Nýlega var stofnuð ættarmótaþjónusta í Þjórsárveri í Villingaholtshreppi en þar hafa fjölskyldur oft haldið ættarmót.

Nýlega var stofnuð ættarmótaþjónusta í Þjórsárveri í Villingaholtshreppi en þar hafa fjölskyldur oft haldið ættarmót.

Að sögn Valdimars Össurarsonar umsjónarmanns í Þjórsárveri er markmiðið með þjónustunni að gera skyldmennum auðveldara að hittast án þess að þurfa að standa í vinnu við framkvæmd ættarmótsins. "Ættarmótaþjónustan sér um að skipuleggja ættarmót í samvinnu við þá sem eru að boða til ættarmóta. Við leitum tilboða í þjónustu þeirra sem sinna gerð niðjatala, sjáum um að útvega prentun og fá tilboð í hana, semja við veisluþjónustu, leita tilboða hjá fyrirtækjum sem eru með hópferðabifreiðir, athuga með skoðunarferðir og svo framvegis."

Valdimar segir að hæglega sé hægt að taka á móti 150-200 manna ættarmótum í Þjórsárveri en hann segir að veislusalurinn rúmi um 160 manns til borðs. Þá er hægt að fá svefnpokagistingu í félagsheimilinu en einnig útvegar ættarmótaþjónustan gistingu hjá bændum og á hótelum í nágrenninu. Í sumar verður einnig tekið í notkun endurbætt tjaldstæði í Þjórsárveri.

Þar verður boðið upp á rafmagn fyrir húsbíla og tjaldvagna, komið upp sturtum og þvottavélum og aðstaðan gerð fyrsta flokks.

Valdimar segir að í félagsheimilinu sé góð eldunaraðstaða, útigrill standa gestum til boða og borð eru úti við. Hann segir að sviðið í félagsheimilinu henti vel til skemmtiatriða, félagsheimilið hefur tekið í notkun nýtt hljóðkerfi og myndvarpa. Þá er söluturn á staðnum og bæði íþróttaleikvöllur og barnaleikvöllur.