Bólusetningargera ótrúlegamikið gagn.
Bólusetningargera ótrúlegamikið gagn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á undanförnum árum hefur fólkið í fátækum löndum heimsins barist við að fá aukið fjármagn til að efla bólusetningar. Í iðnríkjunum hefur á sama tíma borið á vaxandi gagnrýni og tortryggni í garð bólusetninga.

Á undanförnum árum hefur fólkið í fátækum löndum heimsins barist við að fá aukið fjármagn til að efla bólusetningar. Í iðnríkjunum hefur á sama tíma borið á vaxandi gagnrýni og tortryggni í garð bólusetninga. Í mörgum fátækum löndum Asíu, Afríku og Suður-Ameríku er verið að efla bólusetningar og byggja upp kerfi til bólusetninga í stórum stíl. Þetta er gert vegna þess að fjármagn sem eytt er í bólusetningar skilar sér mjög vel í færri dauðsföllum barna og bættri lýðheilsu. Árið 1977 tókst að útrýma bólusótt (stórubólu) eftir mikla bólusetningarherferð sem náði um allan heim. Nú hafa menn sett sér það takmark að útrýma mænusótt (lömunarveiki) fyrir árið 2005, fækka tilfellum og dauðsföllum af mislingum, útrýma nýburastífkrampa og hefja bólusetningu fyrir lifrarbólgu B í öllum löndum. Þegar hefur náðst mikill árangur í baráttunni við alla þessa sjúkdóma, og ýmsa aðra, með bólusetningum.

Í nokkur ár hefur verið í tísku að kenna bólusetningum um ýmislegt í heilbrigðismálum í heiminum. Má fyrst nefna þá kenningu að alnæmifaraldrinum hafi verið komið af stað með bólusetningum við mænusótt í Vestur-Afríku, með bóluefni sem á að hafa verið smitað með alnæmiveirunni. Bóluefnið á að hafa verið ræktað í apavefjum og veirurnar borist þaðan. Þessi kenning byggir eingöngu á getgátum, aldrei hefur sannast neitt af því sem upphafsmennirnir héldu fram og nú er varla nokkur sem trúir því að þetta hafi gerst. Önnur aðför að bólusetningum byggir á rannsókn bresks læknis sem taldi sig finna samband milli vissra bóluefna og einhverfu. Auðvelt hefur reynst að benda á alvarlegar veilur í þessari rannsókn og margar aðrar rannsóknir hafa í kjölfarið verið framkvæmdar þar sem ekkert slíkt samband hefur fundist. Eins og málin standa í dag má telja þessa kenningu afsannaða en hún hefur haft viss neikvæð áhrif. Bent hefur verið á að sumir foreldrar sem verða fyrir því að eignast veik eða fötluð börn hafa þörf fyrir að finna skýringu eða ástæðu og gera þá stundum einhvern eða eitthvað að blóraböggli. Í sambandi við bólusetningar og einhverfu hafa verið settar fram samsæriskenningar sem virðast vinsælar í sumum löndum en svo virðist sem Íslendingar séu yfirleitt ekki ginnkeyptir fyrir slíku, sem betur fer. Samsæriskenningar af þessu tagi ganga oft út á það að heilbrigðisyfirvöld, læknar og lyfjaframleiðendur bindist samtökum um að fela sannleikann og um kenningarnar eru gjarnan mynduð félagssamtök. Sumir ganga svo langt að halda því fram að bólusetningar séu undirrót margra eða flestra sjúkdóma og hefja baráttu gegn bólusetningum almennt. Þó flestum finnist að svona ofstæki hljóti að dæma sig sjálft eru starfandi í mörgum iðnríkjum félög sem berjast gegn bólusetningum. Þessi barátta ruglar fólk, hefur þær afleiðingar að sumir foreldrar ákveða að láta ekki bólusetja börn sín og afleiðingarnar láta ekki á sér standa, alvarlegum veikindum og dauðsföllum vegna sjúkdóma eins og mislinga hefur fjölgað í Evrópu og N-Ameríku.

Þegar málið er skoðað vandlega er það eina sem eftir stendur að ekki er hægt að útiloka að bólusetningar eigi einhvern þátt í þeirri aukningu á ofnæmissjúkdómum sem sést hefur á undanförnum áratugum, en þetta er þó engan veginn víst. En hvað mundi gerast ef bólusetningum yrði hætt í heiminum? Tilhugsunin er skelfileg vegna þess að við höfum ýmsar vísbendingar um þær hörmungar sem mundu fylgja. Reiknað hefur verið út að árlega deyi í heiminum um 2 milljónir barna vegna sjúkdóma sem hægt er að bólusetja fyrir; þessi tala mundi margfaldast. Árlega veikjast um 5000 manns af mænusótt, flestir í Afríku og Asíu; þessi tala mundi margfaldast og sjúkdómurinn mundi drepa og lama mikinn fjölda fólks um allan heim. Mislingar yrðu aftur að þeirri skæðu og hættulegu farsótt sem þeir voru áður fyrr og reiknað hefur verið út að í Bandaríkjunum einum mundu árlega veikjast 3-4 milljónir og um 450 deyja. Svona mætti áfram telja fyrir stífkrampa, heilahimnubólgu, barnaveiki, lifrarbólgur og ýmsa aðra sjúkdóma sem bólusett er fyrir. Að hætta eða draga verulega úr bólusetningum mundi hugsanlega bæta heilsu einhverra fórnarlamba aukaverkana bólusetninga (t.d. ofnæmis) en mundi á sama tíma stofna lífi og heilsu milljóna eða tugum milljóna barna og ungmenna í bráða hættu. Niðurstaðan er því sú að bólusetningar geri ótrúlega mikið gagn en valdi litlu sem engu tjóni og séu öflugasta og ódýrasta forvörn við sjúkdómum sem fundin hefur verið upp. Stöðugt er verið að endurbæta bóluefni, finna ný og öflugri og finna bóluefni við sjúkdómum sem ekki hefur verið hægt að bólusetja fyrir áður. Sem dæmi má nefna að á næstu árum má gera sér vonir um að sett verði á markað bóluefni við alnæmi, malaríu og sumum tegundum krabbameins og mun það bæta lýðheilsu í heiminum verulega.

eftir Magnús Jóhannsson