Christine Todd Whitman, yfirmaður bandarísku umhverfisverndarstofunnar, EPA, kemur til fundar við umhverfisráðherra G-8 í Trieste.
Christine Todd Whitman, yfirmaður bandarísku umhverfisverndarstofunnar, EPA, kemur til fundar við umhverfisráðherra G-8 í Trieste.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að hverfa frá fyrirheitum um að staðfesta Kyoto-bókunina um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda kom evrópskum embættismönnum á óvart. Skammt var um liðið síðan yfirmaður bandarísku umhverfisverndarstofunnar, Christine Todd Whitman, hafði fullvissað þá um að Bandaríkjaforseti væri fylgjandi takmörkunum á slíka losun. En Whitman hafði verið í góðri trú, og reitt sig á kosningaloforð sem Bush hafði gefið.

BANDARÍSKA forsætisembættið leitaði fyrir skömmu ráða hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu um það hvernig hægt væri að draga til baka á löglegan hátt undirskrift Bandaríkjanna á tímamótasamningi frá 1997 um hitnun andrúmsloftsins. Gáfu Bandaríkjamenn með þessu í skyn að þeir hyggðust hætta að vera með, þrátt fyrir tilraunir evrópskra og japanskra ráðamanna til að halda lífi í samkomulaginu.

Sáttmálinn um hækkun hita í andrúmsloftinu náðist og var undirritaður í Kyoto í Japan og var þetta í fyrsta sinn sem iðnríki heims skuldbundu sig til samdráttar í losun lofttegunda sem valda því að hitastig í andrúmsloftinu hækkar. Vísindamenn telja að þessi hækkun geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir loftslag jarðar. Samkvæmt skilmálum Kyoto-sáttmálans - sem oft er nefndur Kyoto-bókunin - ber Bandaríkjamönnum að draga úr losun koltvísýrings, metans og öðrum, tilteknum mengandi lofttegundum, um sjö prósent til ársins 2010, miðað við losunina eins og hún var 1990.

En bandaríska þingið hefur neitað að staðfesta sáttmálann, og 13. mars skrifaði George W. Bush forseti bréf til fjögurra íhaldssamra öldungadeildarþingmanna og sagðist vera andvígur samningnum vegna þess að þróunarríki væru undanþegin ákvæðum hans og hann myndi hafa skaðleg áhrif á efnahagslífið í Bandaríkjunum.

Framkvæmdastjóri bandarísku umhverfisverndarstofunnar (EPA), Christine Todd Whitman, sagði fréttamönnum í síðustu viku að Kyoto-bókunin væri "einskis virði" hvað ríkisstjórnina varðaði, og ef Evrópumenn og Japanir vildu ná samkomulagi yrðu þeir að hverfa frá þeim útlínum sem dregnar væru í sáttmálanum og byrja upp á nýtt.

"Nei, við höfum engan áhuga á þessum sáttmála," sagði Whitman. "Ef það er almennt álitið að við þurfum að takast á við breytingar í andrúmsloftinu [þá er spurningin sú] hvernig gerum við það með þeim hætti að árangur náist í staðinn fyrir að eyða tímanum í skuldbindingar sem aldrei munu verða að neinu."

Í þar síðustu viku sendu leiðtogar Evrópusambandsins bréf til Bush og sögðu að Bandaríkin og Evrópa þyrftu "nauðsynlega" að halda viðræður í framhaldi af misheppnuðum tilraunum í Haag á síðasta ári til að komast að málamiðlun um sáttmála um gróðurhúsaáhrifin. Whitman gaf lengi vel ádrátt um að Bandaríkin kynnu að reyna að ná samkomulagi í sumar, þrátt fyrir andstöðu Bush við Kyoto-bókunina.

Í ljósi bréfanna sem Bush sendi 13. mars hafði embættismaður í Hvíta húsinu samband við bandaríska utanríkisráðuneytið til þess að forvitnast um hvað stjórnin þyrfti að gera til að láta í ljósi að hún myndi ekki skrifa undir Kyoto-samkomulagið, að sögn heimildamanns sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Þau svör fengust, að stjórnin gæti dregið samþykki sitt til baka með því að láta Colin Powell utanríkisráðherra skrifa bréf til Sameinuðu þjóðanna þar sem gerð væri grein fyrir því að Bandaríkin hefðu ekki í hyggju að samþykkja sáttmálann, að sögn þessa heimildamanns.

Að sögn annars heimildamanns, sem er hátt settur embættismaður í utanríkisráðuneytinu, var ráðuneytið beðið um að veita aðstoð við að setja kúrsinn í endurskoðun á Kyoto-sáttmálanum. En embættismaðurinn neitaði því að forsetaembættið hefði verið að leita leiða til að ógilda samþykki sitt við sáttmálanum.

Minnisblað frá Whitman

Viku áður en Bush ákvað að reyna ekki að setja takmörk við losun koltvísýrings sendi Whitman honum minnisblað og varaði hann við því að hann yrði að sýna fram á að hann væri fastráðinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, því ella ætti hann á hættu að veikja stöðu Bandaríkjanna meðal bandamanna sinna.

"Herra forseti, þetta mál varðar trúverðugleika Bandaríkjanna meðal alþjóðasamfélagsins. Þetta er ennfremur málefni sem mikil umræða er um hér heimafyrir," skrifaði Whitman í minnisblaðinu 6. mars. "Það er nauðsynlegt að við virðumst vera að sinna málinu."

Þegar Whitman skrifaði forsetanum var hún nýkomin frá fundi umhverfismálaráðherra G-8-ríkjahópsins í Trieste á Ítalíu. Hún sagði ennfremur um afstöðu alþjóðasamfélagsins til gróðurhúsaáhrifanna:

"Alþjóðasamfélagið (ESB; regnhlífarhópur er samanstendur af Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan, Noregi, Íslandi, Rússlandi, Úkraínu og Kazakstan (sem áheyranda); og G-77 eða þróunarlöndunum) er sannfært um að þetta sé alvarlegt mál og að nauðsynlegt sé að tekist sé á við það nú þegar.

Kyoto-bókunin er að þeirra mati eina færa leiðin. Alþjóðasamfélagið óttast alvarlega að ef Bandaríkin vilja ekki ræða málið innan ramma Kyoto verði ekki neitt úr neinu. Þeim finnst að þeir geti nálgast markmið sín einir síns liðs, en þyrftu á Bandaríkjunum að halda til að ná virkilegum árangri."

Þá sagði Whitman ennfremur í minnisblaðinu til forsetans: "Eins og þú sérð af meðfylgjandi úrklippum gekk mér upp og ofan að kaupa okkur tíma til að taka fullan þátt í þessum umræðum. Frá pólitísku sjónarmiði tel ég að við séum í aðstöðu til að tryggja okkur velvild án þess að taka undir tiltekin atriði í Kyoto. Það er ekki búist við miklu af þessari stjórn.

Ég myndi leggja eindregið til að þú haldir áfram að viðurkenna að hitnun í andrúmsloftinu sé svo sannarlega alvarlegt mál," skrifaði Whitman forsetanum.

Andstaða í Evrópu

Ákvörðun Bush vakti hörð viðbrögð í Evrópu. Þar hafa flokkar græningja sífellt meiri áhrif og óvild í garð Bandaríkjanna, vegna tregðu þeirra við að taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum til að vinna gegn auknum gróðurhúsaáhrifum, fer vaxandi.

"Þetta bréf var eins og köld vatnsgusa framan í Evrópusambandið," sagði Kalee Kreider, hjá Bandaríska umhverfissjóðnum, um bréfið sem Bush sendi öldungardeildarþingmönnunum. "Þetta bréf hljómar eins og þeir vilji skerast úr leik."

Margir bandamanna Bandaríkjanna í Evrópu hafa óttast að ríkisstjórn Bush myndi freistast til að draga lappirnar er kæmi að andrúmsloftshitunarmálum. En evrópskir embættismenn sögðu að það hefði komið þeim þægilega á óvart þegar Whitman hefði sagt þeim í Trieste að Bush hyggðist setja strangar reglur um hvernig ná ætti markmiðum um minni losun.

"Hún sagði skýrt og skorinort að bandarísk stjórnvöld gerðu sér grein fyrir vandanum og hefðu í hyggju að láta til sín taka," sagði háttsettur embættismaður hjá Evrópusambandinu. "Við héldum öll að þetta vissi á gott fyrir næstu umferð samningaviðræðnanna og að við myndum í rauninni eiga möguleika á að ná samkomulagi um það hvernig Kyoto yrði að veruleika." Þessi næsta umferð samningaviðræðna á að fara fram í Bonn í Þýskalandi í júní.

Þrýst á Bush

Breytingin á afstöðu Bush varð í kjölfar þess að fjórir þingmenn
repúblíkana, undir forystu öldungadeildarþingmannanna Chucks Hagels (frá Nebraska) og Larrys E. Craigs (frá Idaho), auk hagsmunaaðila í kola- og olíuiðnaði, beittu forsetann þrýstingi.

Fulltrúar þessara greina héldu því fram að tilraunir til að draga úr koltvísýringslosun myndu verða bandarísku efnahagslífi dýrkeyptar og ganga þvert á fyrirætlanir stjórnar Bush um að auka innlenda orkuframleiðslu.

"Stjórnin áttaði sig á því að það var nauðsynlegt að taka af allan vafa vegna mótsagna í kosningabaráttuplaggi" sem kvað á um að orkuframleiðsla skyldi aukin en á sama tíma skyldi dregið úr losun koltvísýrings, að sögn Glenns F. Kellys, framkvæmdastjóra samtaka olíu- og kolaframleiðenda.

Fjöldi sérfræðinga er á einu máli um að ákvörðun Bush um að hverfa frá Kyoto-bókuninni hafi grafið undan tilraunum Whitmans undanfarinn mánuð til að tryggja sér forystuhlutverkið í komandi viðræðum við evrópska leiðtoga vegna andrúmsloftsmálefna.

Whitman hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um ákvörðun forsetans. Starfsfólk hjá umhverfisverndarstofunni segir, að þegar Whitman hafi fullvissað umhverfisráðherra G-8 um stuðning Bush við takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda hafi hún reitt sig á yfirlýsingar sem Bush gaf í kosningabaráttunni. "Hún hélt að [kosningaloforð forsetans um að draga úr koltvísýringslosun] væri góður öngull fyrir ferðina til Trieste," sagði ónefndur starfsmaður EPA.