivoligarði við Estehöll, skammt frá Róm. "Verkið er sögulegt að því leyti að þar má heyra hversu mjög Liszt var á undan sinni samtíð. Hann var brautryðjandi á sviði píanóleiks og tónsmíða." Síðara verkið eftir Liszt er Ballata nr. 2 í h-moll, og segir Jónas verkið myndrænt, ljóðrænt og dramatískt í senn, en það er að margra mati meðal bestu verka tónskáldsins.

Jónas segist að lokum vonast til að með tónleikunum geti hann gefið fólki hlutdeild í þessari stórkostlegu tónlist. "Í tónlistinni er að finna fegurðina í mannlífinu og ég lít á það sem mitt hlutverk að flytja hana fólki, ekki veitir af í skarkala nútímans. Það má kannski líkja þessu við trúboð enda eru tónlistin og trúin alls ekki fjarskyld fyrirbrigði," segir hann að lokum.