UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ hefur í tilraunaskyni opnað tvö "vefsendiráð", þ.e. vefsetur fyrir sendiráð Íslands í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, þótt þar séu engar sendiráðsskrifstofur.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ hefur í tilraunaskyni opnað tvö "vefsendiráð", þ.e. vefsetur fyrir sendiráð Íslands í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, þótt þar séu engar sendiráðsskrifstofur. Utanríkisráðuneytið segir að vefnotkun sé mikil í þessum löndum og þess sé að vænta að þetta sé hagkvæm leið til þess að vekja athygli á landi og þjóð.

Þessi vefsendiráð tengjast því að Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra opnaði nýja vefi fyrir íslensk sendiráð, fastanefndir og sendiráðsskrifstofur. Nokkur sendiráð hafa um langt árabil rekið eigin vefsetur, m.a. sendiráðin í Washington, Helsinki, Brussel, Berlín og Moskvu. Útlit flestra vefsetranna hefur nú verið samræmt og bætt hefur verið við miklu af upplýsingum um Ísland og íslensk málefni.

Á vefsetrunum eru einnig hlekkir í vefsetur stofnana, samtaka og fyrirtækja sem tengjast Íslandi. Veffang almennrar inngangssíðu fyrir utanríkisþjónustuna er www.iceland.org og er vísað til hennar á nýju vefsetri Stjórnarráðs Íslands, sem var opnað 22. mars.

Meginkaflar vefjanna eru þessir: Land og náttúra, þjóð og saga, menning og vísindi, ferðamenn og frístundir, viðskipta- og efnahagsmál og utanríkismál.