ÞORGEIR Pálsson flugmálastjóri segir að skýrt komi fram í bréfi Flugmálastjórnar til samgönguráðherra um rekstur Leiguflugs Ísleifs Ottesen ehf.

ÞORGEIR Pálsson flugmálastjóri segir að skýrt komi fram í bréfi Flugmálastjórnar til samgönguráðherra um rekstur Leiguflugs Ísleifs Ottesen ehf., að það sé mat stofnunarinnar, að um alvarlega vanrækslu hafi verið að ræða í rekstri flugvélarinnar sem fórst í Skerjafirði.

"Þetta tengist beinlínis því ákvæði samningsins, sem vitnað er til í bréfinu, að um hafi verið að ræða faglegan misbrest í flugrekstrinum, sem getur verið tilefni uppsagnar. Hins vegar hlýtur það að vera hlutverk ráðuneytanna sem verkkaupa að taka ákvörðun í þessu efni," segir Þorgeir í viðtali sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þorgeir bendir einnig á að við mat á því hvort þjónustusamningum samgöngu- og heilbrigðisráðuneytanna við LÍO skuli sagt upp komi til skoðunar lögfræðileg álitaefni, sem ekki tengist flugöryggi. "Það er hlutverk annarra en Flugmálastjórnar að leggja mat á þau," segir hann.

"Flugmálastjórn getur að sjálfsögðu svipt flugrekanda flugrekstrarleyfi ef hún hefur til þess gildar öryggisástæður, sem hún getur stutt rökum. Hins vegar mundi slíkri ákvörðun að sjálfsögðu vera beint þegar í stað til dómstóla. Hér verður að hafa í huga, að atvinnuréttindi njóta ríkrar lögverndar, þannig að gerðar eru mjög miklar kröfur um sönnun. Stofnunin mætti gjarnan hafa fleiri úrræði en hún hefur nú lögum samkvæmt," segir flugmálastjóri einnig í viðtalinu.

Ekki taldar forsendur til uppsagnar að mati LÍO

Í yfirlýsingu, sem fjölmiðlum barst í gær frá Leiguflugi Ísleifs Ottesen, er vitnað í samninga félagsins um sjúkraflutninga og áætlunarflug og riftunarákvæði samninganna. Þar segir að samgönguráðherra hafi óskað eftir umsögn Flugmálastjórnar um það hvort uppsagnarheimild gæti verið fyrir hendi. "Niðurstaða Flugmálastjórnar er sú að svo væri ekki og heldur ekki forsendur til flugrekstrarleyfissviptingar á grundvelli flugöryggissjónarmiða," segir í yfirlýsingunni.

Þar kemur einnig fram að forsvarsmenn LÍO gerðu umtalsverðar athugasemdir við gerð skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa og telja að hún hafi að geyma missagnir og jafnvel getsakir.