William Lotukei Lopeta, kennari og prédikari frá Kenýa, er staddur hérlendis í tilefni af kristniboðsvikunni, sem hefst í dag.
William Lotukei Lopeta, kennari og prédikari frá Kenýa, er staddur hérlendis í tilefni af kristniboðsvikunni, sem hefst í dag.
WILLIAM Lotukei Lopeta, 37 ára kennari og prédikari af Pokot-ættbálkinum í Kenýa í Afríku, er staddur hérlendis í tilefni af árlegri kristniboðsviku Sambands íslenskra kristniboðsfélaga sem hefst í dag klukkan 17 í húsi KFUM og K við Holtaveg.

WILLIAM Lotukei Lopeta, 37 ára kennari og prédikari af Pokot-ættbálkinum í Kenýa í Afríku, er staddur hérlendis í tilefni af árlegri kristniboðsviku Sambands íslenskra kristniboðsfélaga sem hefst í dag klukkan 17 í húsi KFUM og K við Holtaveg. Lopeta sagðist í samtali við Morgunblaðið aldrei áður hafa farið út fyrir Kenýa og því væri þetta mikil upplifun fyrir sig.

"Það er stundum kalt þar sem ég bý en ekki næstum eins kalt og hér," sagði Lopeta. "Þetta er allt svo ótrúlegt, hér eru byggingarnar svo fallegar og allt svo hreint - það að geta flogið á milli landa í flugvél er kraftaverk."

Lopeta, sem býr í þéttbýlli sveit í vesturhluta Kenýa, tók kristni eftir að hafa kynnst boðskapnum hjá íslenskum kristniboðum. Íslendingar hafa stundað kristniboð í Kenýa í Afríku í 23 ár, en í landinu búa um 33 milljónir manna og er talið að rúmlega 80% þeirra séu kristin. Íslensku kristniboðunum hefur orðið vel ágengt í að breiða út boðskap lúthersku kirkjunnar og er nú svo komið að rúmlega 100 söfnuðir í Pokot-héraði tilheyra henni.

Lopeta sagðist fyrst hafa heyrt um hina lúthersku trú árið 1984 og sagði hann að honum hefði strax þá fundist hún mjög spennandi.

"Þetta er eitthvað svo skýr boðskapur og það er það sem fólkið þarf á að halda. Margir hér trúa á anda og færa þeim fórnir aðallega af hræðslu við dauðann því fólk veit ekki hvað tekur við eftir hann. Kristnin boðar hins vegar að eftir dauðann taki við eilíft líf og það veitir fólkinu öryggi."

Stofnaði söfnuð

Árið 1990 kynntist Lopeta Ragnari Gunnarssyni kristniboða og bað hann að boða fagnaðarerindið í sinni heimasveit. Hann sagði að Ragnar hefði hins vegar ekki haft tök á því en boðist til að kenna honum boðskapinn svo hann gæti sjálfur prédikað fyrir sínu fólki. Lopeta lagði þá stund á biblíufræði og hélt aftur til síns heima og stofnaði þar söfnuð. Lopeta sagði að mikill uppgangur væri í lúthersku kirkjunni í sínu heimahéraði og sífellt fleiri gengju í söfnuði hennar.

Lopeta, sem hefur átt mikilvægan þátt í útbreiðslu lútherskrar trúar í sinni heimabyggð, hefur auk þess stofnað þrjá barnaskóla, sem hann er umsjónarmaður yfir.

Lopeta mun dvelja á Íslandi tæpar þrjár vikur, en klukkan 20.30 á miðvikudaginn mun hann segja sögu sína í Kristniboðssalnum á Háaleitisbraut 58.