LOW ER hljómsveit þeirra Alans Sparhawks, sem leikur á gítar og syngur, og Mimi Parker sem leikur á trumbu og syngur. Þau stofnuðu hljómsveitina meðal annars sem mótvægi við Seattle-rokkið sem var allsráðandi í upphafi tíunda áratugarins.

LOW ER hljómsveit þeirra Alans Sparhawks, sem leikur á gítar og syngur, og Mimi Parker sem leikur á trumbu og syngur. Þau stofnuðu hljómsveitina meðal annars sem mótvægi við Seattle-rokkið sem var allsráðandi í upphafi tíunda áratugarins. Framan af lék John Nichols á bassa en Zak Sally leysti hann af áður en fimmta breiðskífa sveitarinnar, Secret Name, kom út 1999 en Sally kom einmitt með sveitinni hingað til lands og lék á framúrskarandi tónleikum í Háskólabíói og norður á Akureyri.

Low leikur tónlist sem kölluð hefur verið slow-core, sad-core eða draumapopp; draumkennd og hægfara tónlist sem jaðrar við naumhyggju.

Framan af starfaði sveitin með Mark Kramer en skipti um á þriðju breiðskífunni, The Curtain Hits the Cast, þar sem Steve Fisk var við takkana. Á Secret Name var Steve Albini við stjórnvölinn en sú skífa þótti sú besta sem frá sveitinni hafði komið, í það minnsta þar til Things We Lost in the Fire kom út á dögunum.

Á Things We Lost in the Fire er Low við sama naumhyggjuheygarðshornið enda segir Alan Sparhawk að þau Mimi Parker hafi einsett sér að reyna að hafa lögin og undirleikinn eins einfaldan og unnt væri. "Áheyrandi heyrir meira í hægum og naumhyggjulegum lögum og þau draga líka fram tregablandnar tilfinningar sem ekki er að finna annars staðar. Sjálf höfum við mikið dálæti á hljómsveitum eins og Joy Divsion, Wire og O.M.D. en kunnum líka að meta Bítlana, Roy Orbison, Phil Spector og pönk, svo dæmi séu tekin," segir Sparhawk og má til sanns vegar færa sé litið á hljómsveitirnar sem liðsmenn Low eru í sem hliðarverkefni, því hann og Zak eru í nýbylgjusveitinni Hospital People og frumpönksveitinni Tooth Fairies og Mimi er í pönksveitinni Rubbersnake.