SKÆRULIÐAR tamíla-tígranna svokölluðu, sem vilja sjálfstætt ríki tamíla á Sri Lanka, tilkynntu fyrir síðustu helgi, að þeir myndu framlengja einhliða vopnahlé um einn mánuð en hótuðu því jafnframt að aflýsa því fyrr ef ríkisstjórnin brygðist ekki vel við...

SKÆRULIÐAR tamíla-tígranna svokölluðu, sem vilja sjálfstætt ríki tamíla á Sri Lanka, tilkynntu fyrir síðustu helgi, að þeir myndu framlengja einhliða vopnahlé um einn mánuð en hótuðu því jafnframt að aflýsa því fyrr ef ríkisstjórnin brygðist ekki vel við vopnahléstilboðinu. Í yfirlýsingu frá "Frelsissamtökum tamíla-tígranna" (LTTE) segir að þriðja framlenging vopnahlésins til 24. apríl gefi Norðmönnum svigrúm til að gera frekari tilraunir til að telja deilendur á að nálgast samningaborðið.

Norski erindrekinn Erik Solheim hefur að undanförnu átt marga fundi með fulltrúum stjórnvalda í Colombo og tengilið tamíla í Lundúnum og þykir það gefa vísbendingar um að eitthvað hafi miðað í sáttaumleitunum. Vopnuð barátta tamíla á norður- og austurhluta Sri Lanka fyrir aðskilnaði hefur staðið yfir látlaust í 18 ár og skilið um 64.000 manns eftir í valnum.

Colombo. Reuters.