SILUNGSVEIÐI í ám hefst í dag, 1. apríl. Mörg veiðileyfi eru þegar uppseld fyrstu dagana enda mikil eftirvænting í veiðimönnum að byrja tímabilið. Ástand helstu veiðiáa er almennt talið gott og t.d.

SILUNGSVEIÐI í ám hefst í dag, 1. apríl. Mörg veiðileyfi eru þegar uppseld fyrstu dagana enda mikil eftirvænting í veiðimönnum að byrja tímabilið. Ástand helstu veiðiáa er almennt talið gott og t.d. lítið um ísilagðar ár á Vestur- og Suðurlandi, líkt og í fyrra þegar veiðimenn þurftu víða að byrja á því að dorga niður í gegnum vakirnar.

Bergur Steingrímsson, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sagði við Morgunblaðið að veiðimenn væru bjartsýnir fyrir þetta tímabil en þeir hefðu reyndar verið enn kátari fyrir um tveimur vikum þegar sannkallað vor var í lofti. Síðan hefði kólnað og útlit væri fyrir áframhaldandi kuldatíð. Veiðimenn á Norður- og Austurlandi þurfa að minnsta kosti að klæða sig vel og vera vel tækjum búnir í mörgum ám fyrir dorgveiðar.

Menn orðnir spenntir

"Nú hefur verið frost á nóttunni og veiðin gæti orðið erfið fyrri part dags. Það getur frosið í lykkjum og línum en allar aðrar aðstæður eru eins og best verður á kosið. Þannig að það ætti að vera silungur og vonandi nóg af honum. Það er sama hvaða dag ber upp á 1. apríl. Margir geta ekki beðið og eru orðnir það spenntir að þeir verða að ná strax úr sér fiðringnum. Sumir eru bara í silungnum en hjá öðrum er þetta upphitun fyrir laxveiðina sem byrjar ekki fyrr en 1. júní," sagði Bergur.

Á vegum Stangaveiðifélags Reykjavíkur byrjar silungsveiðin í dag í Hítará á Mýrum, Soginu, Eldvatni á Brunasandi, Hörgsá, Þorleifslæk í Hveragerði og fleiri stöðum.