Lada 111 Grand Tour heitir langbakurinn fullu nafni.
Lada 111 Grand Tour heitir langbakurinn fullu nafni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LADA-umboðið í Reykjavík býður nú Lada-fólksbíla auk Lada Sport jeppans sem kynntur var á dögunum hér í blaðinu.

LADA-umboðið í Reykjavík býður nú Lada-fólksbíla auk Lada Sport jeppans sem kynntur var á dögunum hér í blaðinu. Fólksbíllinn er bæði til sem stallbakur og langbakur og er verðið allgott eins og þessi bílategund er þekkt fyrir eða 850 þúsund krónur og 890 þúsund. Tekið var í langbakinn fyrir stuttu.

Lada-fólksbílarnir eru nefndir annars vegar 110 Family, sem er stallbakurinn, og hins vegar 111 Grand Tour en það er nafnið á langbaksútgáfunni. Ekki er unnt að segja að langbakurinn sé sérlega laglegur bíll þar sem hann er eiginlega einum of sléttur og felldur. Þannig virkar bíllinn fremur síður og kannski dálítið sleðalegur þegar litið er á hliðar hans. Að öðru leyti er Lada Grand Tour nokkuð snyrtilegur og varðandi útlitið mætti helst óska sér að gluggarnir væru stærri. Það myndi strax bæta útlitið.

Þokkalegur að innan

Að innan er Lada-langbakurinn þokkalegur. Sætin eru stíf og bera vel ökumann og farþega en þau eru einföld í sniðum og með hefðbundnum stillingum. Plássið er þokkalega gott í aftursætum en ekkert meira en það.

Báðar gerðir Lada-fólksbílanna eru boðnar með sömu vélinni, 1,5 lítra fjölventlavél, sem er 79 hestöfl. Togið er 118 Nm við 3.000 snúninga. Hámarkshraðinn er gefinn upp 170 km á klst. og það tekur bílinn 14 sekúndur að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu samkvæmt upplýsingum framleiðanda.

Í langbaknum sem var prófaður er vélin óþarflega hávær. Á það við í flestum aðstæðum en þó er gangurinn þýðastur og hljóðlátastur á jöfnum hraða á þjóðvegi.

Lada 111 fær kannski ekki sérstakan vinning fyrir snöggt viðbragð en það er þó fyllilega viðunandi og vinnslan er kannski öflugri en ætla mætti. Tæplega 80 hestöfl fara langt með að gera rúmlega eins tonna bílinn þokkalega góðan í innanbæjarakstrinum en þegar farið er út á þjóðvegi væri mun skemmtilegra að hafa úr meiri orku að spila.

Góð fjöðrun

Skiptingin mætti vera liðugri en fjöðrun bílsins er það sem kemur á óvart og má segja að hann fari vel á grófustu vegum. Að því leyti er Lada-fólksbíllinn nokkuð álitilegur til ferða út um land ef horft er frá aflinu, sem mætti vera heldur meira. Það á kannski hins vegar ekki að ráða neinum úrslitum þegar bíll er valinn og trúlega hefur verðið hér eitthvað að segja.

Meðal staðalbúnaðar í Lada 111 eru rafdrifnar rúður og samlæsingar og hægt er einnig að opna afturhlerann innan frá. Miðstöðin er með sjálfvirkun hitastilli og er það skemmtilegur kostur. Þá er hæð höfuðpúða stillanleg og stilla má einnig hæð aðalljósa. Aftursætið má fella niður, allt eða hluta þess til að drýgja plássið og hlíf er yfir farangursrými.

Verðið aðalkosturinn

Verðið er aðalkosturinn við Lada-bílana og á það ekki síður við um fólksbílinn en Lada Sport, sem áfram er boðinn á 990.000 króna tilboðsverði. Lada 111 kostar 890 þúsnd krónur og 110 stallbakurinn 850 þúsund. Fyrir þetta er í boði allrúmgóður bíll með allt sem nauðsynlegt er til að komast frá einum stað til annars með sjálfan sig og ýmislegt sem fylgt getur.

Lada er hins vegar ekki nógu skemmtilegur í akstri en ítreka má að hann stendur fyrir sínu á þessu verði. Fyrir þá sem vilja hins vegar bíl með skemmtilega aksturseiginleika er ýmislegt annað í boði og þarf þá líka að greiða heldur meira fyrir það.

Þess má að lokum geta að Lada-umboðið nýja hefur fengið til liðs við sig bílasölur á nokkrum stöðum á landinu: Í Vestmannaeyjum Bifreiðaverkstæði Muggs, Bílasölu Reykjaness í Keflavík, Bílasöluna Ós á Akureyri, Ásinn á Egilsstöðum, Betri bílasöluna á Selfossi og Bíla- og búvélaverkstæðið á Hvammstanga.

jt