Undanfarið hefur verið heldur rólegt í skólanum en nú fjölgar ört nemendum sem stefna að því að vera hér frá þremur vikum og upp í tíu mánuði. Jóhanna Kristjónsdóttir segir að það sé afskaplega misjafnt hvernig nemendum gengur að aðlagast lífinu í Sanaa.

MEGNIÐ af þessum nýju nemendum kemur frá Evrópu og þýskumælandi nemendur hafa verið fyrirferðarmiklir. En sumum þeirra þykir Jemen ekki mjög skemmtilegt við kynni og hafa kannski ekki hirt um að lesa sér nægilega til áður en þeir ákváðu vist hér. Því eins og ég hef tekið fram í pistli áður er næturlíf lítið, nokkrar skorður við ferðum út úr borginni og svo það sem mest fer í taugarnar á sumum, sem sagt áðurnefndar byggingaframkvæmdir sem standa yfir og ekki sér fyrir endann á.

Tvær þýskar dömur sem komu nýlega í sumarfrínu sínu voru orðnar svo hrjáðar af höfuðkvölum vegna hávaðans að þær hótuðu öllu illu og önnur flaug reyndar á braut eins fljótt og auðið var. En skólastjórinn og skólanefndin komust í hið mesta uppnám eins og skiljanlegt er, það var efnt til fundar með óánægðu nemendunum og lofað bót og betrun og afslætti og ég veit ekki hvað. Við hinar sem höfum látið okkur hafa hávaða og lifað af menningarsjokkið sem óhjákvæmilega kemur þegar búið er hér til langframa, njótum svo góðs af öllu saman og fáum afslátt líka.

Tólf sagnorðaflokkar til rannsóknar

Nú hef ég sem sagt verið að puða við að læra arabísku tvo heila vetur í Kaíró og Damaskus, hluta úr vetri til viðbótar í Damaskus og svo þessa þrjá mánuði hér og nú er loksins tímabært að leiða mig í allan sannleika um flokkun sagna í tungumálinu. Ef menn skyldu ekki vita það eru flokkarnir tólf talsins og þeir eru allir mismunandi í útliti. Ég hafði heyrt utan að mér að það væri dálítið flókið mál að fást við suma þessara flokka en óraði þó ekki fyrir ósköpunum sem nú dynja yfir mig dag hvern.

Það er bótin að kennarinn minn er þolinmóður þegar ég reyni að beita ályktunargáfunni og segja honum í hvaða flokki þessi eða hin sögnin er. Ég er ekki komin nema í 8. flokk og stundum platar hann mig og dregur upp sögn sem ég hef enn ekki lært að flokka. Og hlær svo hrossahlátri og við skemmtum okkur bæði.

En það mega sagnorðin eiga að þegar að því kemur að mér hefur tekist að átta mig á þessu er ég nokkuð vel sett, sagnorðalega séð, því sem betur fer eru mjög fáar sagnir verulega óreglulegar. En það er ekki veruleg huggun í því í augnablikinu meðan mér er ljóst að enn er slatti af flokkum órannsakaður og ég ruglast stöðugt í öllu saman.