FRAMTÍÐ Þjóðhagsstofnunar mun skýrast eftir helgi en þá verður farið yfir málin með starfsmönnum stofnunarinnar, að sögn Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.

FRAMTÍÐ Þjóðhagsstofnunar mun skýrast eftir helgi en þá verður farið yfir málin með starfsmönnum stofnunarinnar, að sögn Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Hann sagði að fulltrúar Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og Hagstofunnar hefðu ekki átt formlegan fund um framtíð Þjóðhagsstofnunar án forstjóra hennar enda hefði aldrei verið ákveðið að stofna formlega nefnd eða starfshóp um málið.

Í Morgunblaðinu í gær fullyrti Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, að það hefði verið gert. Hann sagðist jafnframt hafa fengið það staðfest að hún hefði komið saman án hans vitneskju, þó hann hafi átt að eiga sæti í henni.

Ólafur sagði að það hefði einfaldlega verið talað um það að haft yrði samband við þær stofnanir sem kæmu að málinu. Það hefði verið gert og Þjóðhagsstofnun og forstjóri hennar hefðu sett fram sín sjónarmið líkt og aðrir.

"Þetta hefur síðan verið í vinnslu í ráðuneytinu og haft hefur verið samband við menn til að fá nánari útskýringar og átta sig betur á því hvernig best væri að standa að endurskipulagningunni. Það hefur því enginn hópur komið sérstaklega saman án forstjóra Þjóðhagsstofnunar."

Ólafur sagði að starfsmönnum Þjóðhagsstofnunar yrði öllum boðið starf annars staðar, ef stofnunin yrði lögð niður.