Júdókennsla. Draumurinn er að geta orðið júdókennari þegar fram líða stundir.
Júdókennsla. Draumurinn er að geta orðið júdókennari þegar fram líða stundir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drífið ykkur áfram, ekki þennan aumingjaskap!" Aníbal leiðsögumaður kallaði þessi hvatningarorð til kófsveitts blaðamanns og þungklyfjaðs ljósmyndara þar sem þau klönguðust upp þröngan og brattan stiga í hálfkaraðri byggingu í Rio de Janeiro.

Drífið ykkur áfram, ekki þennan aumingjaskap!" Aníbal leiðsögumaður kallaði þessi hvatningarorð til kófsveitts blaðamanns og þungklyfjaðs ljósmyndara þar sem þau klönguðust upp þröngan og brattan stiga í hálfkaraðri byggingu í Rio de Janeiro. "Ég veit alveg hvað þið segið - það er að segja ef þið komist einhvern tíma upp," bætti hann svo prakkaralega við. Loksins sást grilla í bláan himin í stigaopinu og allt í einu stóðum við uppi á þaki. Þetta var þó ekki eiginlegt þak, heldur var eins og byggingaverktakinn hefði skroppið í kaffi frá hálfhlöðnum veggjum. "Vááá," stundum við þegar við litum í kringum okkur. "Ég vissi það!" sagði Aníbal og tók bakföll af ánægju, "þetta segja allir sem koma hingað."

Það voru engar ýkjur að útsýnið ofan af þessu hálfbyggða húsi í einu fátækasta hreysahverfinu í Ríó var magnþrungið. Húsið stóð ofarlega í hárri fjallshlíð í 200 þúsund manna "þorpi". Framundan breiddi hafið úr sér með sínum ægifögru smáskerjum og hitabeltiseyjum og hvítglóandi sólin skein miskunnarlaust beint ofan í höfuðið á manni. Á báðar hendur voru brattar fjallshlíðar sem þorpið bókstaflega hékk í. "Útsýnið er okkar lúxus og ríka fólkið getur hvorki né vill hafa hann af okkur," sagði Aníbal. Þessi lúxus er þó dýru verði keyptur, því á regntímanum geta komið miklar aurskriður úr hlíðunum og kaffært heilu hverfin. Ef ekki væri svo, byggi þarna vafalaust fólk í hærri þrepum þjóðfélagsins, en á það minntist Aníbal ekki.

Við vorum ekki ein á þakinu. Á bakvið stafla af múrsteinum og byggingaúrgangi lágu tvær hálfnaktar stúlkur í sólbaði. Þær höfðu mokað ruslinu til hliðar og breiddu makindalega úr sér á skrautlegu handklæði. Við höndina höfðu þær afskorinn plastbrúsa sem þær fylltu af vatni úr gömlu fiskikari. Þennan stutta tíma sem við dvöldum þarna stóðu þær oft upp og jusu vatninu yfir sig með nokkrum tilþrifum sem væntanlega voru ætluð ljósmyndaranum. Þarna var líka lagleg innfædd stúlka að hengja upp þvott. Henni var illa við myndavélina, faldi andlitið í höndunum og hló feimnislega. Aníbal leiðsögumaður horfði á hana dreymnum augum. Ástæðan fyrir því hvers vegna hann dró okkur inn í þetta hús var augljós.

"Á ekkert að klára húsið," spyr ég Aníbal, en hann leit á mig með sérkennilegum svip og spurði allt að því háðslega: "Er eitthvað að þessu?" "Hver á þetta hús," spurði ég aftur og svarið kom jafnsnubbótt og hið fyrra: "Eigandinn."

Við kvöddum stúlkurnar og Aníbal brunaði með okkur í bæinn í opnum eldgömlum jeppa. Hann er fæddur og uppalinn í þessu þorpi og að eigin sögn þekkir hann það eins og lófana á sér. Hann virðist líka vera á heimaslóðum og vel kynntur, því hvar sem við fórum veifaði fólk til okkar og kallaði eitthvað hlæjandi. Það gæti svo sem vel hafa verið háðsglósur til þessara bullsveittu, bleiku túrista, en Aníbal fullyrti að þetta væri eðlislæg glaðværð Brasilíubúa. "Fólkið er kátt, en þau eru alveg sérlega vinaleg við ykkur af því þið eruð með mér," sagði hann á sinn grallaralega hátt. "Við komum alltaf hreint fram, ólíkt öðrum þjóðum sem alltaf eru með einhvern leikaraskap. Dæmi: Ekki bjóða Brasilíubúa heim til þín nema hugur fylgi máli. Þú getur nefnilega verið viss um að hann kemur."

Hvert fátækt hreysi...

Aníbal segist stoltur af því að vera fæddur í hreysahverfi, enda sé hvergi betra að búa. "Hér eru allir svo hamingjusamir og stresslausir," segir hann. "Við erum laus við þá kvöð og áþján sem fylgir því að eiga of marga hluti. Þú ert þinn eigin herra og ræður tíma þínum sjálfur. Svo ég taki sjálfan mig sem dæmi, þá finnst mér miklu skemmtilegra að vera leiðsögumaður en vinna á skrifstofu. Þegar lítið er að gera við leiðsögn, þá ligg ég á ströndinni og skoða stelpurnar." Leiðsögumaður og ljósmyndari skiptust á skilningsríku augnaráði.

Fljótt á litið virðist vera nokkuð til í þessu hjá Aníbal. Fólkið í þessu favela - eins og innfæddir kalla hreysahverfin - virtist hamingjusamt og heilbrigt. Allir höfðu eitthvað fyrir stafni, s.s. að falbjóða varning eða snyrta í kringum sig.

Í flestum fátækrahverfum í Ríó ríkir einskonar ógnarjafnvægi. Þar er engin eiginleg lögregla því eiturlyfjabarónarnir hleypa henni ekki inn í hverfið. Þeir "eiga" hverfin og leyfa ekki glæpi, því það gæti gefið lögreglunni ástæðu til að koma. Yfirvöld líta framhjá þessari tilhögun og í orði kveðnu er haldið uppi lágmarks löggæslu. Lítil skonsa sem við ókum framhjá bar hið virðulega heiti "lögreglustöð", þótt enginn sæist lögregluþjónninn.

Við vorum komin niður í miðbæ. Þar kraumaði mannlífið. Víða á gangstéttum upp við knæpur sátu karlar komnir á virðulegan aldur og spiluðu dómínó. Þeir notuðu tunnur fyrir sæti en spilaborðið var úr besta harðviði. Þeir tóku stundum bakföll af hlátri og litu varla upp þó forvitnir túristar gægðust yfir öxlina á þeim.

Þarna var krökkt af örverslunum, en plássið sem hver búð fékk var oft ekki stærra en svo að einn maður gæti staðið þar inni. Kúnninn kíkti inn í holuna af götunni og svo var höndlað úti á gangstétt. Skipti engu máli hvort um var að ræða matvöru á fæti eða hátæknibúnað.

Hvorki heill né hálfur maður

Enn og aftur var blaðamaður minntur á þær miklu andstæður sem einkenna brasilískt samfélag. Í mannþrönginni miðri sat maður í rafknúnum hátæknihjólastól sem bókstaflega stirndi á. Hann var í drifhvítum sjúkrahúsklæðum með nál í handleggnum og þvagpoka hangandi utan á stólnum. Það var eins hann væri geimvera af annari plánetu og ætti ekki heima í þessu umhverfi. Þessi maður vakti sérstaklega athygli mína vegna þess að deginum áður hafði ég séð annan mann hjólastól í öðru og fínna umhverfi, og sá virtist heldur ekki eiga heima þar. Hann var að betla á götuhorni við Copacabana-ströndina, einu ríkasta hverfi Ríó, og ég sá hann ekki nema rétt í svip. En það var nóg til að sjá að inni í grútskítugum tötrunum var hálfur maður. Neðri part líkamans vantaði, hann var bundinn í stólinn, með höfuðið niðri á bringu og rétti út kræklótta, kaunum slegna höndina til að betla, en ruggaði stólnum með hinni. Það var ekki hægt annað en undrast hvernig yfirvöld gætu horft upp á slíka eymd án þess að aðhafast nokkuð. Í hugann skutust línur úr fallegu íslensku dægurlagi og því miður fékk það nýja og nöturlegri merkingu: "Mér finnst ég hvorki heill né hálfur maður / og heldur ósjálfbjarga því er ver." En Aníbal var óþreytandi við að benda á allt sem honum fannst vel fara í þorpinu sínu, en hafði færri orð um það sem augljóslega á skorti. Hann þóttist því hafa himin höndum tekið þegar við rákum augun í nokkur börn sem voru að æfa júdó undir handleiðslu kennara í snyrtilegu herbergi í einu öngstrætinu. Við gáfum okkur á tal við leiðbeinendurna og Aníbal túlkaði. Hann sagði að þessir júdótímar væru einskonar gulrót fyrir börnin; þau yrðu að mæta í skólann í tiltekinn tíma hvern vikan dag og sýna námsárangur til að öðlast rétt til að æfa júdóið. Júdókennararnir sögðu að þessi starfsemi gæti verið mikilvægur stökkpallur fyrir börnin til betra lífs. Markmiðið væri að veita þeim tækifæri til þess að læra fag eða iðn svo þau geti komið fótunum undir sig annars staðar, t.d. sem júdókennarar, en sú íþrótt er mjög vinsæl hjá ríka fólkinu í Brasilíu. Þó enginn nefndi það upphátt virtist það vera samróma álit að allt fyrir utan fátækrahverfið flokkaðist sem betra líf, enda virtist takmarkið hjá öllum vera að komast burt.

Á refilstigum

Leið okkar hélt áfram í gegnum miðbæinn og upp í húsasundin. Dimmar og brattar göturnar voru ekki breiðari en svo að einn maður gat með góðu móti komist um þær í einu og stæk hlandlykt barst úr hverju skoti. Enginn ætti að fara þangað einn síns liðs og þrátt fyrir að Aníbal væri með í för var heimsókn okkar ekki litin hýru auga. Í einu skúmaskotinu brást skuggalegur náungi illa við heimsókn okkar og sendi okkur dónalegan fingur og með látbragði sínu gerði hann okkur ljóst að nærveru okkar var ekki óskað. Væntanlega hefur honum fundist ljósmyndarinn of iðinn við vinnu sína, en kveikurinn að tilfinningum þessa blóðheita fólks, bæði til gleði og reiði, virtist vera stuttur. Aníbal brá skjótt við, dró okkur í burtu og ruddi upp úr sér afsökunarorðum á portúgölsku, og dugði það til þess að hnífurinn var slíðraður. Þetta atvik tók meira á Aníbal en okkur Íslendingana því þetta var ekki hluti af þeirri mynd sem hann hafði ætlað að draga upp og kynna. Hann tók þó fljótt kæti sína á ný og spurði hvort það væri ekki hræðilegt að búa á Íslandi í kulda og vosbúð. "Fyrsti veturinn hjá okkur í níu ár var í fyrra," tilkynnti hann. "Það varð alveg hræðilega kalt einn daginn, hitinn fór niður í 15 gráður. Ég hef aldrei upplifað annan eins kulda!" Hann hristi bara höfuðið þegar Íslendingarnir sögðu að 15 stiga hiti flokkaðist undir mildan sumardag á íslenskan mælikvarða. "Ég gæti aldrei lifað á slíkum stað," fullyrti hann, en setti sig svo í leikrænar stellingar og sagði: "Fólki finnst ég dálítið líkur Antonio Banderas, hvað finnst ykkur?" Þetta setti okkur í dálítinn vanda, því ekki vildum við særa Aníbal. En án þess að skrökva gátum við nefnt að þeir hefðu svipað litaraft og svo byrjuðu nöfnin þeirra bæði á A. Aníbal jánkaði þessu alvarlegur í bragði, en ef vel var að gætt þá virtist hann hafa gaman af því að setja viðskiptavini sína í svona vandræðalega stöðu. Ef kroppað var aðeins í galgopalegt yfirborðið á persónunni Aníbal, sást glitta í athugulan og alvarlegan mann.

Í dulargervi?

Degi var tekið að halla og tími til að halda heim á lúxushótelið sem Ingólfur Guðbrandsson hafði úthlutað okkur við Copacabana-ströndina. Það má segja að hvergi hafi andstæðurnar í Brasilíu endurspeglast betur en þegar híbýlin í hreysahverfinu og strandhverfinu voru borin saman.

Aníbal brunaði með okkur heim á leið en eftir dágóðan spöl stöðvaði hann bílinn og sagði að við yrðum að taka dótið okkar og ganga restina heim, því bíllinn væri bilaður. Þetta kom okkur ekkert á óvart því á Íslandi hefði þessi bíll verið kominn á forngripasafn. Allur galgopaháttur var nú af Aníbal og hann baðst innilega afsökunar á þessum óþægindum. Við gerðum sem minnst úr þessu, enda var spölurinn stuttur sem eftir var. Við kvöddum og þökkuðum honum samfylgdina. Hann kvaddi okkur einnig, en í því er við lögðum af stað kallaði hann á eftir okkur, kominn í gamla grallarahaminn: "Hey, krakkar, hvernig var ég?" Við glottum út í annað, því þessi frasi hefur orð á sér fyrir að vera borinn upp við aðrar kringumstæður, en við réttum samt upp báða þumla. "Ég ætla að segja strákunum á lögfræðistofunni minni að ég hafi staðið mig vel sem leiðsögumaður," sagði Aníbal og kvaddi okkur skellihlæjandi.

lauga@mbl.is