ÞAÐ er ekki ofsögum sagt af því, hvernig við íslenskar húsmæður skörum framúr á flestum sviðum og styðjum þá sem leggja land undir fót. Hér á ég við Bónus-feðga, sem ætla nú að gera garðinn frægan beggja vegna Atlantshafsins, í Bandaríkjunum og í Evrópu.

ÞAÐ er ekki ofsögum sagt af því, hvernig við íslenskar húsmæður skörum framúr á flestum sviðum og styðjum þá sem leggja land undir fót. Hér á ég við Bónus-feðga, sem ætla nú að gera garðinn frægan beggja vegna Atlantshafsins, í Bandaríkjunum og í Evrópu. Bónus-dollar verslanir fyrir vestan ganga svo vel að þeir reikna með að kaupa yfir 400 verslanir. Vil ég þess vegna skora á íslenskar húsmæður að herða nú róðurinn og sameinast um að kaupa nú betur í Bónus og styðja við bakið á þeim feðgum. Hvernig gætu þeir öðruvísi verið samkeppnisfærir í Bandaríkjunum, en þar er matvara 30-50% ódýrari en hér á Fróni. Getur verið að úr pyngju okkar séu komnir möguleikar þeirra til þessa að stórgræða? Við verðum að vænta þess að verð lækki á okkar nauðsynjum þegar vel fer að ganga hjá þeim utanlands. Þess vegna vil ég leyfa mér, meðan ég og aðrir bíða þess að sá tími renni upp, að kalla þá "geisla-baugs-feðga" og um hugann fer að "bráðum komi betri tíð með blóm í haga".

Húsmóðir.

Eignarskattur og fasteignagjöld

MIKIL hækkun hefur átt sér stað á eignarskatti og fasteignagjöldum. Þessi gjöld hafa hækkað um 40% á síðustu tveimur árum og kemur hart niður á eldra fólkinu og gerir því ókleift að búa í eigin húsnæði. Ráðamenn þjóðarinnar tala um að gera fólki kleift að búa sem lengst heima, en með þessum hækkunum er það ekki hægt.

Eldri borgari.

Þakkir fyrir grein

RÖGNVALDUR hafði samband við Velvakanda og vildi þakka fyrir grein í Umræðunni í Morgunblaðinu 20. mars sl. Þessi grein er eftir Halldór Þorsteinsson og kemst hann vel að orði í sambandi við Davíð Oddsson og Halldór Blöndal. Vill hann benda fólki á að lesa þessa grein.

Kannast einhver við vísuna?

KANNAST einhver við þessa vísu, hver orti hana og hvort hún sé lengri? Nú liggur þú dropi í lófa mínum/ og lát mig heyra af ferðum þínum./ Þú hafðir áður vökvað blómin við bæinn/ svo breyttirðu þér í lækinn sem rann út í sæinn. Ef einhver getur gefið einhverjar upplýsingar vinsamlega hafið samband í síma 487-8262.

Byggð í Vatnsmýrinni

KONA hafði samband við Velvakanda og vildi benda á það, að ef það yrði byggt í Vatnsmýrinni 10.000 manna byggð þyrfti að leggja nýjan, breiðan og góðan veg því Hringbrautin taki ekki við allri þeirri umferð, sem fer um hana daglega, hvað þá ef fleiri þúsund bílar bættust við á dag.

Strætisvagnamiðar fyrir öryrkja

ÖRYRKI hafði samband við Velvakanda og vildi lýsa yfir óánægju sinni með strætisvagnamiða fyrir öryrkja. Vill hann hafa þá ljósari á lit og þykkari því það sé mjög erfitt að ná þeim í sundur og þeir séu of dökkir.

Dagskrá sjónvarpsins

ÁSRÚN hafði samband við Velvakanda og vildi koma því á framfæri að hún væri óánægð með dagskrána í sjónvarpinu. Henni finnst að þeir mættu bæta sig og sýna betri myndir á föstudagskvöldum, t.d. dýralífsmyndir eða náttúrulífsmyndir. Of mikið sé af endurtekningum.

Gullarmband tapaðist á Akureyri

TAPAST hefur gullarmband með múrsteinsmynstri á Akureyri. Fundarlaun. Uppl. í síma 462-3777.

Kalí vantar heimili

KALÍ er verðlauna síamskisa og vantar gott heimili af sérstökum ástæðum. Vinsamlega hafið samband í síma 565-9722.