Þátttakendur á alþjóðlega stúdentamótinu gáfu sér tíma til að fara í skíðaferð og skemmtu sér konunglega.
Þátttakendur á alþjóðlega stúdentamótinu gáfu sér tíma til að fara í skíðaferð og skemmtu sér konunglega.
Annað hvert ár safnast hundruð stúdenta hvaðanæva úr heiminum saman í Þrándheimi í Noregi og ræða heimsmálin. Í ár var umræðuefnið hnattræn ábyrgð og var það nálgast frá mörgum sjónarhornum. Sunna Ósk Logadóttir fylgdist með stúdentahátíðinni ISFiT og tók tali fulltrúa Íslands í henni, mannfræðinemana Ágústu Þórarinsdóttur og Fanneyju Karlsdóttur.

Í GEGNUM árin hafa stúdentar látið til sín taka í stjórnmálum af miklum móð og oft hafa stúdentamótmæli og stúdentaóeirðir vakið heimsathygli. Síðustu ár og áratugi hefur þó sífellt minna farið fyrir uppreisnum og setuverkföllum meðal stúdenta, í það minnsta í hinum vestræna heimi.

En leiðir til að láta heyra í sér, ná augum og eyrum almennings, eru margar og undanfarið hafa víða um heim verið haldnar stúdentahátíðir, nokkurs konar ráðstefnur þar sem nemendur frá öllum heimhornum hittast og ræða ýmis málefni sem eru í brennidepli.

Ein slík hátíð, ISFiT (The International Student Festival in Trondheim), er haldin annað hvert ár í Þrándheimi í Noregi. Markmið hátíðarinnar er að fá þátttakendur frá sem flestum löndum heims til að að ræða málefni sem snerta alla heimsbyggðina og hvernig ungt fólk, leiðtogar framtíðarinnar, getur haft áhrif á gang og þróun heimsmálanna. Þá er skemmtun ekki síður mikilvægur hluti hátíðarinnar og þátttakendur tóku sér ýmislegt fyrir hendur er ráðstefnuhlutanum sleppti. Meðan á hátíðinni stóð ríkti fjölþjóðlegur andi í Þrándheimi og ýmsar uppákomur, s.s. dans, tónlist og leiklist frá ýmsum löndum fylltu götur og hús borgarinnar.

Í ár voru þátttakendurnir rúmlega 400 talsins og komu frá um 110 löndum. Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni var hnattræn ábyrgð og var efnið nálgast frá mörgum sjónarhornum í gegnum 14 vinnuhópa sem hver fyrir sig fjallaði um afmarkað efni. T.d. fjallaði einn hópurinn um afnám skulda fátækra landa, annar um heilbrigðisvandann á alheimsvísu, í einum hópnum var sjálfbær þróun helsta umræðuefnið og í öðrum tækni og vísindi. Þá var í öðrum hópum rætt um erfðatækni, siðferði, hagkerfi og drottnunarstefnu svo eitthvað sé nefnt. Til að auka enn á þekkingu þátttakenda á ýmsum málefnum voru haldnir fyrirlestrar þar sem þekktir einstaklingar héldu erindi. Meðal fyrirlesara í ár voru Trond Giske, menntamálaráðherra Noregs, Klaus Töpfer, yfirmaður umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Ann Pettifor sem starfar fyrir samtökin Jubilee 2000UK sem hafa barist ötullega fyrir niðurfellingu skulda fátækra landa.

Íslendingar meðal þátttakenda

Tveir fulltrúar frá Íslandi tóku þátt í ISFiT í ár, þær Ágústa Margrét Þórarinsdóttir og Fanney Karlsdóttir sem báðar eru nemendur í mannfræði við Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar eiga fulltrúa á hátíðinni sem hefur verið haldin frá árinu 1990. Skipuleggjendur ISFiT sendu upplýsingar um hátíðina til sem flestra háskóla í heiminum og fengu Fanney og Ágústa strax áhuga og voru þær í hópi þeirra ríflega 3000 umsækjenda sem sóttu um þátttöku á hátíðinni. Blaðamaður hitti þær í Þrándheimi á síðasta degi ráðstefnunnar og spurði þær fyrst hvers vegna þær hefðu ákveðið að taka þátt.

"Mér þótti þetta strax mjög áhugavert þema [hnattræn ábyrgð]," útskýrir Fanney og Ágústa bætir við: "Þetta tengist líka á vissan hátt mannfræðinni, þar sem t.d. er kennt námskeið um þróunarlönd og mikil áhersla lögð á hnattvæðingu. Svo þetta greip mig strax og var eitthvað sem ég hafði mikinn áhuga á."

Umsækjendur völdu hver fyrir sig að taka þátt í einum af þeim 14 vinnuhópum sem í boði voru. Ágústa valdi að taka þátt í umræðum um sjálfbæra þróun en í hópi Fanneyjar var rætt um nútímann og hnattvæðingu.

"Þeir sem voru saman í hóp voru að hugsa á sömu nótum, sama hvort þeir voru frá Tansaníu eða Rússlandi," útskýrir Ágústa. "Allir voru á sömu línunni en þó svo ólíkir. Allir höfðu líka svo mikinn áhuga á að segja frá sínu landi og þeim vandamálum sem þar eru."

Sjálfbær þróun

"Það er ótrúlega margmenningarlegt hérna," segir Fanney. "Í hópnum mínum voru t.d. 24 einstaklingar frá 23 löndum. Kynþáttafordómar voru ekki til staðar, kynþættir voru aldrei til umræðu. Við höfum auðvitað talað um hvað við séum ólík og þá hvernig við getum unnið að því í sameiningu að bæta heiminn."

Ágústa hefur sömu sögu að segja frá sínum hópi sem var fjölmennasti vinnuhópurinn, taldi um 60 manns. Hún segir hópastarfið hafa skilað sér miklu og nefnir t.d. ólík viðhorf þátttakenda til umhverfismála. "Við lítum misjöfnum augum á umhverfið eftir því hvaðan við erum. Þess vegna þarf að fara varlega þegar alþjóðasamningar, eins og Kyoto-sáttmálinn, eru gerðir, taka þarf tillit til mismunandi hugsana og þarfa fólks hvað umhverfismál snertir." Að mati hennar er líka mikilvægt að kynna hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem víðast og koma henni inn í menntakerfið strax á grunnskólastigi. "Það sem kom mér mest á óvart var hvað fólk virðist hafa litla trú á stjórnvöldum í sínum heimalöndum. Það er víða mikil spilling og ekki hægt að treysta stjórnvöldum."

Nútíminn og alþjóðavæðing

Hugtökin nútími og alþjóðavæðing voru til umfjöllunnar í hópnum sem Fanney tók þátt í. "Við ræddum t.d. mikið um hvað alþjóðavæðing hefur í för með sér, hvernig hún birtist okkur og neikvæðar og jákvæðar hliðar hennar. Það kom greinilega í ljós að lönd hafa aðlagast misjafnlega að alþjóðavæðingu og áhrifin eru misjöfn á samfélög."

Þá var einnig rík áhersla lögð á gildi menningar og hefða í hópnum, t.d. hvernig þjóðleg menning ætti að geta blómstrað samhliða alþjóðavæðingu.

"Alþjóðavæðing er komin til að vera og allir þurfa að reyna að nýta hana sér í hag," heldur Fanney áfram. "Mér varð ljóst hvað við Íslendingar erum mikið efnishyggjufólk og upptekin af neyslu en erum að gleyma svolítið hvort öðru. Það þarf vakningu, að staldra aðeins við og hugsa; hvert erum við að stefna, hvað viljum við sjá í framtíðinni?"

Meðvitaðir neytendur

Margir þátttakenda ISFiT vinna í sínum heimalöndum fyrir samtök af ýmsu tagi, s.s. friðarsamtök eða umhverfissamtök. "Það er merkilegt að sjá að margt ungt fólk er mjög virkt í sínum löndum, tekur pólitíska afstöðu og lætur sig umhverfismál varða," segir Ágústa. Fanney tekur heilshugar undir orð hennar. "Margir eru líka svo meðvitaðir neytendur, borða t.d. ekki ákveðnar matvörur og ganga ekki í fatnaði frá ákveðnum merkjum í mótmælaskyni eða keyra ekki bíl umhverfisins vegna. Það er ólíkt þeim þankagangi sem viðgengst heima á Íslandi."

Einkunnarorð ráðstefnunnar hafa að sögn Ágústu og Fanneyjar verið að allir ættu að gera það sem þeir geta, a.m.k. eitthvað smávegis, frekar en að gera ekki neitt. "Það er alltaf verið að ræða um hnattræna ábyrgð og hvað stjórnvöld þurfi að gera til að bæta ástandið en málið er að þetta veltur allt á okkur sjálfum, hvað einstaklingurinn getur gert," segir Fanney og Ágústa bætir við: "Já, fólk miklar þetta svo mikið fyrir sér, í staðinn fyrir að hugsa um hvað hver og einn gæti áorkað."

Stúdentar skila skýrslu um umhverfismál

Allir hóparnir unnu sameiginlega að drögum skýrslu sem stendur til að kynna á alþjóðlegu Umhverfisráðstefnunni í Suður-Afríku árið 2002 en hún verður haldin tíu árum eftir að Ríó-sáttmálinn var samþykktur. Fulltrúar úr nokkrum hópanna urðu eftir í Þrándheimi eftir að ISFiT lauk og fullunnu skýrsluna í fjarsambandi við aðra þátttakendur. Með henni mun ISFiT, fyrir hönd stúdenta um allan heim, skila ályktun um umhverfismál og hnattræna ábyrgð til heimsbyggðarinnar.

Allir sem saman voru komnir á hátíðinni fóru heim með ýmsar hugmyndir í farteskinu um hvernig hægt er að hafa áhrif á framtíðina í sínu heimalandi og vinna saman með hnattræna ábyrgð að leiðarljósi. Meðal þátttakenda voru eflaust margir af leiðtogum framtíðarinnar sem sneru fullir bjartsýni og boðskapar til síns heima. En hvaða boðskap tóku þær Ágústa og Fanney með sér til Íslands?

Sameiginleg ábyrgð

"Það var mikill kraftur í loftinu á hátíðinni, ég fann greinilega fyrir því. Mér finnst þetta hafa breytt mér og ég er farin að hugsa um ýmsa hluti sem ég hef ekki gert áður. Því hefur þátttaka á hátíðinni verið mér hvatning og haft mikil áhrif á mig persónulega," segir Ágústa.

"Það hefur margsinnis sannað sig hvað stúdentar geta gert mikið," bendir Fanney á. "Stúdentar geta tekið sig saman og komið á umbótum. Breytingar koma ekki alltaf að ofan. Stúdentar eiga að vera gagnrýnir og temja sér gagnrýna hugsun. Það er mikilvægt að halda í þessa hugsjón, að við getum öll gert eitthvað og haft áhrif," segir Fanney.

Ágústa og Fanney eru sammála um að umhverfismál og ójöfn dreifing fjármagns í heiminum séu ekki einkamál hverrar þjóðar. "Við berum öll ábyrgð. Það er ekki hægt að hugsa sem svo að við búum á Íslandi og þessi mál komi okkur ekki við, þau koma okkur svo sannarlega við," segja þær og bæta að lokum við að orð Gandhi, "lifðu einföldu lífi svo annað fólk geti einfaldlega lifað" eigi erindi til allra.