Á undanförnum árum hefur verð á húsnæði hækkað mjög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðislán hafa ekki hækkað að sama skapi og hefur það gert húsnæðiskaupendum erfitt fyrir. Brunabótamat er haft til grundvallar í lánsreglum Íbúðalánasjóðs.

Á undanförnum árum hefur verð á húsnæði hækkað mjög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðislán hafa ekki hækkað að sama skapi og hefur það gert húsnæðiskaupendum erfitt fyrir.

Brunabótamat er haft til grundvallar í lánsreglum Íbúðalánasjóðs. Sverrir Kristinsson, fasteignasali í Eignamiðlun, bendir á það í Morgunblaðinu á miðvikudag að hér væri á ferð vandamál, sem taka þurfi á vegna þess að það varði möguleika ungs fólks til að kaupa sína fyrstu íbúð. Þessi vandi hafi skapast vegna þess að breytingar hafi verið gerðar á endurmati brunabótamats þannig að teknir hefðu verið út úr því ákveðnir þættir, sem áður hefði verið byggt á. Ungt fólk fengi í mörgum tilfellum ekki fullt lán vegna þess að brunabótamatið væri ekki lengur í samræmi við markaðsverð á fasteignum. Þetta væri óeðlilegt og eðlilegast væri að gera breytingar á reglugerð um húsbréfaviðskipti.

"Þar sem brunabótamat endurspeglar yfirleitt ekki kaupverð eignar tel ég óeðlilegt að miða lánsreglur Íbúðalánasjóðs við slíkt mat," sagði Sverrir. "Breyting eins og að framan greinir myndi leysa vandamál þeirra, sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð."

Íbúðalánasjóður veitir nú hámark 6,4 milljónir króna til kaupa á gömlu húsnæði og 7,7 milljónir til kaupa á nýju húsnæði. Þessar hámarksupphæðir hafa nú verið þær sömu í um eitt ár og þær hafa ekki hækkað í samræmi við hækkun íbúðaverðs á undanförnum árum, hækkun, sem í mörgum tilfellum nemur 50% á fimm árum. Fyrir vikið er þröskuldurinn mun hærri fyrir þá, sem vilja komast í eigið húsnæði, en hann var fyrir hálfum áratug.

Það er ljóst að ekki er hægt að una óbreyttu ástandi í þessum málum. Fyrir þá sök að húsnæðislánakerfið er ekki lagað að breyttum aðstæðum á fólk á hættu að verða innlyksa á ótryggum leigumarkaði. Ýmsir hafa orðið til að benda á skuldir heimilanna og vísað til óheyrilegrar skuldabyrði. Það er hins vegar engu síðri byrði að þurfa að greiða húsaleigu og því fylgir engu minni skuldbinding til framtíðar, þótt ekki sé í formi láns. Í þokkabót er húsaleiga oft hærri en greiðslubyrði lána af sambærilegu húsnæði. Það getur verið auðvelt að horfa fram hjá vandanum, en það má ekki gleyma því að kerfið er til vegna fólksins og til að koma til móts við þarfir þess, en ekki öfugt. Því er ástæða til að taka undir orð Sverris Kristinssonar um að taka þurfi reglugerðina um húsbréfaviðskipti til endurskoðunar.

Erlend fjárfesting á Íslandi

Í ræðu sinni á Alþingi sl. fimmtudag um utanríkismál sagði Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra m.a.: "Eitt af því, sem við þurfum jafnframt að huga að er hvernig við getum aukið erlenda fjárfestingu á Íslandi, ekki sízt á fleiri sviðum en hingað til ... Aukin erlend fjárfesting er okkur nauðsynleg af mörgum ástæðum. Hún eykur fjölbreytni atvinnulífsins, skapar ný atvinnutækifæri hér heima og eykur velmegun."

Þetta er rétt hjá utanríkisráðherra. Forráðamenn Norðuráls á Grundartanga bíða nú eftir svörum frá stjórnvöldum vegna óska þeirra um verulega stækkun álversins á Grundartanga. Þar er um að ræða umtalsverða erlenda fjárfestingu.