[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ákveðið hefur verið að styrkja fjóra framúrskarandi nýnema með 400 þúsund króna styrk og niðurfellingu skólagjalda við Háskólann í Reykjavík í haust. Aðrir sex nýnemar verða styrktir með niðurfellingu skólagjalda og að auki verða tveir nemar á öðru og þriðja ári styrktir með fjárstyrk og niðurfellingu skólagjalda. Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor kynnti Kristínu Gunnarsdóttur skólastarfið og þær nýjungar sem í boði eru.

MIKIL uppbygging hefur átt sér stað í rekstri Háskólans í Reykjavík," sagði Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor skólans. "Þessi uppbygging gerir það að verkum að við erum nú tilbúin að taka á móti bestu nemendum í hverjum árgangi. Við viljum laða að góða og hæfa nemendur og vera með bestu kennarana. Hingað til höfum við fengið til liðs við okkur frábæra einstaklinga. Það er ekki síst náið og krefjandi samstarf nemenda og kennara sem gerir deildir skólans fremstar í sinni röð. Við erum farin að leiða hugann að nýjum deildum sem taka munu til starfa haustið 2002 og verða þær kynntar sérstaklega í haust. Auk þess verður boðið upp á aukið fjarnám."

Nýbygging

Háskólinn í Reykjavík tók til starfa árið 1998 og hefur því starfað í tvö ár og sjö mánuði. Næsta haust verður tekin í notkun ný viðbygging við skólann og mun húsnæðið þá tvöfaldast og verða átta þúsund fermetrar. Nemendum mun fjölga og verða þeir um 750 en þeir voru rúmlega 300 á fyrstu önninni.

"Við stóðum vel að vígi í upphafi því við fengum í vöggugjöf deild, sem áður hét Tölvuháskóli Verzlunarskóla Íslands," sagði Guðfinna. "Deildin varð tölvunarfræðideild HR. Áður var þetta tveggja ára kerfisfræðinám, en nú útskrifuðum við síðastliðið vor í fyrsta sinn nemendur með BS-gráðu í tölvunarfræði. Í vor er áætlað að um 80 kerfisfræðingar og 40 BS-nemar útskrifist frá tölvunarfræðideild HR. Þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir fólki með þessa menntun hefur Háskóli Íslands einungis útskrifað 23 BS-tölvunarfræðinga að meðaltali á ári síðastliðin 10 ár. Framleiðnin hefur því verið lítil en við viljum bæta gæði námsins og auka framleiðni. Við Íslendingar þurfum að hugsa meira um framleiðni en við gerum. Við viljum útskrifa fleiri með BS-gráðu í tölvunarfræði. Einstaklinga sem eru sterkir fræðilega en eru jafnframt góðir fagmenn. Ég trúi því að skilyrði fyrir búsetu hér á landi, hagvexti, lífsskilyrðum og menningu byggist á góðri menntun. Í því sambandi skiptir framleiðni í menntamálum einnig miklu máli."

Bandamenn

Skólinn hefur fengið sex fyrirtæki til liðs við sig, Bandamenn, sem munu leggja til fjármagn auk aðstoðar við að efla enn frekar rannsóknir og kennslu við skólann. Fyrirtækin sem mynda bandamannahópinn eru Íslandssími, Íslandsbanki FBA, Baugur, Opin kerfi hf. (í samvinnu við Teymi og Skýrr), Íslensk erfðagreining og Eimskip. "Fyrirtækin sex koma hvert úr sínum geira í atvinnulífinu og munu þau styrkja okkur með samtals 70 milljóna króna framlagi til ársins 2002. Í Bandamannaverkefninu felst að bandamenn fá aðgang að verkefnum nemenda og sérstakir bandamannadagar verða árlegur viðburður í HR. Einnig felur samningurinn í sér endurmenntun fyrir starfsmenn bandamannafyrirtækjanna. Framlag bandamanna til skólans gerir okkur kleift að efla deildir skólans og þróa og jafnframt gera okkur samkeppnishæfari. Ég vil geta greitt kennurunum há laun. Það skiptir miklu máli og ég vil að við getum stundað rannsóknir. Við höfum komið upp rannsóknarmiðstöð innan skólans en það er nýmæli. Við höfum sagt að háskóli væri ekki háskóli nema þar væru stundaðar rannsóknir. Þetta er mikill styrkur fyrir skólann að fá svona öfluga liðsmenn."

Leiðarljós

Grunninn að hugmyndafræðinni sem skólinn byggist á hefur Guðfinna m.a. sótt til Bandaríkjanna, þar sem hún var í námi og starfi um nokkurra ára skeið. Sjálfseignarstofnun Verslunarráðs Íslands um verslunarmenntun, SVÍV, setur HR skipulagsskrá. Verslunarráð Íslands er bakhjarlinn. "Í skipulagsskrá skólans kemur fram að hlutverk skólans sé að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs," sagði Guðfinna. "Við höfum alltaf tekið það hlutverk alvarlega. Strax voru sett fram þrjú leiðarljós fyrir skólann, sem eru nýsköpun en í því felst að við viljum kenna nemendum okkar nýsköpun og vera í sífelldri endurnýjun og nýsköpun í skólastarfinu. Annað er tölvu- og tækniþróun og að fylgjast vel með á því sviði og vera helst á undan öðrum bæði í kennslu og í starfsemi skólans. Síðasta er alþjóðavæðing en í því felst að sækja hugmyndir til útlanda og hafa samstarf við erlenda háskóla og menntastofnanir. Einnig að kenna nemendum okkar að fóta sig í hinum síbreytilega og alþjóðavædda heimi sem verður starfsvettvangur framsækinna Íslendinga á næstu áratugum."

Valið úr umsóknum

Á vorin er auglýst eftir umsóknum um skólavist og hafa borist allt að þrisvar sinnum fleiri umsóknir en sá fjöldi nemenda sem hægt er að taka við. Skólinn getur því valið úr nemendum og er almennt miðað við frammistöðu á stúdentsprófi auk annarra viðmiða. Sagði Guðfinna að eftir að nemendur hefðu fengið skólavist væri brýnt fyrir þeim að hver og einn væri sinnar gæfu smiður. Þau yrðu að leggja mikið af mörkum, nýta tímann eins vel og þau gætu og jafnframt að skólinn væri reiðubúinn til að aðstoða þau við að byggja sterkar stoðir fyrir framtíðina. Menntun væri besta fjárfestingin sem þau gætu valið.

Skólinn gerir þjónustusamning við menntamálaráðuneytið eins og aðrir skólar en að auki greiða nemendur skólagjöld, sem hafa verið 69 þús. á önn en verða 79 þús. á næsta ári. Fyrir MBA-nám greiða nemendur 1,5 milljónir.

Góður starfsandi

Guðfinna leggur áherslu á að starfsandi meðal kennara og nemenda sé sérlega góður. "Við gerum ansi miklar kröfur til nýnema og þeim er veitt gott aðhald og þeir fá góða þjónustu," sagði hún. "Mér finnst skipta máli að tekið sé á móti þeim sem einstaklingum og manneskjum. Þau eiga ekki að koma í kaldan skóla heldur í umhverfi, þar sem þau fá að þroskast og vinna með félögum sínum í hópvinnu, sem við leggjum mikið upp úr. Aðstaðan er mjög góð og andinn góður. Nemandinn finnur að við viljum að hann standi sig, nái þessu og verði sterkur. Við segjum að verið sé að byggja tvær sterkar stoðir undir framtíðina. Önnur stoðin er fræðileg og gerir nemendur að öflugum greinendum. Hin er hagnýt, sem gerir þeim mögulegt að nýta sér fræðin í verkefni og vinnu þannig að þau óttist ekki að takast á við flókin verkefni. Það er mikli vinna sem lögð er á nemendur og þeir eru mikið í skólanum. Að launum geta þeir átt spennandi framtíðarmöguleika."

Strax á fyrstu önn fá nemendur í tölvunarfræði að spreyta sig á hugbúnaðargerð. Námið miðast við að setja þau á fyrstu vikunum inn í fræðin. Nemendur vinna saman í hópum og er valið í þá eftir getu hvers og eins. "Við byggjum námið þannig upp að þau fá strax að vinna verkefni á tölvunum þannig að samhengi milli námsgreina verður ljósara og skilningur betri," sagði Guðfinna. "Þegar líður á námið þyngist það og kröfur verða sífellt meiri. Þegar þau svo ljúka BS-prófi eru þau sannanlega búin að spreyta sig."

Fyrirmyndin að uppbyggingu námsins er sótt til ACM (Association for Computing Machinery) sem er bandarískt fyrirtæki og svarar til Skýrslutæknifélags Íslands en fyrirtækið hefur unnið að greiningu á þeim þáttum sem kenna beri til BS-náms í tölvunarfræði.

"Sú vinna hefur staðið yfir í mörg ár og skólar í Bandríkjunum auk annarra skóla víða um heim sækja í þessa fyrirmynd," sagði Guðfinna. "Kennarar frá okkur hafa farið á ráðstefnur hjá þeim og nýtum við þeirra viðmið í uppbyggingu námsins og reynum að gera betur. Ég er mjög stolt af tölvunarfræðideildinni, bæði faglega og fræðilega, og af starfsfólkinu. Þetta er góður hópur og andinn er góður."

Leiðtogar í viðskiptalífinu

Þegar skólinn tók til starfa var stofnuð viðskiptadeild og hefur henni verið stýrt á svipaðan hátt og tölvunarfræðideildinni. "Við erum alltaf að kenna fræðin og samþætta námsgreinar með flóknum verkefnum," sagði Guðfinna. "Á fyrsta ári þegar nemendur hafa lært fjárhaldsbókhald, markaðsfræði, stjórnun og fjármál og nokkur undirstöðufög spreyta þeir sig á að búa til fullkomna viðskiptaáætlun. Það er námskeið sem við höfum sótt í smiðju til Íra, sem hafa verið framarlega í nýsköpunarfræðum. Þetta er nýsköpunarnámskeið og fjallar um hvernig nemendur samþætta öll námskeið fyrsta námsársins og fullvinna viðskiptaáætlun. Við höfum fengið leiðtoga í viðskiptalífinu til liðs við okkur sem þjálfara. Nemendur fara til þeirra með sínar hugmyndir og þeir segja til um hvernig þeim lýst á. Það eru dæmi um að þeim hefur ekki litist á blikuna í fyrstu en eftir frekari vinnu nemenda hefur þjálfarinn dæmt hana hæfa. Þessi deild hefur farið langt fram úr mínum vonum."

Í samvinnu við níu háskóla

Um síðustu áramót var tekið upp MBA-nám við Háskólann í Reykjavík og sagði Guðfinna að námið væri unnið í samvinnu við níu erlenda háskóla í Evrópu og í Ameríku og hafa Erasmus-háskólinn og Verslunarháskólinn í Kaupmannahöfn lýst miklum áhuga á frekari samvinnu við uppbyggingu náms á meistarastigi.

"Við sækjum þekkingu þangað sem hún er í stað þess að endurhanna hjólið," sagði hún. "Það sem mér finnst merkilegt er að tveggja ára gamall skóli, eins og okkar, skuli vera kominn í samstarf við Kölnarháskóla sem stofnaður var fyrir 600 árum. Við erum að vinna og þróa þetta nám með þessum skólum. Þannig hefur einn af okkar kennurum, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, tekið að sér að þróa stjórnendanámskeið sem kennt verður í samstarfsháskólum okkar erlendis. Það er okkar framlag. Við erum því að flytja út þekkingu. Við getum ekki einangrað okkur. Við verðum að sækja út og vinna með fræðimönnum um allan heim. Það er hluti alþjóðavæðingarinnar."

Unnið með fyrirtækjum og stofnunum

Þriðja deild skólans er símennt og sagði Guðfinna að hún væri þegar orðin öflug. Tekið hefur verið upp samstarf við erlenda háskóla og hafa meðal annars komið hingað prófessorar við Harvard til starfa á vegum deildarinnar. "Símennt hefur byggst á kennslufræðilegri nálgun með fyrirtækjum og boðið þeim lengri tíma sérsniðnar lausnir og nám, sem þróað er í samvinnu við þau," sagði hún. Gerðir hafa verið samvinnusamningar við fjölda fyrirtækja svo sem Íslandsbanka, Marel, Toyota og sparisjóðina auk þess sem unnið hefur verið með Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar og skólastjórum grunnskólanna. "Við tökum að okkur þjónustusamninga og byggjum markvisst upp þeirra nám," sagði Guðfinna. "Fyrirtækin skynja eins og við að mannauðurinn er það sem skiptir máli. Ég er mjög stolt af þessari deild sem tók til starfa í byrjun ágúst 1999. Þessi deild sér einnig um auðarverkefnið sem er mikið og skemmtilegt. Þar er því mikið að gerast."

Símenntun hefur þegar teygt sig út fyrir landsteinana en á hennar vegum var haldið námskeið í rafrænum viðskiptum í samvinnu við IESE í Barselóna. Námskeiðið sóttu nemendur frá 15 þjóðlöndum og sagði Guðfinna að gaman hefði verið að taka á móti þeim.

Skólinn býður einng nemendum að stunda fjarnám í tölvunarfræði. Fjarnámstæknin var þróuð með rannsóknarstyrk frá LEONARDO og stunda 80 nemendur nú fjarnám við skólann.

"Í raun og veru hef ég allt frá byrjun séð fyrir mér að Reykjavík á að verða þekkt sem fræðaborg, borg mennta og menningar," sagði Guðfinna. "Einn drauma minna, sem ef til vill er fjarlægur, er að fá útflutningsverðlaun. Þar á ég við að við munum flytja út nám. Vera má að það taki langan tíma en við erum þegar farin að byggja upp grundvöll að fjarnámi. Til þess að þetta takist verðum við að styrkja okkar menntun en hugsaðu þér hvað það væri gaman ef Reykjavík yrði þekkt sem menningar- og menntaborg. Þetta er minn æðsti draumur. Við höfum alla möguleika í hendi okkar. Við erum lítil og saklaus þjóð, við erum Norðurlandabúar og evrópsk, við erum mennta- og menningarland, við stöndum framarlega á tæknisviðinu og við höfum ekki staðið í neinum útistöðum við aðrar þjóðir. Við höfum því meðbyr. Ísland er í tísku og við eigum að nýta okkur það."