Í íslenzku hefur sú verið aðalreglan, að kvk.no., sem enda á -a i nf. et.í svonefndri veikri beyingu, endi á -na i ef. ft. Þar má nefna no. eins og stúlka - stúlkna, perla - perlna o.s.frv. Vissulega eru á þessu undantekningar, og fer það m. a.

Í íslenzku hefur sú verið aðalreglan, að kvk.no., sem enda á -a i nf. et.í svonefndri veikri beyingu, endi á -na i ef. ft. Þar má nefna no. eins og stúlka - stúlkna, perla - perlna o.s.frv. Vissulega eru á þessu undantekningar, og fer það m. a. eftir hljóðasamböndum. Á þetta hefur áður verið minnzt í þessum pistlum. Þetta er aftur rifjað hér upp, þar sem í Mbl. 29. marz sl. segir frá merku starfi félags kvenna, sem nefnir sig Svölurnar. No. svala fellur undir ofangreindan beygingarflokk. Samkvæmt því er ef. ft. þessa orðs svalna. Þetta eignarfall kemur svo nokkrum sinnum fyrir í ofangreindri frásögn, en alltaf n-laust. "Stjórn Svalanna kynnti sér starfsemi deildarinnar." "sótti deildin um styrk til Svalanna". "Helsta fjármögnunarleið Svalanna er jólakortasala." Ef málfræðireglum er fylgt, hefði átt að tala um stjórn Svalnanna o.s.frv.

Snemma hefur hins vegar borið á tvískinnungi í beygingu þessara orða og tilhneigingin verið sú að fella n-ið niður. Vera má, að mönnum þyki óþægilegt að tala um stjórn Svalnanna og þægilegra að segja hér Svalanna.

En samt hefur n-ið haldið velli í sambærilegu orði, no. tala. Þar segja menn hiklaust talna, ekki tala. Maður er talinn talnafróður, talnaglöggur, þ.e. n-ið helzt. Mörg önnur dæmi mætti nefna í þessu sambandi, en þetta nægir að sinni. - J.A.J.