Ólafur, Erik og Jón Páll í "bibop" stellingum fyrir kvöldið.
Ólafur, Erik og Jón Páll í "bibop" stellingum fyrir kvöldið.
Í KVÖLD leikur kvartett Ólafs Jónssonar á Ozio og hefjast tónleikarnir kl. 21.30.

Í KVÖLD leikur kvartett Ólafs Jónssonar á Ozio og hefjast tónleikarnir kl. 21.30.

Kvartettinn skipa Ólafur sjálfur á saxófón, Gunnar Hrafnsson á kontrabassa og Erik Qvick á trommunum, auk sérstaks gests sem er "Jón Páll Bjarnason hin lifandi goðsögn og gítarhetja frá Los Angeles" eins og Ólafur orðar það, en Jón Páll hefur einmitt starfað þar ytra til langs tíma þar til hann kom heim fyrir rúmu ári.

"Okkur Jón Pál hefur lengi langað að spila saman og það var upplagt að grípa það tækifæri þegar við vorum beðnir að spila á Ozio," segir Ólafur.

Ætlun þeirra félaga er að leika bibop-lög og standardar í eigin útsetningum og eru þær "í hefðbundnari kantinum. Þetta eru línur sem gítarinn og saxófónninn spila saman. Það er ekkert endilega nýtt, en það er eins og við gerum það," segir Ólafur sem vill lítið fara út í hvaða lög eða eftir hvern þeir muni leika, menn verða bara að mæta til að komast að því. "Þessi tónlist er í anda Jóns Páls en er einnig hluti af mínum uppáhaldsdjassi."

-En verða sóló gömlu snillinganna tekin eins og þau leggja sig?

"Nei, nei, þetta eru allt okkar snarstefjanir." Ozio hefur frekar verið ungmennaklúbbur og blaðamaður velti því fyrir sér hvort þeir félagar væru ekki fullgamlir til að troða þar upp. "Ja... hefur ekki unga fólkið gott af því að heyra hvað þeir eldri hafa að segja?" spyr Ólafur að lokum.