Árni Kristjánsson að störfum.
Árni Kristjánsson að störfum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á NÆSTSÍÐASTA áratug síðustu aldar - þegar enn var hægt að fá ósvikið bjórlíki á knæpum bæjarins og farsímar voru á stærð við meðalferðatöskur - sveif andi Pavlovs, Watsons og Skinners, helstu forvígismanna atferlisstefnunnar í sálfræði, yfir vötnum í...

Á NÆSTSÍÐASTA áratug síðustu aldar - þegar enn var hægt að fá ósvikið bjórlíki á knæpum bæjarins og farsímar voru á stærð við meðalferðatöskur - sveif andi Pavlovs, Watsons og Skinners, helstu forvígismanna atferlisstefnunnar í sálfræði, yfir vötnum í suðvesturálmu Menntaskólans við Hamrahlíð. Í einni af kompum skólans var búið að koma fyrir litlum búrum sem voru nákvæmar eftirmyndir tilraunabúra B.F. Skinners. Innihald þessara búra var albínóar af rottukyni sem nemendur notuðu við tilraunir sínar. Rotturnar voru gjarnan nefndar, og jafnvel skírðar við hátíðlega athöfn, ýmsum kunnuglegum og ekki svo kunnuglegum nöfnum; rottan "Freudian slip" var t.a.m. afar vinsæl rotta meðal nemenda. Á þessum árum var ekki um að villast að atferlisstefnan hafði vinninginn fram yfir aðrar stefnur innan sálfræðinnar, að minnsta kosti þarna í Hamrahlíðinni.

Einn af þeim sem hófu sína sál-fræðiakademísku þrautagöngu þarna vestan við Norðurkjallarann er Árni Kristjánsson. Hann lauk síðan BA-prófi í sálfræði við Háskóla Íslands árið 1996 og fjallaði lokaritgerð hans um lestur og leturgerðir. Eftir að hafa aflað sér starfsreynslu á geðdeild Landspítalans við Klepp og Félagsmálastofnun Reykjavíkur við áfengisskor hélt Árni haustið 1997 til Massachusetts, helsta vígis Kennedy-ættbálksins. Þar kom hann sér fyrir í Cambridge, sem er eins konar fín útgáfa af Hafnarfirði, rétt við Boston og hóf doktorsnám í skynjunarsálfræði við Harvard-háskólann. Eiginkona Árna er Anna María Hauksdóttir, en hún er þegar þessi orð eru skrifuð að ljúka við lokaverkefni sitt til MA-gráðu í uppeldisfræði við Boston-háskóla. Þau eiga eina dóttur; Maríu Kristínu, tveggja ára.

Nýlega var birt grein eftir Árna í tímaritinu Psychological Science, sem er virt tímarit innan sálfræðivísindanna. Greinin hefur vakið talsverða athygli og ákvað ég því að hitta Árna og spyrja hann út í lífið og tilveruna þarna í Cambridge.

Burrhaus er dauður

Við Árni setjumst niður á Harvard-torginu í Cambridge. Það er síðdegi og hljómsveitin "Not the Beatles" hefur upp raust sína á útjaðri torgsins. "Þeir spila eingöngu Bítlalög," segir Árni og kímir. "Þeir mega eiga að þeir eru bara nokkuð góðir."

Ekki-Bítlarnir fá ekki meiri tíma hér en þó má segja að þeir skemmtu okkur lengstum þar sem við sátum og drukkum "Mountain dew", drykk sem er bannaður víða um heim, þó að með öllu óáfengur sé. Fljótlega beindist talið að atferlissinnum og rottunum í menntaskólanum, enda kannski ekki nema von, þar sem við erum staddir í hjarta Harvard, hvar atferlisstefnan sleit barnsskónum. Sálfræðideildin í Harvard var lengi eitt helsta vígi atferlismanna enda var Skinner, meistarinn sjálfur, prófessor við skólann og því liggur beinast við að spyrja Árna: Er Frederich Burrhaus Skinner dauður?

"Já, hann er það, í tvennum skilningi þess orðs. Fyrir það fyrsta dó hann líkamlegum dauða 1989 og höfðu kenningar hans þá lengi verið á undanhaldi. Richard Herrnstein, sem var náinn samstarfsmaður Skinners síðari hluta starfsævi þess síðarnefnda, lést fyrir þremur árum og þá má segja að atferlisstefnan innan sálfræðinnar hér við Harvard hafi farið úr fókus. Atferlissinnar eiga þó auðvitað sín vígi en ekki hérna. Raunar held ég að ég hafi verið í síðustu kennslustundinni sem síðasti atferlissinninn við Harvard kenndi, vorið 1998, en sá var einn af lærisveinum Herrnsteins; var með dúfnakofa á tíundu hæð sálfræðibyggingarinnar, þar sem hann kenndi þeim að ýta á slá til að fá mat, en annars ekkert. Í lok tímans var pöntuð pítsa. Það var allt og sumt. Kannski sorglegur endir á merkri sögu."

Hvers vegna er talið að Skinner hafi haft rangt fyrir sér? Nú virtust rotturnar í tilraunum hans allar haga sér eins við sams konar aðstæður og aðbúnað; - er atferlisstefnan þá ekki lausnin á lífsgátunni?

"Skinner hafði auðvitað margt til síns máls og gerði mikilvægar uppgötvanir en hann flaskaði á einu lykilatriði: Sama áreitið hefur ekki alltaf sömu áhrif eða svörun, það fer eftir túlkuninni. Til dæmis er nokkuð víst að setningin: "Kysstu mig ástin mín" hafi mismunandi áhrif eftir því við hvern þú segir það og þá við hvaða aðstæður. Ef það er konan þín og þú ert heima við færðu væntanlega fremur vinsamleg viðbrögð, en viðbrögð konunnar í búðinni úti á horni er erfitt að segja fyrir um," segir Árni og glottir. "Svo ef þú segir vini þínum að einhver hafi sagt þetta við þig á skemmtistað um helgina kallar það svo fram enn önnur viðbrögð; og svona mætti lengi telja. Sú tilraun að skýra mannlegt atferli eingöngu út frá utanaðkomandi áreitum og lærðum viðbrögðum við þeim var því dæmd til að mistakast. Í dag eru sálfræðingar alls ekkert smeykir við að álykta um innra ástand lífvera; til dæmis að tala um tilfinningar, langanir og markmið."

Viðfangsefni skynjunarsálfræðinnar

Hvert er helsta viðfangsefni skynjunarsálfræðinnar?

"Okkar viðfangsefni er í stuttu máli sjónin. Hvernig virkar sjónkerfið, hverju veitum við eftirtekt og hvenær bregst sjónin, þ.e. af hvaða áreitum missum við, og hvers vegna. Rúmlega helmingur heilans fer í sjónúrvinnslu þannig að viðfangsefnið er nokkuð viðamikið svo ekki sé meira sagt. Til að leysa gátuna um hvernig sjónkerfið virkar þurfa uppgötvanir frá mörgum vísindagreinum að koma saman, t.d. tölvunarfræði, læknisfræði, lífeðlisfræði, líffræði og sálfræði svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður tilrauna okkar koma að góðum notum við hönnun stjórntækja ýmissa farartækja eins og til dæmis bíla. Þar er hægt að koma í veg fyrir að hönnunin sé þess eðlis að maðurinn ráði ekki við það sem stjórn farartækisins krefst." Þetta með eftirtekt og hvenær athyglin bregst; er þarna komin skýringin á því sem margar konur vilja halda fram um karlmenn, að þeir geti ekki gert tvennt í einu, til dæmis lesið dagblað og átt í samræðum um leið?

"Dæmið er gott og jafnvel spennandi viðfangsefni en skynjunarsálfræðin gefur lítið fyrir það að skoða kynjamun sem slíkan, enda um afar flókið viðfangsefni að ræða. Aftur á móti væri skemmtilegt að varpa því fram hvort ekki sé um meðfæddan hæfileika karlmanna að ræða sem þeir nota til þess að koma sér undan því að svara erfiðum spurningum!" Þess ber að geta að Árni firrir sig allri "vísindalegri" ábyrgð á þessari tilgátu.

Nú birtir þú grein nýverið sem vakið hefur talsverða athygli. Gætirðu útskýrt í stuttu máli um hvað hún fjallaði?

"Greinin er í raun byggð á niðurstöðum tilraunar sem ég vann að um nokkurt skeið þar sem viðfangsefni mitt var minnið og hvaða hlutverki það gegnir við úrvinnslu sjónáreita. Rannsóknarhópur við Harvard Medical School hafði fyrir stuttu komist að þeirri niðurstöðu að við geymdum áreiti handahófskennt í minnisbanka okkar og legðum ekki á minnið hvar ákveðin áreiti væru í umhverfi okkar. Til dæmis ef við værum að leita að ákveðnum silfurlitum lykli í hrúgu af gylltum lyklum geymdum við ekki upplýsingar um hvar við höfðum leitað áður. Niðurstöður mínar voru á öndverðum meiði við þeirra niðurstöður. Ég komst að því að þegar við framkvæmum svona leit er leitin skipulagðari en tilraun þeirra gaf til kynna og talsverðar upplýsingar virðast geymdar í skammtímaminninu á meðan. Með öðrum orðum: Við leggjum á minnið hvar við leitum að hlutum og leitum líklega ekki aftur og aftur í sömu skúffunni að bíllyklunum!"

Ertu búinn að skapa þér nafn innan greinarinnar með þessum niðurstöðum?

"Ég þarf ekki að lyfta litla fingri það sem eftir er!" segir Árni og hlær en er fljótur að bæta við: "Nei, þetta er nú ekki svona einfalt og niðurstöður mínar ekki til þess fallnar að valda byltingu í geiranum. Hins vegar neita ég því ekki að nafn mitt er aðeins þekktara en áður innan greinarinnar þótt ekki sé ég orðinn frægur í neinum skilningi þess orðs."

Því má bæta við að fleiri greinar eftir Árna um svipað efni eru væntanlegar í fræðiritunum Perception & Psychophysics og Vision Research.

Það mætti krydda þetta og birta á síðum blaða á Íslandi líkt og gert var með Garðar Hólm og aðra ónefnda en þó holdi klæddari menn - eða hvað?

"Jú, vissulega er margt hægt í þeim efnum, en áhugi minn á slíku er lítill. Ég verð þó að játa að tilboð um stöður við skóla, þar sem aðstaða til rannsókna- og fræðistarfa er góð, kitla mig nokkuð. Ég efa að Garðarssyndrómið á Íslandi hafi þar einhver afgerandi áhrif. Ég held að líkingin við Egil Skalla-Grímsson sé mér meira að skapi, hann kemst aftur heim til Íslands eftir erfiða baráttu og ber þar beinin. Það eina sem ég þarf að finna út er hvað á eftir að verða mín "Höfuðlausn". Ætli það verði ekki bara doktorsritgerðin!"

Kennsla og aðbúnaður í Harvard

Nú hefur löngum verið talað um að Harvard sé í hópi bestu skóla í heimi ásamt Oxford, Cambridge og Yale, svo einhverjir séu nefndir. Hvað er það sem gerir skóla að einum þeim besta í heiminum?

"Harvard er auðvitað ríkur skóli og hefur sterka hefð fyrir góðri fræðimennsku. Skólinn hefur sankað að sér virtum prófessorum og allur aðbúnaður til rannsókna er til fyrirmyndar. Þetta gerir að verkum að hægt er að gera meiri kröfur til skólans en ella."

Ertu ekki þar með að segja að einkaframtakið sé af hinu góða og þeim mun meiri samkeppni þeim mun betri skóli?

"Svo einfalt er það kannski ekki. Harvard er kannski afkvæmi einkaframtaksins en það er ekkert sem segir að einkaframtakið eða kapítalisminn sé eina leiðin til þess að reka góðan skóla. Hér eru í námi margir mjög duglegir krakkar sem fengu tækifæri vegna námshæfileika sinna fremur en peninga - en auðvitað leynast hér ríkir pabbastrákar sem eiga ríkulegu fjárframlagi að þakka sína vist."

Pirrar þetta þig?

"Nei, ég get ekki sagt það, enda held ég að án hæfileika komist þú ekki langt og keypt diplóma er frekar lélegur pappír."

Nú ert þú eins konar stundakennari við skólann, hvað er það sem þú kennir og hverjum?

"Ég er aðstoðarkennari í líffræði fyrir þá sem ekki eru með líffræði sem aðalfag. Ég er jafnframt aðstoðarkennari í hugfræði innan sálfræðideildarinnar. Nemendurnir eru svokallaðir "undergraduates" en þeir eru yfirleitt á aldrinum 18-22 ára."

Er eitthvað af "frægu" fólki þarna?

"Það er spurning hvort gáfurnar fylgja frægðinni eða fegurðinni," segir Árni hlæjandi. "En auðvitað hafa komið hér margir við sem ekki geta talist úr neðri stigum þjóðfélagsins. Hér er meðal annars við nám Natalie Portman og á ég von á að hún komi í tíma hjá mér, enda er sálfræði hennar aðalfag. Hún þykir standa sig með prýði. [Natalie þessi hefur getið sér gott orð fyrir kvikmyndaleik frá barnsaldri. Fyrst lék hún aðalhlutverkið á móti Jean Reno í Leon, en nú síðast sem Amidala drottning í Star Wars.] Svo var dóttir Gores varaforseta hér þegar ég byrjaði, en ég held hún hafi klárað nýlega."

Framtíðin

Það er indíánasumar í Boston þennan ágæta septemberdag. Sólin er komin bak við annars lágreista skýjakljúfana, þegar hér er komið við sögu. Árni býður mér í kaffi á einu horninu en fær sér sjálfur Samuel Adams-bjór, sem er gæðabjór bruggaður í Massachusetts, kenndur við eina ef frelsishetjum Bandaríkjanna. Við höldum spjallinu áfram.

Hvert stefnirðu í framtíðinni?

"Við stefnum heim, það er á hreinu - þó er ekki vitað hversu nálæg sú framtíð er. Að sjálfsögðu kitlar að komast að hjá einhverjum skólanum og stunda rannsóknir - eins og ég kom að hér áðan - en hlutirnir verða að skoðast í samhengi. Anna María konan mín er einnig að klára sitt nám og hagsmunir skynjunarsálfræðinnar og uppeldisfræðanna fara ekki endilega saman. Ég get því ekki sagt fyrir víst hvað verður. Það eina sem er á hreinu er að okkur langar heim einhvern daginn."

Hvað með tilboð utan úr heimi?

"Eftir doktorsprófið stendur mér til boða að koma til Englands, Wales eða jafnvel Japans, en við höfum ekki ákveðið neitt enn. Það er líka svo margt sem getur breyst á einu ári eða tveimur - svo ég segi eins og Þórbergur: "Best að segja ekki meir.""

Þar með kveð ég Árna Kristjánsson, einn af okkar mönnum í Ameríku. Rotturnar úr Hamrahlíðinni enduðu allar í Keldnaholtinu, enda ljóst eftir samtal okkar Árna að Skinnerbúrið er á undanhaldi.