Hjá Íslendingafélögunum hérna í henni Ameríku hafa þorrablótin jafnan verið veigamestu samkomur ársins, og þannig hefir það líka verið síðustu tvo áratugina hérna í sólarríkinu.

Hjá Íslendingafélögunum hérna í henni Ameríku hafa þorrablótin jafnan verið veigamestu samkomur ársins, og þannig hefir það líka verið síðustu tvo áratugina hérna í sólarríkinu. Byrjað var að halda þorrablótin í stórborgunum fyrir norðan, og vitum við fyrir víst, að fyrsta þorrablótið í Chicago var haldið 1960. En "landnám" Íslendinga í Flórída hófst ekki fyrir alvöru fyrr en á áttunda tugnum svo við vorum nokkuð aftarlega á merinni til að byrja með, þótt við næðum okkur vel á strik seinna.

Fyrsta þorrablótið, sem við fórum á í Flórída, var haldið um 1980 á Orlandó-svæðinu. Saman voru komnir um 50 landar og kanar, heima hjá formanni Íslendingafélagsins, og var þetta blót hið ánægjulegasta í alla staði. Einhvern veginn hafði tekist að útvega þorramat frá Fróni og félagskonur settu upp myndarlegt borð í bílskúrnum, sem hafði verið hreinsaður og málaður í tilefni dagsins. Flest hafið þið heyrt sögur af framtakssömu fólki, verðandi uppfinningamönnum eða iðnjöfrum, sem hófu starfsemi sína í bílskúrum. Nægir að nefna Edison, Microsoft-Gates og Hewlett-Packard. Í þennan eðla hóp bættust nú þorrablótandi Íslandsmenn í Flórída!

Vöxturinn var samt frekar hægur til að byrja með, þótt við útskrifuðumst úr bílskúrnum. Næsta blót var haldið í samkomusal fjölbýlishúss, sem í bjó einn af stjórnarmönnum félagsins. Salurinn var reyndar með eins konar hálfa efri hæð og var þarna alldimmt og drungalegt, að mig minnir. Aftur hafði tekist að útvega hangikjöt, harðfisk og eitthvað af súrmeti, en félagsmenn voru beðnir að koma með sín eigin drykkjarföng. Á tilteknu laugardagskvöldi skunduðu landar og fylgifiskar þeirra á staðinn með pokaskjatta sína og aðra pinkla. Varla var gleðskapurinn hafinn þegar tveir lögreglumenn birtust inni á miðju gólfi. Í ljós kom, að einhverjir íbúanna höfðu ekki verið sáttir við það, að landinn fengi að blóta í samkomusalnum þeirra. Sögðu laganna verðir, að njósnir hefðu borist af því, að gestir væru með miklar vínbirgðir og óttuðust sumir, að teitið myndi framkalla ofurölvun og hávaða. Bentu þeir á fjölda poka og uppstilltra flaskna meðfram veggjum og sögðu, að slíkt gæti ekki gengið. Tókst samt að tala þá til og var sú málamiðlun gerð, að vínbirgðunum yrði komið fyrir á þessari hálfu efri hæð, og fóru löggæzlumenn, þegar búið var að bera allt vínið upp. Það sem eftir var kvölds skröngluðust veizlugestir ótt og títt upp og niður stigann og duttu einhverjir, en þar fyrir utan gekk allt slysalaust, og skemmti fólkið sér bærilega.

Nokkur þorrablót voru haldin í húsakynnum ýmissa klúbba og var það allnokkur bót frá hinum dimma samkomusal fjölbýlishússins. Í einu af þessum klúbbhúsum, sem var með stóran sal, eldhús og bar, var þorri blótaður ein þrjú ár í röð. Á síðasta gleðskapnum fannst einhverjum í skemmtinefndinni, að dansgólfið væri ekki nógu sleipt, svo keypt var sérstakt gljá-duft til að strá á gólfið. Man ég eftir að hafa farið fetið með varúð að þorraborðinu, því gólfið var orðið sem hálagler. Þegar dansinn hófst komust margir í hann krappan og endaði ballið með því, að ein frúin skall á gólfið og lærbrotnaði. Var hún í marga mánuði að ná sér og fór svo í mál við klúbbinn og hafði víst þar út einhverja peninga. Skiljanlega hélt Íslendingafélagið ekki fleiri þorrablót á þeim stað!

Á árunum eftir 1990 var álitið, að þorrablótsmenning íslenzkra Flórídana hefði þróast það vel, að óhætt myndi vera að halda þessar vetrarhátíðir á hótelum. Veglegustu teitin voru haldin miðsvæðis á skaganum og sameinuðust þrjú Íslendingafélögin um undirbúning og framkvæmd. Flestir veizlugesta gistu á hótelinu og þurftu því ekki að hafa áhyggjur af því, hvernig þeir ættu að komast heim eftir gleðskapinn. Ekki einasta kom þorramaturinn að heiman, heldur fylgdu matsveinar í einkennisbúningum sínum með íslenzka fánann saumaðan á öxlina og ýmis heiðursmerki að auki. Og nú voru líka fengnar þekktar hljómsveitir til að leika fyrir dansinum. Ekkert nema það fínasta og bezta.

Maturinn var yfirleitt feikilega góður, þótt stundum mætti heyra ýmsar kvartanir eins og gengur og gerist. Eitt árið kláruðust sviðakjammarnir eitthvað fljótlega og urðu nokkrir gestanna bálillir. Nefndin afsakaði sig með því, að árið á undan hefði heilmikið af sviðum verið óétið. Líklega var það árið, sem stjórnin klofnaði vegna þess að tveir nefndarmanna ásökuðu þrjá kollega sína um að hafa stolið öllum afgangssviðunum! Varð úr þessu heilmikið mál, en sem betur fór komst lögreglan ekki í það.

Svo virðist, sem unga Ísland sé ekki eins hrifið af þorramat og þeir eldri. Man ég eftir einu atviki, þá er ég heyrði til föður, sem var að reyna að tala tíu ára son sinn til og hafði farið með hann fram í anddyrið. Strákur var baldinn og hrópaði: "Ég ét ekki þennan helv. skít, og heimta að fá pítsu!" Ameríkanarnir, sem eiga íslenzka maka, eru margir hverjir búnir að venjast þessum sérkennilegu kræsingum, en oft er kostulegt að fylgjast með þeim, sem eru að upplifa þorramat í fyrsta sinn. Sá ég eitt sinn eldri mann fá sér skyrslettu út á hangikjötið!

Þorrablótin gefa Íslendingum, sem hér hafa sezt að, tækifæri til að kankast á og bera saman bækurnar, og er það oft eina tækifærið á árinu til að hittast. Sumir þeirra eru farnir að stirðna dálítið í móðurmálinu. Tala þeir hægt og varlega því þeir þurfa stundum að tína fram mörg íslenzk orð, sem ekki hafa verið notuð lengi. Svo bregður vitanlega líka fyrir mörgum enskum orðum. Í því sambandi er vert að geta þess, að öðru hvoru blossa upp deilur um það, hvort þeir, sem ávarpa blótsgestina, skuli mæla á íslenzku eða ensku. Þar sem um þriðjungur gestanna er að jafnaði kanar, sem ekki tala okkar mál, en hinir íslenzku skilja allir ensku, hefir sú tunga oftast verið notuð, og líkar sumum það illa.

Annars hefir það líka verið vandamál, að oft er erfitt að fá gott hljóð, sérstaklega þegar haldnar eru ræður á íslenzku. Heyrt hefi ég af því, að fyrir nokkrum árum hafi einn af sendiherrum landsins verið að ávarpa þorrablótsgesti á móðurmálinu í einu af norðurríkjunum. Skvaldrið var svo slæmt, að hann missti þolinmæðina og hrópaði í hljóðnemann "shut up!" og datt þá allt í dúnalogn og hann gat lokið máli sínu. Yfirleitt er framkoma fólksins á þorrablótunum góð og virðist batna með hverju árinu. Það gekk reyndar fram af kunningja mínum á síðasta blótinu. Rétt fyrir miðnættið leit hann yfir salinn, sneri sér að mér og sagði: "Þetta er til háborinnar skammar; það sér ekki vín á nokkrum manni!"

Nú gætir nokkurrar óvissu um framtíð þorrablóta íslenzkra útlaga. Sum lönd líta innflutning á íslenzkum þorramat hornauga, og enginn veit hvað gerast muni í þessum málum, eftir að út hefir brotist gin- og klaufaveiki í Evrópunni. Hætta er á, að eftirlit með innflutningi kjötmetis, sér í lagi hins dularfulla þorramatar, verði hert til muna. Í Flórída vonum við hið bezta og væntum þess að geta blótað margan þorrann á ókomnum árum. Maturinn virðist falla hér vel í kramið, sérstaklega sviðakjammarnir, brúnir og sællegir, eins og þeir hafi ekkert gert nema flatmaga á ströndinni og sleikja sólskinið!