Þegar Félag húsbílaeigenda stendur fyrir ferðum út á land er víða stoppað til að  skoða það sem fyrir augu ber. Hér eru félagarnir á leið til Akureyrar
Þegar Félag húsbílaeigenda stendur fyrir ferðum út á land er víða stoppað til að skoða það sem fyrir augu ber. Hér eru félagarnir á leið til Akureyrar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er sérstök stemmning sem myndast þegar eigendur hundrað húsbíla aka saman um landið. Erna Margrét Kristjánsdóttir segir að á leiðinni sé lesið úr ferðahandbókum í gegnum talstöð um það sem fyrir augu ber.

FYRIR um átján árum tóku nokkrir eigendur húsbíla sig saman og stofnuðu Félag húsbílaeigenda. Í dag eru félgsmenn um 600 talsins og eitt af því sem þeir gera saman er að ferðast um landið. Erna Margrét Kristjánsdóttir, formaður Félags húsbílaeigenda, segir að í sumar verði farið í níu ferðir út á land.

"Í vor ætlum við í fyrsta sinn að fara í gróðursetningarferð og þá liggur leiðin á Þórisstaði í Svínadal. Um hvítasunnuhelgina tökum við stefnuna á Árnes í Þjórsárdal og 15.-17. júní förum við í skoðunarferð um Reykjanes. Á hverju ári förum við svo í eina stóra ferð. Í ár verður farið í hana dagana 21.-29. júlí og þá liggur leiðin á Vestfirði." Erna segir að húsbílaeigendur ætli þá að hittast í Borgarnesi og fara þaðan á Borðeyri, til Hólmavíkur, í Kaldalón, á Reykjanes og fara síðan með báti frá Ísafirði, jafnvel á Hornstrandir. Þá verður ekið til Bolungarvíkur, farið í Skálavík en lokahófið verður síðan haldið á Ísafirði. "Í fyrra dekkuðum við borð fyrir 230 manns í lokahófinu okkar en það var ekki nóg svo það er næg þátttaka enda yfir hundrað bílar sem fara í stóru ferðirnar," segir hún.

Mikið spilað og sungið í ferðunum

En verða ekki eigendur fólksbíla pirraðir þegar hundrað húsbílar aka saman um vegi landsins og þeir geta ekki komist fram úr?

"Við erum með talstöðvakerfi í bílunum og tölum saman með þeim hætti. Sá sem er aftastur í röðinni lætur vita ef þarf að hleypa bílum framúr svo það hafa engin vandamál komið upp í því sambandi. Við notum talstöðvakerfið líka til að fræðast um það sem fyrir augu ber á leiðinni. Sigríður Arna Arnþórsdóttir, fyrrverandi formaður félagsins, hefur séð um leiðsögn og lesið úr ferðahandbókum á leiðinni."

Hvernig eyðið þið svo tímanum þegar þið eruð ekki að keyra?

"Við erum svo heppin að hafa nokkra góða harmonikuspilara í félaginu og þeir eru viljugir að spila. Þá leika félagsmenn líka á gítar og munnhörpu svo við syngjum og spilum og skemmtum okkur vel. Við erum sjö í stjórn félagsins og síðan erum við með skemmtinefnd og ferðanefnd og allir hjálpast að við að undirbúa ferðirnar sem best og þá starfsemi sem við erum með."

Félagsmenn á öllum aldri

Á hvaða aldri eru félagsmenn?

"Þeir eru á öllum aldri, yngstu félagsmennirnir eru um tvítugt og síðan eru þeir upp í áttrætt. Það er líka mikið um börn í ferðunum okkar."

Erna segir að á veturna hittist fólk líka, 4-5 sinnum er opið hús og nýlega var farið í skemmtilega óvissuferð. "Þá fórum við í Gvendarbrunna, skoðuðum málverkasýningu Sólveigar Eggerz á Hrafnistu í Hafnarfirði og fórum í línudans í Dalsskóla hjá dansskóla Sigurðar Hákonarsonar. Í lokin borðuðum við saman, sungum og dönsuðum fram yfir miðnætti."

Hefur félagsmönnum fjölgað undanfarin ár?

"Þeim er alltaf að fjölga og um síðustu helgi vorum við með kynningu á starfsemi okkar á Garðatorgi. Þá fengum við tíu nýja félagsmenn."

Eru það svipaðir húsbílar sem fólk er á?

"Það er mikil breidd í húsbílunum. Unga fólkið byrjar oft á því að kaupa sér sendibíl og innrétta og svo eru líka til mjög flottir húsbílar með svítum. Þá eru Benz-húsbílar mjög vinsælir hér á landi."

Þegar Erna er spurð hvort það sé dýrt að eiga og reka húsbíl segir hún að það sé að minnsta kosti ódýrara en að eiga sumarbústað og þar að auki geti fólk ferðast um allt á húsbílum. Það er algengt að fólk ferðist til útlanda á húsbílum og í sumar ætla t.d. fimmtán húsbílaeigendur að fara saman með Norrænu til Noregs og keyra til Ítalíu.

Það hefur færst í vöxt að fólk ferðist líka á veturna með þessum hætti, fari í helgarferðir, á skíði og svo framvegis."