Þéttvaxnar konurnar eru klæddar í skærlit pils: bleik, blá eða græn, rauðar peysur og þær ganga gjarnan með hatt
Þéttvaxnar konurnar eru klæddar í skærlit pils: bleik, blá eða græn, rauðar peysur og þær ganga gjarnan með hatt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um 300 manns búa á Uros-eyjunum sem eru á Titicaca-vatni í Andesfjöllunum. Ragnheiður Kristinsdóttir heimsótti eyjarnar og hitti þar fyrir bústnar konur í litríkum pilsum með kúluhatta.

Hátt uppi í Andesfjöllum Suður-Ameríku, á hásléttunni milli Perú og Bólivíu, er stöðuvatnið Titicaca sem er hæsta siglingafæra vatn í heimi. Það er í 3.820 metra hæð yfir sjávarmáli og er um 9000 ferkílómetrar - eða nærri jafnstórt og allir jöklar Íslands samanlagt.

Titicaca, sem merkir vagga mannkynsins á máli innfæddra, quichua, hefur mikla sögulega þýðingu fyrir fólkið á þessu svæði og aðra sem eiga rætur sínar að rekja til Inkanna. Ein af goðsögum innfæddra segir að sólin, Inti, hafi sent börn sín til jarðar til að kenna jarðarbúum að rækta jörðina og lifa saman í bróðerni. Börnin, Manco Cápac og Mama Ocllo, stigu upp úr Titicaca-vatni og héldu þaðan til að stofna borgina Cuzco - Nafla alheimsins. Helstu eyjarnar á vatninu eru Isla del Sol, Eyja sólarinnar, og Isla de la Luna eða Eyja mánans. Þær eru báðar í Bólivíu og hægt að heimsækja þær frá bænum Copacabana.

Öll húsin úr sefgrasi

Í Perú eru þrjár stórar eyjar, Taquile, Amantaní og Soto, en einnig eru þar um sjötíu fljótandi eyjar sem nefnast Uros, ákaflega framandi og heillandi. Á stærstu Uros-eyjunum er skóli, pósthús og lítil söfn þar sem gestir geta skoðað uppstoppaða fugla og önnur dýr sem búa við og á vatninu. Öll húsin eru byggð úr sama sefgrasi og eyjarnar sjálfar og íbúar eyjanna eru mjög gestrisnir og sigla gjarna með ferðamenn á milli eyjanna gegn smágreiðslu. Það er ævintýralegt að sigla á vatninu þar sem sterk sólin skín beint niður á sindrandi blátt vatnið og sjá framundan fljótandi stráeyjar gerðar af manna höndum. Á þessum eyjum býr Uros-þjóðflokkurinn sem hefur með tímanum blandast Aymara-indíánum og talar nú tungumálið aymara ásamt spænsku og quichua. Uros-fólkið byggði þessar eyjar fyrir mörgum öldum til þess að einangra sig frá Inkunum og öðrum ríkjandi þjóðum. Úti á vatninu var Uros-fólkið einnig óhult fyrir spænskum hermönnum sem komu til Perú árið 1532 undir forystu Francisco Pizarro.

Bátar úr sefgrasi duga í hálft ár

Nú búa um þrjú hundruð manns á eyjunum og lifir fólkið á fiskveiðum og selur handverk sitt ferðamönnum. Daglegt líf Uros-fólksins byggist á því að safna sefgrasi, totora, sem vex í vatninu og úr því byggir það hús, býr til leikföng og einnig fléttar það báta sem geta dugað þeim í um sex mánuði í senn. Sefgrasið rotnar í vatninu og því þarf að bæta nýju lagi við eyjarnar á þriggja mánaða fresti. Þá eru efstu stráin tekin af og notuð til upphitunar og eldamennsku en nýtt lag er ofið neðan við. Þegar komið er nær eyjunum blasir við mikil litadýrð. Bústnar konurnar eru klæddar í skærlit pils: bleik, blá eða græn, rauðar peysur og allar eru þær með kúluhatt - en hjá indíánum er höfuðfatið mismunandi eftir þjóðflokkum. Karlmennirnir klæðast látlausari fötum; dökkum buxum og ljósri skyrtu. Þegar maður stígur út á þessar fljótandi eyjar fær maður á tilfinninguna að hún sé gerð af dúni og þar veltast ungu börnin um eins og hnoðrar. Þó verður að gæta sín að stíga ekki á rotin stráin því þá á maður á hættu að gera gat á eyjuna og falla ofan í vatnið. Eyjabúar nota einnig fersk totora-grösin sem meðlæti og búa til græðandi te úr blómunum. Því má segja að totora-grösin fæði, græði og verndi íbúana fyrir ísköldu vatninu fyrir neðan og brennheitri sól Andesfjallanna fyrir ofan.

Ekki ljúga, stela eða vera latur

Eyjabúarnir hafa sömu lífsreglur og Inkaþjóðin lifði eftir; ekki ljúga, ekki stela og ekki vera latur og þessi einkunnarorð eru í hávegum höfð í daglegu lífi. Uros-fólkið hefur ekki strangar reglur um tilhugalíf og algengt er að pör búi saman í nokkur ár og eignist börn áður en þau giftast. Stundum búa þau líka til sína eigin eyju til að fá meira næði en algengast er þó að byggður sé kofi fyrir unga fólkið við hliðina á foreldrum þeirra. Samkvæmt hefð eiga makarnir að koma hvor frá sinni eyju og sjaldnast giftast eyjabúar fólki frá fastalandinu. Brúðkaupsveislur á Uros-eyjum standa venjulega yfir í þrjá daga og þrjár nætur og þar er drukkið, sungið og dansað, allt á kostnað foreldra brúðgumans. Þetta er í eina skiptið sem allir eyjabúar koma saman og er þá mikil gleði og oftar en ekki detta einn eða tveir útbyrðis í öllum látunum. Uros-konurnar segja að í flestum tilvikum sé litið á þær sem jafningja eiginmannsins og báðir foreldrarnir eru metnaðarfullir fyrir hönd barna sinna og senda þau heldur í einkaskóla á fastalandinu en að láta þau ganga í opinberan skóla. Samt sem áður eru ekki allir eyjabúar sáttir við þetta frumstæða og einfalda líf og fleiri sækjast nú eftir að flytja í stærri borgir í leit að vinnu.

Lífið á Titicaca-vatni er ekki alltaf auðvelt og á síðustu árum hefur athafnafólk á fastalandinu selt ferðamönnum siglingar til Uros-eyja og annarra eyja á vatninu. Nú hafa eyjabúar hins vegar tekið við rekstri bátanna og sjá sjálfir um að stjórna ferðamannastraumnum til eyjanna. Uros-búar þurfa því ekki lengur að hafa áhyggjur af innrás útlendinganna heldur geta þeir hagnast á þeim viðskiptum og ráða nú sjálfir hverjir sækja þá heim.