Þegar rætt er við fiskimenn á Winnipegvatni leynir sér oft ekki að flestir vilja veiða eins mikið og þeir geta án utanaðkomandi afskipta. En Bob leggur áherslu á ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar.

Þegar rætt er við fiskimenn á Winnipegvatni leynir sér oft ekki að flestir vilja veiða eins mikið og þeir geta án utanaðkomandi afskipta. En Bob leggur áherslu á ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar. Þegar stjórn Ferskfiskmarkaðarins í Winnipeg bað fiskimenn um að stöðva veiðar í fimm daga haustið 1999 meðan verið væri að vinna úr uppsöfnuðum birgðum og koma þeim í verð urðu margir fiskimenn æfir. Fram kom að þó fiskimenn mættu selja fiskinn sjálfir færi langmestur hluti aflans í gegnum markaðinn og tap hvers og eins næmi um 1.000 dollurum á dag, um 57.000 kr., vegna veiðibannsins. Bob er í stjórninni og hann sagði á þessum tíma að vissulega væri slæmt fyrir fiskimenn að geta ekki veitt en enn verra væri að fleygja fyrirliggjandi afurðum, því þá yrði tap þeirra enn meira.

Ekki fer á milli mála að orð og athafnir Bobs vega þungt. Eftir að hafa kynnst manninum kemur því ekki á óvart að hann hafi verið einn af fjórum fiskimönnum, sem voru heiðraðir sérstaklega í fyrra fyrir ábyrgar fiskveiðar í Kanada. Landstjóri Kanada hefur í 10 ár veitt árlega Romeo LeBlanc verðlaunin í þessu skyni og er einn fiskimaður tilnefndur frá vesturströnd landsins, annar frá austurströndinni, sá þriðji frá norðurhéruðunum og sá fjórði frá miðfylkjunum Ontario, Manitoba, Saskatchewan, Alberta og Norðvestursvæðinu. "Fiskveiðar hafa haldið lífi í fólki hér kynslóð eftir kynslóð og það segir sig sjálft að ef ekki á illa að fara verður að stunda ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar. Ég hef atvinnu af fiskveiðum rétt eins og pabbi og afi áður og geri mér grein fyrir mikilvægi veiðanna en ánægjulegt er að stjórnvöld skuli viðurkenna mikilvægi veiðanna með afkomu þjóðarinnar í huga. Þegar Íslendingarnir settust hér að veiddu menn fyrst og fremst í soðið en nú eru mikil viðskipti með fisk."

Bob er harður nagli og lætur greinilega ekki segja sér fyrir verkum. "Eftir að ég hafði verið tilnefndur komu tvær konur úr nefndinni til mín í þeim tilgangi að skrifa ræðu fyrir mig sem ég átti að flytja við afhendinguna. Ég er þekktur fyrir að vera með munninn fyrir neðan nefið og þær óttuðust að ég segði eitthvað sem kæmi sér illa. Ég þakkaði gott boð en sagðist ekki láta skrifa neina ræðu fyrir mig. "Ég veit hvað ég segi þegar ég stend upp," sagði ég við þær. Þegar ég tók við verðlaununum sagði ég meðal annars við stjórnendur fiskveiðimálanna að þeir hefðu eyðilagt fiskimiðin í úthöfunum þrátt fyrir að fara aðeins 200 mílur út fyrir landsteinana. Ég fiskaði hins vegar í stærsta hafi heims, 3.000 mílna svæði, og færi að öllu með gát. En þessi verðlaun eru fyrst og fremst viðurkenning á fiskveiðunum og skipta okkur hér í miðfylkjunum sérstaklega miklu máli. Fiskimenn geta nánast veitt óhindrað við strendur Kanada allt árið en við verðum að halda að okkur höndum á ákveðnum tímum á hverju ári. Á fundum bendi ég oft á að menn verði að átta sig á því að í raun er bara um tjarnir að ræða og munurinn felist í því að tjarnirnar við strendurnar eru stærri en okkar. Fyrr eða síðar verði menn að læra að umgangast þessar tjarnir með virðingu, haga veiðunum í samræmi við það og ganga ekki á stofnana. Það er ekki hægt að veiða fisk umhugsunarlaust og til dæmis er bannað að veiða í suðurhluta Winnipegvatns frá apríl þar til hrygningu lýkur í júní. Þessari reglugerð var komið á fyrir meira en 30 árum og er mikilvægasta aðgerð sem um getur í sögu veiðanna á vatninu. Þetta er það besta sem Kanadíska ferskvatns-rannsóknastofnunin í Winnipeg hefur gert. Áður var of lítið til skiptanna fyrir allt of marga fiskimenn. Menn eru að upplifa það sama við austur- og vesturströndina um þessar mundir og gera sér grein fyrir að svona gangi þetta ekki áfram. Umfram allt geta menn ekki leyft sér að veiða fisk á hrygningartímanum með framtíðina í huga."