William Hague
William Hague
WILLIAM Hague, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, er óvinsæll vegna þess að hann er "sköllóttur og með skrýtinn hreim", að sögn eins af flokksbræðrum hans á þinginu.

WILLIAM Hague, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, er óvinsæll vegna þess að hann er "sköllóttur og með skrýtinn hreim", að sögn eins af flokksbræðrum hans á þinginu.

Tim Loughton, talsmaður flokksins í umhverfis- og samgöngumálum, sagði í viðtali á pólitísku vefsíðunni YouGov.com í gær að skallinn og norður-enskur hreimur Hagues væru helstu ástæður þess að margir fjölmiðlar í Bretlandi hæddust að honum. "Fyrir marga sem skrifa pólitískar ritstjórnargreinar er auðvelt að gera grín að þessu," sagði Loughton.

Hague er frá Rotherham í Suður-Yorkshire og fjölmiðlarnir hafa oft gert grín að eintóna rödd hans og íhaldssömum klæðaburði. Þrátt fyrir erfiðleika bresku stjórnarinnar vegna gin- og klaufaveikifaraldursins benda skoðanakannanir til þess að Hague hafi ekki tekist að auka vinsældir sínar.

Þingmaður ávíttur

Hague neyddist á dögunum til að ávíta annan þingmann Íhaldsflokksins, John Townsend, vegna ummæla hans um innflytjendur. Townsend sagði í ræðu að innflytjendur hefðu grafið undan "einsleitu samfélagi engilsaxa".

Flokksleiðtoginn var fljótur að fordæma þessi ummæli. "Þau eru algjörlega óviðunandi og ég vísa þeim á bug," sagði Hague, sem hefur undirritað yfirlýsingu breskra stjórnmálaflokka um að ala ekki á kynþáttafordómum í kosningabaráttunni.

Hague hefur hins vegar gagnrýnt stjórn Verkamannaflokksins fyrir að hafa ekki gert nægar ráðstafanir til að stemma stigu við straumi fólks sem leitar hælis í Bretlandi.

London. Reuters.