Vigfús Baldvin Heimisson æfir þessa dagana fyrir Norðurlandamótið í pípulögnum.
Vigfús Baldvin Heimisson æfir þessa dagana fyrir Norðurlandamótið í pípulögnum.
VIGFÚS Baldvin Heimisson verður fyrsti Íslendingurinn til að keppa í pípulögnum á alþjóðlegum vettvangi en hann mun keppa á Norðurlandamótinu í pípulögnum 21 árs og yngri sem fram fer í Kaupmannahöfn dagana 16.-18. maí næstkomandi.

VIGFÚS Baldvin Heimisson verður fyrsti Íslendingurinn til að keppa í pípulögnum á alþjóðlegum vettvangi en hann mun keppa á Norðurlandamótinu í pípulögnum 21 árs og yngri sem fram fer í Kaupmannahöfn dagana 16.-18. maí næstkomandi.

Vigfús, sem er 21 árs, er að læra pípulagnir í Borgarholtsskóla en að hans sögn æfir hann í Iðnskólanum í Hafnarfirði fyrir mótið. Þessi keppni er haldin árlega en þetta verður í fyrsta sinn sem Íslendingur tekur þátt. Annað hvert ár er svo heimsmeistarakeppnin í pípulögnum haldin og þangað fara þeir fyrir hönd Norðurlandanna sem sigrað hafa í Norðurlandamótunum.

Sexhyrnd herbergi

Vigfús segir keppnina fara þannig fram að keppendur eiga að leggja pípulagnir í herbergi sem eru hlið við hlið. Herbergin eru sexhyrnd og þannig úr garði gerð að dómarar geta gengið á milli þeirra og skoðað árangurinn, þannig að um einskonar svið er að ræða. Þá fá keppendurnir ákveðin tímamörk sem þeir verða að standast en enginn plús er gefinn fyrir að vera búinn fyrr en tímamörkin renna út. "Mér skilst að tíminn sé alltaf notaður í botn," segir Vigfús. "Svo er dæmt eftir því hvernig rörin eru, hvort festingar og annað sé á réttum stöðum og hvort allt sé eftir bókinni. Svo er það besta lausnin eða besta útfærslan sem vinnur."

En er Vigfús í stífri þjálfun fyrir keppnina? "Ég segi það nú ekki, bara svona eins og ég get," segir hann hógvær en játar því að eflaust verði keppinautarnir harðir í horn að taka. Engu að síður leggst keppnin vel í kappann enda einn og hálfur mánuður til stefnu til æfinga.