[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alfa Romeo 147 er fáanlegur þrennra og fimm dyra með 1,6 og 2,0 lítra vélum. Hér segir Guðjón Guðmundsson frá 2,0 lítra bílnum með rafeindastýrðri beinskiptingu, Selespeed.

ÍSTRAKTOR í Garðabæ hefur fengið fyrstu tveggja lítra útgáfuna af Alfa Romeo 147 með Selespeed-gírskiptingu. Sagt var frá bílnum með 1,6 lítra vélinni, með og án hins breytilega ventlastýringarbúnaðs, og í vikunni gafst kostur á að prófa 2ja lítra bílinn.

Það þarf ekki að fjölyrða um útlitið, svo mörgum fögrum orðum sem farið hefur verið um það. Bíllinn sem fékkst til prófunar var með aukabúnaði sem fólst í rafdrifinni sóllúgu, ljósu leðri á sætum sem var í skemmtilegri þversögn við svart mælaborðið, og málmlit. Að öðru leyti er hann hlaðinn búnaði, svo sem sex líknarbelgjum, hraðastilli, tvívirkri, sjálfvirkri miðstöð, góðum hljómflutningstækjum, aftengjanlegri spólvörn, ABS-hemlakerfi með hemlunarátaksdreifingu og skrikvörn sem spilar saman við ABS-kerfið og dregur úr afli og beitir hemlum þegar bíllinn skrikar í beygjum. Í þessum búningi og með tveggja lítra vélina er bíllinn orðinn að litlum lúxussportbíl sem vekur athygli hvar sem hann fer.

Vélin er með tveimur kveikjum á hvern strokk, TSpark, eins og Alfa kallar það, og skilar að hámarki 150 hestöflum. Þetta er, eins og vænta mátti, öflug og þrælskemmtileg vél, og er tengd um fimm gíra kassa í framhjólin. Bíllinn er kvikur í stýri og liggur vel og er uppstilltur fyrir hraðan og skemmtilegan akstur. Vélin gefur frá sér sportlegt hljóð við inngjöf en bíllinn er sem fyrr vel einangraður, jafnt fyrir vélar- og veghljóðum.

En það er gírskiptingin sem mesta athygli vekur. Selespeed er í raun og veru handskipting með rafeindastýrðri kúplingu. Engin kúplingsfetill er í gólfinu heldur sér örtölva um að opna og loka fyrir kúplinguna eftir þörfum. Skipt er um gíra með því að hnika til gírstönginni, eins og menn þekkja á step- eða tiptronic-skiptingum, eða með því að þrýsta á tvo hnappa í stýrinu. Þetta gefur ökumanni kost á því að einbeita sér algerlega að akstrinum og komast hjá því að sleppa stýri meðan skipt er um gír, haldi þeir á annað borð rétt umstýrið, því takkarnir færast með því þegar beygt er. Þetta er búnaður sem er ættaður frá Formúla 1-kappakstursbílum og jafnframt er náskyldur ættingi, Ferrari-götubíllinn, með svipuðum búnaði. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að flýta fyrir upp- eða niðurskiptingu, t.d. í beygjum, því ekki þarf að taka hendur af stýri.

Reyndar getur búnaðurinn einnig virkað eins og sjálfskipting sé þar til gerð stilling valin. Kviknar þá á merkinu City í mælaborðinu og bíllinn skiptir sér sjálfur.

Þetta er þriðja kynslóð Selespeed og helsta breytingin er sú að nú eru hnapparnir komnir á "réttan" stað á aftanverðu stýrinu. Þessi skipting gefur kost á sportlegum akstri en, eins og fyrr, er hún hnökrótt sé hún ekki rétt notuð. Sé ekki dregið úr inngjöfinni við skiptingar myndast mikið hik áður en rafbúnaðurinn skiptir um gír og við það tapast hröðun. Þetta á einnig við þegar ekið er í City-stillingu. Svo virðist sem ekki hafi tekist að sníða þessa agnúa af Selespeed, sem voru strax til staðar í fyrstu kynslóð, kannski er það ekki hægt og á ekki að vera hægt, því hafa verður í huga að Selespeed er ekki sjálfskipting heldur beinskipting með sjálfvirkri kúplingu, og mest fæst út úr því að nota búnaðinn með því að haga sér eins og verið sé að aka beinskiptum bíl. Sé dregið úr inngjöfinni um leið og skipt er um gír, alveg eins og allir gera sem aka beinskiptum bíl, er hægt að minnka hikið verulega og gera aksturinn mýkri. Eitt er víst að ökumaður er fljótari að skipta um gír með Selespeed en með hefðbundnum beinskiptum kassa en mýktin frá sjálfskiptingu er ekki til staðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Ístraktor verður tveggja lítra bíllinn einnig fáanlegur með venjulegri handskiptingu með kúplingu og gæti sá kostur átt betur við íhaldssamari bílkaupendur.

Bíllinn kostar þrennra dyra með Selespeed 2.260.000 krónur en með leðursætum, sóllúgu og málmlit er verðið komið upp í um 2,5 milljónir króna.

gugu@mbl.is