A USTUR í Finnlandi eru menn vel með á nótunum í tónlist og finnskar sveitir fjölmargar standa framarlega í þeirri viðleitni að búa til eitthvað nýtt.

A USTUR í Finnlandi eru menn vel með á nótunum í tónlist og finnskar sveitir fjölmargar standa framarlega í þeirri viðleitni að búa til eitthvað nýtt. Þar á meðal er dúettinn Pan Sonic, sem í eina tíð hét Panasonic, en hann er væntanlegur hingað til lands í vikunni til tónleikahalds.

Þeir Ilpo Vaisanen og Mika Vainio kynntust undir lok níunda áratugarins þegar reifmenningin var í algleymingi í Finnlandi. Ein helsta iðja þeirra var að halda reif í Turku og nágrenni, en Ilpo var líka liðsmaður tónlistarhópsins Ultra 3. Mika hóf að vinna með þeim félögun og úr varð hljómsveitin Sin Ø, sem er enn starfandi. Ekki féllu allar hugmyndir að heimspeki Sin Ø og á endanum stofnuðu þeir Ilpo og Mika dúettinn Panasonic. Sami Salo var í vinahópi þeirra félaga og gekk til liðs við þá og átti þátt í fyrstu breiðskífunni, sem einnig var gefin út sem safn af 10", og kallaðist Vakio.

Vakio kom út 1995 en Salo hætti skömmu síðar. Síðan eru skífurnar orðnar fjórar, Kulma, Endless, þar sem Alan Vega er gestur þeirra félaga, A og Aaltopiiri, sem kom út á dögunum. Þess má geta að 1998 amaðist japanska tæknifyrirtækið Panasonic við nafninu og þeir breyttu því í Pan Sonic, en notuðu A-ið sem gekk af sem nafn á fjórðu breiðskífuna.

Tónleikar Pan Sonic hér á landi næstkomandi miðvikudag eiga sér nokkurn aðdraganda, því að því er Birgir Örn Thoroddsen segir hefur verið unnið að því síðastliðin þrjú ár að fá þá félaga hingað til lands. "Á síðasta ári var reynt að fá þessa snillinga á alþjóðlegu raf- og tölvutónlistarhátíðina, ART2000, sem haldin var í Kópavogi en tókst ekki vegna anna sveitarinnar," segir Birgir. "Snemma á árinu hófust svo aftur viðræður við þá Mika og Ilpo og nú tókst að fá þá til landsins, en dagana eftir tónleikana taka þeir svo upp kórverk sem þeir sömdu í samvinnu við Barry Adamson að beiðni Tilraunaeldhússins."

Tónleikar Pan Sonic verða í litla sal Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, næstkomandi miðvikudag. Um upphitun sjá sveitirnar Curver og Product 8.