Mjólkursjálfsali við bændagistingu Raich-hjónanna.
Mjólkursjálfsali við bændagistingu Raich-hjónanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bændagisting er algeng í Austurríki. Anna Bjarnadóttir bjóst við einfaldara herbergi en hún fékk í Pitztal.

Konan á ferðamálaskrifstofu Pitztal í Austurríki var undrandi þegar ég bað um bændagistingu. Henni kom líklega á óvart að ég vildi ekki 5 stjörnu hótel með góðum matstað. "En þú vilt viss þægindi?" spurði hún. "Bað út af fyrir þig?" Ég féllst á það. Ákvað að taka með mér handklæði til vonar og vara. Það reyndist óþarfi. Það voru tvö lítil handklæði á baðherberginu mínu hjá frú Huber, en engin sápa.

Pitztal liggur í suðurátt frá Imst við ána Inn, um 60 km vestan við Innsbruck. Það er ágætt, lítið skíðasvæði fyrir ofan þorpið Jerzens og annað mun stærra uppi á jöklinum innst í dalnum. Benjamin Raich, einn fremsti skíðakappi Austurríkismanna, er úr Pitztal. Á sumrin lokkar fjallaloftið og göngustígar. Það hefur löngum tíðkast í dalnum að bændur leigi út gestaherbergi. Fæstir þeirra geta lifað af búskapnum einum saman. Margir sækja vinnu til Imst eða Innsbruck og eiginkonurnar sjá um kýrnar og gestina.

Heimili Huber-hjónanna er efst í þorpinu Wenns. Ef ég hefði ekki séð fjósið við hliðina hefði mig ekki grunað að þetta væri bóndabær. Stórt og fínt, hvítmálað hús við götu með nokkrum svipuðum, fjóslausum húsum. Herbergið mitt var eins og venjulegt, austurrískt hótelherbergi, með stórum svölum og fögru útsýni yfir dalinn. Það vantaði bara sjónvarp, útvarp og síma. En það var lítið sjónvarp í borðstofunni þar sem ég fékk morgunverðinn.

Sonurinn á nærbuxunum

Frú Huber hefur tekið á móti gestum í 20 ár. Hún leigir út 5 tveggja manna herbergi sem kosta 1.200 til 1.400 krónur. Ég sá ekki húsbóndann, hann var líklega í vinnunni, en sonurinn, sem er skíðakennari, kom á nærbuxunum inn í borðstofuna þegar ég var að drekka morgunkaffið. Hann var fljótur að snúa við þegar hann sá mig. Hann átti ekki von á gestum á þessum árstíma. Það er meira að gera hjá frú Huber á sumrin. Hún bar fyrir mig egg og brauð, sultu, álegg, jógúrt og heita mjólk út í kaffið. Jógúrtið var eins og sætur, þeyttur rjómi með jógúrtbragði. Hún býr það til sjálf úr mjólkinni sem hún mjólkar úr kúnum tveim tvisvar á dag. Meiri er búskapurinn ekki. Hún gafst upp á hænum eftir að mörður gekk frá nokkrum þeirra. Eggin voru frá bónda í nágrenninu.

Raich-hjónin í Jerzens, hinum megin í dalnum, eru með hænur, kanínur og 8 kýr. Þau, það er að segja Birgit, leigja út 3 misstórar íbúðir á verðinu 3.800 til 7.250 krónur. Þær eru bókaðar næstum allt árið. Skíðabíllinn stoppar alveg við húsið á veturna og það er notalegt á sólpallinum þeirra á sumrin. Þau hafa fjölda fastagesta og vinir fastagestanna eru að bætast í hópinn.

Einkaegg fyrir gestina

Karl Raich tók við búskapnum af föður sínum fyrir 10 árum. Hann vildi annaðhvort geta lifað af honum eða hætta búskap. Hann hafði samband við gististaðina í kring og þeir samþykktu að kaupa mjólk beint frá honum frekar en úr mjólkursamsölunni í Innsbruck. Hann hefur síðan fjölgað við sig kúm og gestir í Jerzens fá fyrsta flokks nýmjólk og jógúrt.

Hjónin leggja sig bæði fram um að gestunum líði vel og njóti dvalarinnar. Þau skipuleggja ferðir upp í fjall einu sinni í viku og börn fá lykla að kassa til hliðar við fjósið þar sem hænurnar verpa og mega eiga eggin. Gestir geta hjálpað til við búskapinn ef þeir vilja, krakkar hafa sérstaklega gaman af að taka þátt í heyskapnum.

Bóndabær Raich-hjónanna er inni í þorpi. Íbúðirnar eru með öllum þægindum. Það er einnig sameiginleg setu- og borðstofa þar sem hægt er að sitja og spjalla eða fá morgunverð. Fjósið er opið svo búskapurinn á gististaðnum fer ekki fram hjá gestunum. Annars er lítill sveitabragur á bændagistingu í Pitztal. Herbergin eru þægileg, gestgjafarnir vingjarnlegir og stutt í næsta hús.