ÖRN Hrafnkelsson sagnfræðingur heldur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 3. apríl sem hann nefnir "Að lesa Þjóðólf í Timbuktu: Um stafræna endurgerð dagblaða".

ÖRN Hrafnkelsson sagnfræðingur heldur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 3. apríl sem hann nefnir "Að lesa Þjóðólf í Timbuktu: Um stafræna endurgerð dagblaða". Fundurinn fer fram í stóra sal Norræna hússins, hann hefst kl. 12.05 og lýkur stundvíslega kl. 13. Fundurinn er öllum opinn.

Í fyrirlestrinum mun Örn kynna verkefni sem unnið er að innan Landsbókasafns Íslands - háskólabókasafns þar sem ætlunin er að setja út á Netið öll íslensk blöð og tímarit sem gefin voru út hér á landi fram til 1910. Blöðin verða þar sýnd sem myndir og texti þeirra verður gerður leitarbær og innihald þeirra verður skráð. Í tengslum við verkið verður einnig búinn til leitarbær bókfræðigrunnur fyrir íslensk blöð og tímarit fyrri alda. Tilgangurinn með verkefninu er að gera íslensk blöð og tímarit fyrri tíma aðgengilegri hvaðan sem er og að bjóða upp á beinni aðgang að innihaldi þeirra.

Örn Hrafnkelsson er MA í sagnfræði og starfar sem bókavörður í þjóðdeild við Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn.