Áhugi á stjórnmálaflokkum þarf ekki að fara saman við að finnast stjórnmálaflokkar áhugaverðir, segir Sveinbjörn I. Baldvinsson, og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé vegna þess að þeir séu málsvarar svo margra skoðana að heildarstefnuskrá þeirra verði eitthvert moð.

Ég hef alla tíð haft lúmskan áhuga á stjórnmálum, en aldrei fundist neitt áhugavert við stjórnmálaflokka. Líklega er það vegna þess að þeir eru, hver um sig, málsvarar svo margra skoðana að heildarstefnuskrá þeirra allra verður eitthvert moð, þar sem maður er hjartanlega sammála sumu, en algerlega á móti öðru. Útkoman sem sagt hálfgerð leiðindi.

Því var spáð fyrir löngu að stjórnmálaflokkar eins og við þekkjum þá myndu líða undir lok með auknum möguleikum einstaklinga til að tjá skoðanir sínar og vinna þeim fylgi og hefur einatt verið vitnað til veraldarvefsins margrómaða í þessu sambandi. Spá þessi, sem í sumum tilfellum var kennd við stjórnleysi, gerði ráð fyrir því að í stað hefðbundinna stjórnmálaflokka, yrðu í vaxandi mæli til hreyfingar eða hópar í kringum ákveðin, afmörkuð málefni og hagsmuni og það yrðu þess háttar fylkingar einstaklinga sem myndu móta þróun samfélagsins í framtíðinni, fremur en flokkar með fjölþætta og lítt heilsteypta stefnuskrá sem nær til allra málefna líðandi stundar.

Þessi spá höfðaði mjög til mín. Ég taldi hana skynsamlega og fannst þetta ágæt framtíðarsýn. Vissulega má líka færa rök fyrir því að þessi þróun hafi að vissu marki átt sér stað. Hér á landi er Kvennalistinn dæmi um hreyfingu af þessum toga og eins hugmyndir eldri borgara um eigið framboð. En það er sem kunnugt er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og hingað til hafa hreyfingar af þessu tagi annaðhvort breyst í hefðbundna stjórnmálaflokka eða villst inn undir verndarvæng þeirra. Gömlu flokkarnir hafa líka verið duglegir að grípa tilfallandi skoðanagæsir af þessu tagi og gera að sínum, enda munar þar lítið um eina skoðun í viðbót í safnið sem fyrir er. Svo hafa ímyndarfræðingar og kynningarmeistarar lagt gjörva hönd á plóg við að halda viðeigandi slagorðum á loft gagnvart hverjum markhópi fyrir sig, fyrir kosningar, einatt með bullandi góðum árangri.

Að vísu hefur það svo jafnan gerst að mörg hinna snjöllu og aflasælu slagorða flokkanna um tiltekin mál hafa máðst út eða skolast til á undraskömmum tíma eftir kosningar, ef þeir hafa náð völdum. En þá er of seint að gera neitt. Atkvæðið sem greitt var á einum forsendum hefur breyst í tæki til að framkvæma eitthvað allt annað. Flokkurinn sem atkvæðið hlaut er búinn að blanda sínu skoðanamoði saman við annað moð frá öðrum flokki og nú er ekkert annað að gera en að bíða í fjögur ár og reyna að farast ekki úr leiðindum á meðan.

Svo koma skoðanakannanirnar um fylgi flokkanna. Þar gefst fyrrverandi háttvirtum kjósendum, en nú nafnlausum tölum í slembiúrtökum, tækifæri til að tjá hug sinn. Þar kemur sjaldnast margt á óvart.

Flestir eru þeir sem annaðhvort telja sig þegar tilheyra þeim sem eru ofaná í lífinu eða vera í þann veginn að ná því takmarki og vilja því óbreytt ástand. Þeir styðja Sjálfstæðisflokkinn. Ef hann væri vörutegund væri sagt að hann væri voða mikið tekinn og kaupandinn því öruggur um að verða ekki að athlægi með hann í körfunni.

Svo eru þeir sem hafa efasemdir um að fjölgun auðmanna sé besta leiðin til að efla þjóðarhag, en eru um leið afskaplega meðvitaðir um það, að orðið "sósíalismi" hefur á sér 8. áratugs blæ, eins og Led Zeppelin, en er samt ekki nærri eins "kúl". Þeir segjast styðja Samfylkinguna og taka sénsinn á að Ingibjörg Sólrún muni loksins mæta og gefa henni einhvern karakter.

Þeir sem una sér best þegar þeir eru á móti einhverju, næstum hverju sem er, og hvetja ávallt heimamanninn sem kallar utan úr sal, þegar gestirnir að sunnan mæta í félagsheimilið, hvort sem þeir eru verktakar, pólitíkusar eða prófessorar, segjast munu kjósa Vinstri græna.

Þeir sem líta á stjórnmálaflokka sem hyglingaklúbba en telja sig ekki eiga séns í Sjálfstæðisflokknum, halda sig við Framsókn, flokk sem er eins og búinn til fyrir hvern þann sem vill vera það sem á þrjú-bíó-máli kallast "besti vinur aðal".

Það kemur gjarnan í ljós í þessum skoðanakönnunum að flokkurinn sem sigraði í slagorðafiskiríinu fyrir kosningar, missir aflann. En það gerir auðvitað ekkert til og skiptir engu máli, því atkvæðin í kjörkössunum eru einu sannindin sem skipta máli í stjórnmálum. Að svo miklu leyti sem sannindi skipta máli í stjórnmálum.