Að hlusta skiptir mestu máli þegar finna þarf út hvar skriðillinn er undir ísnum á Winnipegvatni í Kanada. Algjör kyrrð ríkir úti á ísnum, hvergi mann að sá, auðnin algjör, en tikkið í skriðlinum gefur til kynna hvar næst eigi að bora.
Að hlusta skiptir mestu máli þegar finna þarf út hvar skriðillinn er undir ísnum á Winnipegvatni í Kanada. Algjör kyrrð ríkir úti á ísnum, hvergi mann að sá, auðnin algjör, en tikkið í skriðlinum gefur til kynna hvar næst eigi að bora.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er skrýtin tilfinning að hitta Robert T. Kristjanson, fiskimann á Gimli í Manitoba í Kanada.

Það er skrýtin tilfinning að hitta Robert T. Kristjanson, fiskimann á Gimli í Manitoba í Kanada. Sérstaklega eftir að hafa ekki alls fyrir löngu verið með Ted föður hans í húsinu við hliðina og rætt við hann um fiskveiðar á Winnipegvatni, en þeir feðgar eiga ættir að rekja til Skagafjarðar og Vopnafjarðar. Foreldrar Teds fæddust á Íslandi en fluttu til Manitoba fyrir um 120 árum.

Líkur sækir líkan heim

Bob er lifandi eftirmynd föður síns. Ted, sem er að verða 89 ára, heldur reyndar í íslenskuna og talar hana eins og innfæddur en Bob, sem er 67 ára, hefur snúið sér alfarið að enskunni. Frá barnsaldri hefur hann stundað fiskveiðar á vatninu, rétt eins og faðir hans og afi, og Chris, sonur hans sem er 38 ára, hefur fetað í fótspor þeirra. Chris er reyndar alveg eins og pabbi hans í háttum og tali og er þegar farinn að láta til sín taka í fiskveiðum og útgerð. Auk þess eiga þau Bob og Sigurrós dótturina Albertu, en fiskibátur hans, svonefndur hvítfiskbátur sem notaður er á sumrin, ber nafn hennar.

"Við ólumst upp við fiskveiðar fyrir norðan og ég stóð ekki út úr hnefa þegar ég vissi hvað ég vildi verða," segir Bob. "Pabbi vildi að ég gengi menntaveginn en ég vildi það ekki. Ég vildi verða fiskimaður og byrjaði á fullu sem óharðnaður unglingur. Bræður mínir fóru að ráðum pabba en ég held að val mitt hafi ekki komið niður á mér. Þeir hafa það ágætt en það hef ég líka og kvarta ekki. Ég hef alltaf séð um mig sjálfur og á eitthvað í handraðanum."

Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni og í þessari fjölskyldu hefur fiskimaðurinn leikið stórt hlutverk. "Chris fór í skóla og hefði getað lært það sem hann vildi því hann er mjög greindur," segir Bob. "Hann ætlaði að verða smiður en kom aftur og þá sagði ég honum að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Ef hann fyndi sig ekki í náminu gæti hann alltaf komið til mín í veiðarnar og vinnsluna. Hann fékk góða atvinnu í Winnipeg en leit yfir sviðið, kom til mín og sagði: "Pabbi. Ég sé á andlitum allra í vinnunni að þeim líkar ekki það sem þeir eru að gera. Það er ekki bros á neinum manni. Ég vil ekki vera í vinnu sem ég kann ekki við og vil frekar gerast fiskimaður." Ég sagði að aðalatriðið væri að vinna fyrir salti í grautinn og hann sagðist gera það sem fiskimaður. Hann ákvað að feta í fótspor okkar og er þegar orðinn mjög atkvæðamikill."

Og ekki bara í fiskveiðunum, vinnslunni og sölunni heldur líka í netasölu, rétt eins og pabbinn. "1964 eða 1965 var hætt að búa til net í Kanada og þá var byrjað að flytja þau inn frá Japan," segir Bob. "Áður hafði eitthvað verið flutt inn frá Skotlandi en japönsku netin voru miklu ódýrari. Ég fór að flytja þetta inn sjálfur og fljótlega kom í ljós að eftir því sem meira var keypt þeim mun hagstæðara var verðið. Allt í einu var ég orðinn umsvifamikill í netainnflutningi og farinn að selja net út um allt en ég vil að Chris taki alfarið við þessu. Netasalan er ágætis aukabúgrein en aðalatriðið í þessum viðskiptum eins og öðrum er traust og það hefur hann."

Fastir liðir

Veiði í Winnipegvatni er skipt í þrjú tímabil. Sumarvertíðin er frá 1. júní fram í miðjan júlí í suðurhluta vatnsins en til loka mánaðarins í norðurhlutanum. Haustvertíðin er frá 1. september til 31. október og vetrarvertíðin hefst eftir að ísinn leggur, í nóvember eða desember, og stendur til 31. mars.

Á hverjum vetrardegi vaknar Bob klukkan hálffimm að morgni, og hefur gert það í meira en hálfa öld. Klukkutíma fyrr á sumrin. Sigurrós, eiginkona hans, tekur til kaffi og ristar brauð, útbýr hann með nesti fyrir daginn. Kaffi og brauð með áleggi. Steiktur pickerel eða gedda fær að fljóta með á hátíðarstundum. Veðrið breytir engu um áætlanir dagsins. Þó frostið sé 40 gráður þarf að vitja netanna.

Sigurrós heitir í höfuðið á ömmu sinni og var Markusdottir en hún er frá Árnesi, sem er skammt fyrir norðan Gimli. Þau hittust í skólanum á Gimli og hún hefur fylgt Bob eftir síðan. "Hún hefur komið með mér um allt Winnipegvatn á öllum árstímum og hefur kynnst öllum bátum mínum. Vinnunni í hnotskurn. Öllum höfnum. Ég var forseti Sambands hafnastjórna á svæðinu í 11 ár og þurfti því að fylgjast grannt með gangi mála, en hún kom oft með mér."

Önnum kafinn

Bob er ekki aðeins fiskimaður heldur kemur að öllu sem viðkemur vinnslu og veiðum. Hann er í stjórn Ferskfiskmarkaðarins sem nær yfir Manitoba, Saskatchewan, Alberta og Norðvestursvæðið, er í stjórn Siðanefndar um ábyrgar fiskveiðar, forseti Samtaka veiðimanna á Winnipegvatni, hefur verið stjórnarmaður hjá Strandgæslu Kanada í 20 ár auk annarra félagsstarfa. "Það hefur verið nóg að gera í félagsstörfunum en þú verður að spyrja eiginkonuna hvernig ég fer að því að sinna þessu öllu saman með veiðinni og netasölunni. Netasalan hefur undið mikið upp á sig en konan tekur niður pantanir og ég vinn úr þeim þegar ég kem heim af vatninu á kvöldin. En ég reyni að forðast kvöldvinnu, því ég verð að fara snemma að sofa. Stundum verð ég að sleppa degi eða dögum á vatninu vegna stjórnunarstarfa en með góðu skipulagi hefst þetta allt saman. Reyndar er svarið við því hvernig ég fer að þessu einfalt. Þú getur gert allt sem þú vilt gera.

En á því er reyndar ein undantekning hvað mig varðar. Við hittum Jósafat Hinriksson á alþjóðaþingi um fiskveiðar í St. John's á Nýfundnalandi fyrir nokkrum árum og kynntumst honum og eiginkonu hans. Í kjölfarið héldum við sambandi með því til dæmis að senda jólakort og það stóð alltaf til að fara til Íslands og nota tækifærið og heimsækja þau í leiðinni. En svo hringdi konan og tilkynnti okkur andlát þessa mikla heiðursmanns og við höfum ekki enn farið til Íslands þó vilji hafi staðið til þess."

Þegar ákveðið var að taka hluta myndarinnar K-19; the Widowmaker, upp á ísnum á Winnipegvatni í byrjun mars var haft samband við Bob og hann beðinn um að sýna skipuleggjendum hvar helst kæmi til greina að vera með tökurnar. Farið var að ráðum hans en hann hafði ekki tíma til að flytja leikarana í snjóbíl fram og til baka meðan á tökum stóð og fékk Chris son sinn til að taka umbeðið verk að sér. "Þótt ég geti gert margt get ég ekki verið á tveimur stöðum á sama tíma."

Eftirlitið mikilvægt

En hann gaf sér tíma til að hitta Brian Tobin, fyrrverandi forsætisráðherra Nýfundnalands og ráðherra iðnaðarmála í stjórn Kanada síðan í haust sem leið, á ráðstefnu Frjálslynda flokksins á Gimli á dögunum. "Það er verið að draga úr öllum framkvæmdum og ég vil tryggja að eftirlit með skipum á vatninu verði áfram auk þess sem ég vil að dýpkunarframkvæmdir við hafnir hér og þar hefjist á ný. Víða er ekki hægt að nálgast staði við vatnið nema á báti eða á ísnum á veturna þar sem vegi vantar og því er mikilvægt að halda höfnunum við."

Andinn svífur yfir vötnunum og hugur Bobs er þar öllum stundum. "Veiðarnar hafa ekkert breyst en skipulagið er allt annað nú en áður. Áður unnu fiskimenn fyrir útgerðarfyrirtæki sem sáu um að koma fiskinum í verð en nú hefur Ferskfiskmarkaðurinn tekið yfir það hlutverk. Því eru allir veiðimenn einyrkjar. Ég sé um mitt og þú um þitt. Enginn er öðrum háður og hver fer út á vatnið á eigin ábyrgð. Áður voru menn ekki með talstöðvar og ef einhver skilaði sér ekki að landi var alltaf einhver sem vissi hvar hann var. Eftirlitið var í höndum okkar fiskimannanna. Að mörgu leyti er það þannig ennþá og alfarið á veturna en samskiptin eru ekki eins mikil og þau voru þegar félögin voru við lýði. Reyndar eru fiskimenn eins og sjálfstæðir kettir. Tveir fiskimenn geta varla talað saman nema klóra hvor í annan. Ég þarf ekki að segja þér neitt og þú hefur ekkert upp á mig að klaga. Svona er þetta úti um allan heim en kannski bara aðeins verra hérna. Hvað sem því líður þá vil ég hafa virkt eftirlit allt árið en næ ekki enn eyrum ráðamanna hvað það varðar."

Um 100 km akstur í vélsleðann

Skömmu fyrir dagsbirtu er mál að halda af stað. Bob leggur net sín sunnan við Mikley, öðru nafni Heklu, um 100 km fyrir norðan Gimli. Ekki eru margir á ferð svo árla dags en engu að síður þarf að aka varlega. Bæði vegna myrkurs og hálku og svo dýra sem hætta er á að skjótist yfir hraðbrautina hvenær sem er. Fyrst og fremst dádýra en einnig vegna svartbjarna eða skógarbjarna og elgs þegar norðar dregur. "Það eru ótrúlega mörg dádýr á þessu svæði en umferðin er lítil og á leiðinni gefst gott næði til að hugsa," segir fiskimaðurinn.

Þegar Íslendingar settust að við Winnipegvatn haustið 1875 voru helstu veiðisvæðin við Mikley og Bob hefur haldið sig þar að mestu leyti síðan. Rétt eins og faðir hans og afi á árum og öldum áður. Chris hefur aðeins brugðið út af vananum og leggur líka net í grennd við Gimli.

En Bob er farinn að draga saman seglin. Leggur um 100 stykki af um 90 metra löngum netum á veturna eftir að hafa verið með mest um 200 net, og er með tvo aðstoðarmenn. Chris notar tvo snjóbíla, er með fjóra aðstoðarmenn og leggur um 150 net. Heildarkvótinn á Winnipegvatni er um 13 milljónir punda. Fjölskyldan er með dágóðan kvóta, um 70.000 pund á hvítfiskveiðibátnum Lady Robertu, sem notaður er á sumrin, og svo kvóta fyrir bytturnar á vorin og haustin, auk vetrarkvóta. "Ég hef aldrei tekið þetta saman en ætli stórfjölskyldan sé ekki með kvóta upp á um 200.000 tonn á ári." Það er heldur meira en fyrstu íslensku landnemarnir veiddu fyrsta veturinn 1875 til 1876, en afrakstur þeirra var í fiskum talinn.

Veiðin er yfirleitt alltaf best í byrjun hvers tímabils en síðan dregur jafnt og þétt úr henni. "Fyrir okkur eru öll fiskveiðitímabil jafnmikilvæg. Aldrei er hægt að slá slöku við því ómögulegt er að segja til um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Veðrið á vatninu breytist eins og hendi sé veifað og sama á við um straumana og ísinn. Hér er aldrei á vísan að róa, en stöðugt verður að huga að netunum. Svo er það oft þannig að veiðin er best á kaldasta tímanum, hvort sem manni líkar það betur eða verr."

Gimli miðstöðin við vatnið

Bob hefur farið um allt fylkið og þekkir svæðið út í gegn. Þegar farið er framhjá Riverton rifjast upp gamlar minningar. "Þegar ég byrjaði að veiða var Riverton miðstöð veiðanna og athafnalífsins. Þar var bankinn og peningamálum var aðeins sinnt tvo daga í viku á Gimli. Allur fiskurinn kom hingað og hér endaði járnbrautin. Áður fyrr var hér ekkert nema skógur en frumherjarnir ruddu skóginn og plægðu akra. Lögðu óhemju vinnu í þetta hér, í Árborg, Víði, Geysi og víðar. Þetta var svo sannarlega erfitt líf hjá þessu fólki, en nú er Gimli miðstöðin við vatnið. Ég hef hvergi annars staðar viljað eiga heima enda er Gimli mjög miðsvæðis og stutt til Winnipeg. Og viljirðu komast úr kuldanum í meiri hita heldurðu bara áfram suður og alla leið til Texas."

Svo er að sjá og heyra að hann hafi svo sem ekki fleytt rjómann ofan af lífsbaráttunni. Svo slæmur í baki að hann verður að vera með sérstakt belti öllum stundum, en samt sem áður sjaldan tekið sér frí. "Frí eru fyrir gamalt fólk. Reyndar ætluðum við að skreppa til Texas í vetur en tengdasonur minn hefur verið alvarlega veikur og ég hef ekki viljað fara frá honum."

Glampi í Grindstone

Það kemur glampi í augu fiskimannsins þegar hann nálgast Grindstone, þar sem hann geymir snjóbílinn sinn, en Íslendingar hafa verið þekktir á svæðinu í 125 ár og Bob er greinilega stoltur af upprunanum. Fjölskyldan átti land þarna og bjó nánast í verbúðum um árabil en þegar Mikley var gerð að þjóðgarði 1969 var allt land tekið eignarnámi. "Þá byrjaði ég að veiða við Gimli en líkaði það ekki. Ég kunni alltaf miklu betur við mig við nesið (Litla-Hverfisteinsnes) hérna í norðurhluta Grindstone og við Svarteyju enda eru þetta hefðbundið veiðisvæði. Hér fyrir norðan eru engir bændur, aðeins fiskimenn, og svæðið er ótrúlega stórt. Vandmeðfarið og erfitt yfirferðar. Þessi þáttur, fiskveiðarnar, er að mörgu leyti einangraður frá öðrum þáttum mannlífsins. Til dæmis vita mjög margir í Manitoba mun meira um baðstrendur á Hawaii en norðurhluta Winnipegvatns. Reyndar vita fáir nokkurn skapaðan hlut um vatnið og umhverfi þess nema fiskimennirnir og ég hugsa að fólk á Íslandi átti sig ekki á þessum fjarlægðum og því síður á þeim erfiðleikum sem hafa fylgt því að búa hérna. En þrátt fyrir alla erfiðleikana tókst Íslendingum að halda tungumálinu, sem er langt því frá að vera öllum gefið. Þjóðarbrot alls staðar að úr heiminum hafa reynt þetta en mistekist. Hérna er nánast töluð íslenska í hverju húsi, en auðvitað er þetta ekki sjálfgefið og reyndar nær útilokað í bæjum og borgum. Við ætluðum að ala börnin okkar upp við íslensku en það gekk ekki og svo fór að við gáfumst upp á því og tölum bara ensku."

Þegar komið er fram í mars veit þessi samanrekni maður að nú fer hver að verða síðastur á vetrarvertíðinni en þó margir séu hættir þreyir hann þorrann og góuna. "Ég hef veitt hvítfisk við George-eyju hvert sumar í hálfa öld, byrjaði með afa 1949. Reynslan er dýrmætasti skólinn á vatninu, skólayfirvöld skilja ekki fiskveiðarnar og veiðin verður ekki lærð af bók heldur af öðrum. Ég væri sennilega löngu hættur ef Chris hefði ekki ákveðið að fara þessa leið en hann á ýmislegt ólært á stóru bátunum og ég get enn liðsinnt honum. Fiskveiðarnar verða ekki lærðar á einni nóttu heldur tekur mörg ár að ná tökum á þessu. Ungir og sprækir strákar vilja auðvitað fá sem mestan afla og byrja með því hugarfari, en það verður að fara að settum reglum. Aðeins veiða þegar má veiða og virða lífríkið, veiða ekki umfram eigin kvóta og gæta þess að ganga ekki á stofnana. Útlitið hefur reyndar verið nokkuð gott undanfarin tvö ár en veiðarnar snúast ekki um eitt ár eða tvö heldur mannsaldra. Það skiptast á skin og skúrir í þessu eins og öðru og lög og reglugerðir breyta því ekki. Sveiflurnar eru hluti af þessu. Lélegt hrygningarár getur haft áhrif í nokkur ár á eftir og ég hef oft séð það svart. Margir hafa gefist upp og snúið sér að öðru, en ég hef stappað í mig stálinu og eflst við hverja raun. Oft hef ég ekki orðið var og þá hef ég bara bitið á jaxlinn og haldið ótrauður áfram en komi ég nær tómhentur heim líta sumir, sem þekkja ekki vatnið, á mig undrunaraugum og spyrja hvort ekki sé lengur neitt að fá í vatninu, hvort það sé dautt. Það er það ekki, en vissulega er hætta á ferðum. Þetta er mikið vatnasvæði þar sem eitt rennur í annað og mengunarhættan er gífurleg."

Íslendingur, indjáni og Mexíkani

Einhvern tíma verður allt fyrst og það á við um fiskveiðar rétt eins og annað. Í sjálfu sér kemur ekki á óvart að cree-indjáni skuli vera hægri hönd Bobs við veiðarnar, því frumbyggjarnir kenndu Íslendingum að veiða í Winnipegvatni á sínum tíma og margir afkomendur þeirra kunna réttu handtökin. En að 19 ára piltur, Poncho Santos, frá Mexíkó skuli líka standa vaktina síðan í haust er að mörgu leyti ótrúlegt. Þó ekki væri nema vegna mjög ólíkra aðstæðna í Mexíkó og á Winnipegvatni. Ekki síst hitamunarins á veturna. "Hann hékk utan í strákunum á Gimli og vantaði vinnu, sagðist vilja fara á veiðar svo ég tók hann í vinnu. Hann á margt ólært en hafa ber í huga að það er ekkert auðvelt við veiðarnar á ísnum. Hann er ekki mannblendinn og segir fátt en veit hvað hann á að gera."

Raymond Favell er 32 ára og kemur vel fyrir. "Ég vildi verða fiskimaður eins og pabbi og reyndar fetuðum við allir fjórir bræðurnir í fótspor hans en ég byrjaði á fullu þegar ég var 16 ára," segir hann.

Þegar komið er að snjóbílnum þarf að flytja kör, net, nesti og fleira í hann úr trukknum. Fiskimennirnir eru vel klæddir en á þessari stundu, í dagrenningu í litlum lundi utan alfaraleiðar, er farið í snjógalla, fiskistígvél og sjóbuxur. Virðist annkannalegt að fara í gúmmíið í 20 stiga frosti eða meira en það er nauðsynlegt við veiðarnar á ísnum rétt eins og við aðrar fiskveiðar.

Skriðill uppfinning Íslendings í Vesturheimi

Winnipegvatn er 11. stærsta vatn heims, um 15.000 ferkílómetrar að stærð. Það er um 450 km að lengd og um 200 km að breidd þar sem það er breiðast. Dýptin er um 13,3 metrar að meðaltali í norðurhlutanum en um 9,7 metrar að meðaltali í suðurhlutanum.

Bob er ekki sama hvar hann leggur netin en hann er mikið á þröngu svæði milli Mikleyjar og Svarteyjar. En það er ekki sjálfgefið að komast þangað því vegna hitabreytinga og strauma myndast fyrirvaralaust tveggja til þriggja metra háir hryggir á ísnum og við þá eru gjarnan vakir. Því þarf að fara varlega, finna rétta staðinn og jafna út hrygginn svo snjóbíllinn komist yfir. Þeir gera þetta af yfirvegun og nákvæmni en að öðru leyti er ekkert að sjá á ísnum nema granna trjáboli sem Bob og félagar hafa stungið niður með vissu millibili til að auðkenna akstursleiðina. "Það er ekkert grín að vera hér í aftakaveðri, sjá ekki út úr auga. Við verðum að fara um það bil 12 mílur frá landi því nær er allt of mikill straumur undir metra þykkum ísnum. En við höfum altjént bílinn og hann auðveldar okkur bæði yfirferðina og vörnina gegn illviðrinu og kuldanum."

Úti á ísnum, þar sem byrja á að leggja netin, geymir Bob vélsleða og lítinn kofa á skíðum. Ennfremur undratækið skriðilinn (jigger á ensku), sem notaður er til að draga línu undir ísinn, en eftir að línan hefur verið dregin á milli tveggja afmarkaðra staða er netið sett niður á seinni staðnum og dregið til baka undir ísnum. Íslendingar hafa lært þessa tækni og hún er m.a. notuð á Mývatni en Bob segir að íslenskur fiskimaður við Manitobavatn hafi fyrst hannað gripinn. "Ég hef alltaf heyrt að einhver Arnason við Manitobavatn hafi fundið upp á þessari aðferð og búið til fyrsta "jiggerinn" en hver fiskimaður hefur sínar hugmyndir og býr til sinn eigin "jigger". Margir hafa beðið mig um að búa til fyrir sig "jigger" en það geri ég ekki frekar en nokkur annar. Fiskimenn eru sérvitrir og allir telja að sinn "jigger" sé sá besti. Því er hönnun hvers og eins vel varðveitt leyndarmál en hlutföllin eru yfirleitt svipuð. Reyndar hafa þeir verið að reyna að nota rafmagnstæki við þetta með misjöfnum árangri, því við ósléttur undir ísnum breyta þau um stefnu og hverfa eitthvað. Ég átti svona tæki en týndi því strax."

Verkin tala

Í birtingu er komið á áfangastað og þá þarf ekki að segja neinum fyrir verkum. Hver hefur sitt verkefni og menn ganga ákveðnir til verks. Engar samræður. Verkin tala.

Sprek er með í för og Poncho fer strax og kveikir upp í kabyssunni inni í skúrnum. Á snjóbílnum er sérstakur bor, sem Steve Sigurdson í Árnesi hannaði fyrir hálfri öld, og er hann drifinn áfram af vél bílsins. Áður var notast við handbora og einskonar járnkarla en það segir sig sjálft að tæknin auðveldar lífið á ísnum. Bob gerir borinn kláran og Raymond sest við bensíngjöfina. Bob stýrir bornum í gegnum ísinn og þegar hann er kominn í gegn hreinsar Poncho gatið, sem er um hálfur metri í þvermál. Bob stingur skriðlinum undir ísinn og fylgir vel á eftir. Það er ekki eins auðvelt að koma skriðlinum undir þykkan ísinnn og halda mætti. Skriðillinn verður líka að snúa rétt, í austur, vestur á þessum stað, og þrátt fyrir gúmmíbúnaðinn kemst Bob ekki hjá því að blotna. En til að halda þæfðum ullarvettlingunum þurrum sem lengst tekur hann þá af sér meðan hann stingur höndunum ofan í ískalt vatnið. Ef einhvers staðar er hætta á kali er það við þessar aðstæður.

Þegar skriðillinn er kominn á sinn stað tekur Raymond sér stöðu við gatið. Við skriðilinn eru tengdar tvær línur. Önnur sem netið er fest í og hin til að koma skriðlinum áfram, láta hann skríða undir ísnum með því að toga í línuna og sleppa. Við það færist járnhak upp undir ísinn og þegar togað er í fer skriðillinn í gagnstæða átt.

Nauðsynlegt að hlusta

Línan í skriðlinum er um 100 metra löng en netið um 90 metrar. Bob gengur frá gatinu í sömu átt og skriðillinn stefnir. Stöðvar af og til og hlustar eftir því hvort hann sé ekki á réttri leið. Ekkert heyrist úti á ísnum nema tikkið í hakinu. Það gefur til kynna hvar skriðillinn er og svona gengur þetta fyrir sig þar til skriðillinn fer ekki lengra. Þá þarf að finna nákvæmlega hvar hann er og það gerir Bob með því að hlusta. Síðan fer hann um það bil þrjá metra til baka og þar skal borað. Raymond kemur með snjóbílinn og Poncho á vélsleðanum og þeir skipta með sér verkum sem fyrr. Þegar Bob hefur borað gatið nær hann í tveggja metra langan krók á skafti, stingur honum niður í vatnið og kemur upp með línuna. Finnur einhvern veginn á sér hvar hún er. Þeir binda netið við, Bob og Poncho leggjast á hnén og greiða úr netinu en Raymond fer á vélsleðanum að hinu gatinu og dregur netið undir ísinn. Það nær átta metra niður og þar er komin skýringin á því hvers vegna landnemunum gekk svo illa við veiðarnar í byrjun. Þeir voru á grynningum upp við land og festu net sín í botni auk þess sem net þeirra voru ekki af réttri gerð og stærð.

Líður hvergi betur

Kyrrsetufólk fær bakverk fyrst og fremst af rangri stöðu og hreyfingarleysi en þessir kappar eru meira og minna bognir allan daginn án þess að kvarta. "Þessi hreyfing, gangan og önnur handbrögð, heldur mér ungum en ég neita því ekki að ég er alveg búinn á kvöldin," segir Bob.

Við holurnar eru settar stengur og netin bundin við til að hægt sé að ganga beint að þeim þegar vitjað er um þau en það gengur reyndar ekki alltaf eftir. "Stundum er veðrið þannig að ekki sést á milli stanga. Þá getur verið erfitt að finna netin og enn erfiðara að leggja ný."

Það tekur um það bil hálftíma fyrir þrjá menn að leggja hvert net og þegar þrjú eru komin undir ísinn er kominn tími til að setjast inn í skúrinn og fá sér kaffi og brauð. Vettlingarnir eru þurrkaðir á kabyssunni og forsteikt geddan hituð á plötunni. Hún er góð og bragðast sennilega hvergi betur en á sjálfum veiðistaðnum, þó sumum finnist eflaust skrýtið að fá sér steiktan fisk fyrir klukkan tíu að morgni. "Mér líður hvergi betur en hérna á ísnum," segir Bob. "Hér á ég heima."

Á 12. tímanum er búið að leggja átta net og þá er kominn tími til að vitja annarra við Svarteyju. Borinn notaður sem fyrr en allt gengur mun hraðar fyrir sig. Poncho nær í plasthlíf og setur hana við holuna en síðan er netið dregið yfir hlífina. Í fyrsta netinu eru um 40 pund af geddu. "Þetta er mjög gott á þessum stað á þessum tíma," segir Bob.

Þeir eru um stundarfjórðung að greiða fiskinn úr netinu. Uppistaðan er gedda á þessum árstíma, en eitt og eitt gullauga, eins og Vestur-Íslendingar kalla goldeye en Gunnar Jónsson á Hafrannsóknastofnun vill nefna gullglyrnu eða mánaglyrnu, kemur í netin. Auk þess ýmiss konar meðafli sem er hent jafnharðan á ísinn fyrir fuglana. "Það er enginn markaður fyrir þessar tegundir og því ekki til neins að hirða fiskinn," segir Bob en bætir við að sárt sé að fleygja matnum. "Ekki síst þegar dagurinn borgar sig ekki."

Vinnan gefur mikið

Dagur er að kvöldi kominn og tími til að halda heim. Ísinn hefur breytt sér frá því um morguninn og örðugt reynist að fara yfir á sama stað. Ísinn hreinlega gefur sig undan snjóbílnum en engin hætta er samt fyrir hendi - Bob ekur bílnum af öryggi áfram af brotinu yfir á meginísinn. "Það er aldrei hægt að treysta ísnum," segir hann. "Þess vegna förum við alltaf út úr bílnum við hrygginn og skoðum stöðu íssins beggja vegna. Þegar mjög kalt er í veðri getur ísinn opnast fyrirvaralaust rétt eins í jarðskjálfta og aldrei er of varlega farið."

Lífsgleði skín úr andliti fiskimannsins að loknum hverjum degi á vatninu. "Aflinn dags daglega skiptir engu í sjálfu sér. Aðalatriðið er að þessi lífsmáti, þessi vinna, hefur gefið mér mikið. Vissulega hefði ég getað tekið mér margt annað fyrir hendur og sennilega efnast mun meira miðað við afraksturinn og erfiðið sem ég hef lagt í veiðarnar. Stundum er spurt hvort fólk myndi lifa lífinu eins og það hefur gert hafi það tækifæri til að spóla til baka. Auðvitað er bjánalegt að velta þessu fyrir sér því það er ekki í mannlegu valdi að fara aftur í tíma en hvað sem því líður þá vildi ég verða fiskimaður á sínum tíma og þrátt fyrir áföll og mótlæti hef ég aldrei iðrast vals míns. Aldrei. Menn velja sér atvinnu og ætli þeir sér að ná árangri verða þeir að leggja sig alla fram við það sem þeir gera. Hugsanlega þarf maður að vera orðinn gamall til að skilja þetta. Þá horfir maður til baka og spyr sjálfan sig: Hvað hef ég gert allan þennan tíma og hvað varð um allan þennan tíma? En það þýðir ekki að reyna að hafa vit fyrir unga fólkinu. Það hlustar ekki á þig, ekki frekar en áður. Pabbi reyndi að segja mér hvað ég átti að gera. Hann vildi að ég færi í skóla, ynni fyrir ríkisstjórnina, gerði þetta eða hitt. Ég hlustaði ekki og varð fiskimaður. Í Bresku-Kólumbíu segir fólk: "Sjáðu fjöllin. Eru þau ekki dásamleg." Tengdafaðir minn er 100 ára og var bóndi eins lengi og hann gat. Hann sat oft við eldhúsgluggann, horfði á kornið vaxa fyrir utan og sagði hvað það væri fallegt að sjá það sveiflast í golunni. Ég fer út á vatnið og engu máli skiptir hvort það er ísi lagt eða öldum vafið. Í mínum huga er Winnipegvatn það fallegasta sem til er, hvernig sem það er. Það er sem segull, dregur þig að sér við allar aðstæður. Sumarvertíðin er löng og að henni lokinni segja margir að nú sé komið nóg. "Hingað kem ég aldrei aftur" heyrist víða. En hverjir eru fyrstir að mæta til leiks á næstu vertíð? Sömu menn. Þessu má líkja við barnsburð. Eftir erfiða fæðingu segir móðirin gjarnan að þetta geri hún ekki aftur en ekki líður á löngu þar til hún hefur gleymt verkjunum. Vatnið hefur sömu áhrif."