ÞYRLUR Ísraelshers gerðu árásir á stöðvar lífvarðarsveita Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, í Ramallah á Vesturbakkanum og sex stöðum á Gaza-svæðinu á miðvikudag. Karlmaður og kona biðu bana og 60 særðust.

ÞYRLUR Ísraelshers gerðu árásir á stöðvar lífvarðarsveita Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, í Ramallah á Vesturbakkanum og sex stöðum á Gaza-svæðinu á miðvikudag. Karlmaður og kona biðu bana og 60 særðust. Stjórn Ísraels sagði að árásirnar hefðu verið réttlætanlegar þar sem embættismenn Arafats væru viðriðnir starfsemi hermdarverkamanna.

UM 1.900 tonn af olíu fóru í sjóinn eftir árekstur olíuskips og flutningaskips suðvestur af eynni Mön í Danmörku aðfaranótt fimmtudags. Fyrstu olíuflekkirnir náðu ströndum Danmerkur á föstudag og fréttir bárust af dauðum fuglum. Er þetta eitt mesta mengunarslys í sjó við strendur Danmerkur.

ÁHRIFA gin- og klaufaveikifaraldursins tók að gæta víðar á mánudag þegar Rússar bönnuðu innflutning á kjöt- og mjólkurafurðum frá Evrópulöndum. Rússar létu bannið einnig ná til allra fiskafurða.

TIL átaka kom á þriðjudagskvöld milli lögreglu og þýskra kjarnorkuandstæðinga sem reyndu að hindra för járnbrautarlestar er flutti geislavirkan úrgang frá endurvinnslustöð í Frakklandi á geymslustað í Gorleben í Þýskalandi. Úrgangurinn komst þó á áfangastað daginn eftir.