SNJÓFLÓÐ, um 150 metra breitt, féll Norðfjarðarmegin í ofanverðu Oddsskarði skömmu fyrir hádegi í gær. Fólksbíll með fjögurra manna fjölskyldu frá Neskaupstað lenti í jaðri flóðsins en fólkið sakaði ekki.

SNJÓFLÓÐ, um 150 metra breitt, féll Norðfjarðarmegin í ofanverðu Oddsskarði skömmu fyrir hádegi í gær. Fólksbíll með fjögurra manna fjölskyldu frá Neskaupstað lenti í jaðri flóðsins en fólkið sakaði ekki.

Hjónum ásamt tveimur börnum sínum tókst að komast út um glugga bílstjóramegin og forða sér í burtu. Ljóst er að hefðu þau verið fyrr á ferðinni hefði getað farið verr. Bíllinn skemmdist lítið sem ekkert. Vegurinn um Oddsskarð var lokaður fram eftir degi á meðan Vegagerðin ruddi leið í gegnum flóðið.

Ekki skemmtileg lífsreynsla

"Flóðið kom allt í einu beint framan á bílinn og yfir hann. Bíllinn rann lítillega aftur á bak en samt ekki út af veginum, og pikkfestist. Okkur tókst að komast út um gluggann bílstjóramegin. Þetta var alls ekki skemmtileg lífsreynsla. Fyrst héldum við að við værum að mæta snjóblásara og datt ekki snjóflóð strax í hug í þessari sól og blíðu," sagði Sigríður Þórarinsdóttir í Neskaupstað, sem lenti í flóðinu ásamt fjölskyldu sinni. Hún var á leiðinni til Egilsstaða á námskeið í hárgreiðslu ásamt nokkrum starfssystrum sínum í Neskaupstað en ekkert varð af þeim áformum.