[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í GEGNUM þykkt og þunnt eða súrt og sætt er oft sagt þegar rætt er um lífsins óútreiknanlegu vegi. Brúðhjón eru minnt á að vera hvort öðru stoð, stytta o.s.frv. í hinu súrsæta lífi sem við þeim blasir. Hið sætsúra á þó við um margt fleira en lífið, t.d. appelsínuna og að mörgu leyti má líkja lífinu við appelsínu.

Hún getur bæði verið sætsúr eða súrsæt. Á hvorn veginn sem er þá erum við flest sólgin í hana líkt og litlar blóðsugur, en jafnframt tortryggin í hennar garð af ýmsum ástæðum. Litur appelsínunnar lífgar upp á hvers kyns drunga og safinn hressir og kætir. Þetta var sólkonungurinn Loðvík XIV með á hreinu eins og svo margt annað varðandi lífsins unaðs- og lystisemdir.

Aldrei var haldin veisla í Versölum án þess að appelsínur léku þar stórt hlutverk, bæði til skrauts og sem hluti af matseðlinum. Þær prýddu bjarta te- og ísherbergið. lífguðu upp á billjardstofuna og vörðuðu leiðina allt til vistarvera konungsins sjálfs. Við hliðina á gæsalifrarkæfunni á veisluborðinu voru föt full af stórum appelsínum frá Indlandi og litlum frá Kína. Jafnt í höllinni sem í borginni lá neroli-ilmur (af appelsínublómi) í loftinu. Ilmur þessi er sagður hafa mjög róandi og slakandi áhrif. Það er einfalt að setja 3-4 dropa af neroli-olíu í úðabrúsa og fylla upp með vatni og úða nokkrum sinnum inni í svefnherberginu, t.d. á rúmföt áður en gengið er til náða.

Öfugt við það sem tíðkast í dag vildu konur á seinni hluta 17. aldar á meginlandi Evrópu gera húð sína eins hvíta og unnt var. Vinsælt ráð til að ná fram þessum áhrifum var notkun hins svokallaða Venusarvatns. Það er samansett úr appelsínu- og sítrónusneiðum sem eru hakkaðar og blandað saman við mjólk úr svartri kú og rigningarvatni sem dropið hefur af vínvið. Þetta ættu allar ungar stúlkur í dag að ráða við að búa til! Mér finnst þetta hljóma sem mun verðugri fegrunarkúr en sá að fara í ljós.

Svo ég haldi áfram með samlíkingar þá má líkja athöfninni að taka utan af appelsínu við það að afklæða konu. Þú getur rifið utan af henni fötin (börkinn) í einu vetfangi og af mikilli græðgi, en þá er mjög líklegt að safi ávaxtarins og jafnvel skordýraeitur spýtist í augun á þér og að of mikið af hinu hvíta undirlagi barkarins loði enn við safaríkan ávöxtinn.

Þannig er búið að skemma bæði athöfnina, hver sem hún er og niðurlægja appelsínuna, sem kallar á varkárni og alúð þess sem hana snertir. Auðvitað fer þetta eftir þykkt barkarins og tegund ávaxtarins.

Með hækkandi sól og sumar á næsta leiti er ekki úr vegi að íhuga það að skella sér í appelsínubað með elskunni sini eins og Proust og Albertine gerðu í bók Prousts, Sódóma og Gomorra. Þar lýsir hann yndislegri sumarrigningu, frískandi vökvun. Það er semsagt appelsínubaði sem Marcel og Albertine gefa sig á vald í miðjum kossaflaumi.

Munið eftir því að nota eingöngu lífrænt ræktaðar appelsínur og sítrónur þegar nota skal börkinn og auðvitað sem oftast þó bara eigi að borða ávöxtinn. Þannig eru þær bæði hollari og betri. Appelsínur eru stútfullar af vítamínum og steinefnum, svo verið dugleg að borða þær. Appelsínur innihalda ávaxtasýrur, þ.á m. sítrónu-, epla- og vínsýru, 3 teg. af sykrum (þ.á m. ávaxtasykur), 14 teg. af vítamínum, t.d. mjög mikið af C-vítamíni, 7 samvirkandi efni úr B-vítamínhópnum, A-vítamín, D-, E- og P-vítamín auk 13 steinefna og nokkur ensím.

Dúndurappelsínueftirréttur

Botninn:

100 g makkarónukökur

1 dl madeira

Kremið:

5 dl mjólk

1 vanillustöng

2 egg

½ dl sykur

2-2½ msk. kartöflumjöl

3 msk. madeira

8 appelsínur

1¼ þeyttur rjómi

1½ msk. perlusykur

Komið makkarónukökunum fyrir í glærri skál sem bera á fram í. Hellið víninu út á. Hellið mjólkinni í pott og hitið ásamt vanillustönginni. Látið vanillustöngina liggja í mjólkinni nokkrar mínútur eftir að potturinn hefur verið tekinn af hellunni. Þeytið saman í öðrum potti egg, sykur og kartöflumjöl. Hellið heitri mjólkinni og víninu yfir eggjablönduna og látið suðuna koma upp. Þeytið stöðugt í á meðan.

Látið blönduna kólna. Skrælið appelsínurnar og skerið þær í sneiðar eða báta. Hellið nú vanillusósunni yfir makkarónurnar og komið síðan appelsínusneiðunum fyrir ofan á og skreytið með þeyttum rjóma og perlusykri.

Þessi réttur er algjört dúndur með sterku kaffi og appelsínulíkjör.

eftir Álfheiði Hönnu Friðriksdóttur